18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1938

Finnur Jónsson:

Herra forseti ! Góðir hlustendur! Í útvarpsumræðunum hér í gær taldi hv. þm. G.-K., Ó. Th., þetta þing, sem nú situr, hafa aðeins tvennt vel gert. Hið fyrra að samþ. lög um að létta undir með bændum vegna þess tjóns, er þeir hafa orðið fyrir af fjárpestinni, og hið síðara að setja ný lög um síldarverksm. ríkisins, er miðuðu að því að afnema mitt einræði, sem hann svo nefndi, yfir þeim. Um pestarhjálpina eru allir þm. sammála, og þurfa þau ummæli engra skýringa við. Um einræði mitt, sem hv. þm. svo nefndi, yfir ríkisverksmiðjunum vil ég hinsvegar fara nokkrum orðum og jafnframt leiða rök að því, hvers vegna hv. þm. G.- K. telur það skaða á borð við fjárpestina, að ég skuli vera formaður í stjórn ríkisverksmiðjanna.

Undanfarin tvö ár höfum við setið þrír í stjórn verksmiðjanna, Þorsteinn M. Jónsson bókaútgefandi á Akureyri, Þórarinn Egilsson útgerðarmaður úr Hafnarfirði og ég. Vald formanns stjórnarinnar er í engu meira en hinna annara stjórnenda. Ákvarðanir um framkvæmdir eru teknar á stjórnarfundum, og hefir hver stjórnarmaður eitt atkvæði. Báðir meðstjórnendur mínir eru þjóðkunnir fésýslumenn, og er því ekki um neitt einræði að tala frá minni hálfu í stjórn verksmiðjanna, nema því aðeins, að hv. þm. vilji halda því fram, að ég hafi hnýtt þeim aftan í mig, á sama hátt og honum illu heilli fyrir Sjálfstfl. og þjóðina í heild hefir verið hnýtt aftan í þann flokk. Ég mótmæli þeim ásökunum í garð meðstjórnenda minna í verksmiðjunum sem alröngum, að þeir séu atkvæðaþý eða óþarfir taglhnýtingar á borð við hv. þm. G.-K.

Þá vil ég einnig mótmæla þeim alröngu ummælum hv. þm. G.-K. að núv. verksmiðjustjórn hafi unnið síldarverksmiðjum ríkisins tjón eða viðskiptamönnum eitthvað svipað og fjárpestin bændum. Þessi ásökun er ekkert annað en órökstudd og ósönn fullyrðing, og hreinasta öfugmæli þó.

Einmitt þau tvö ár, sem núv. verksmiðjustjórn hefir setið að völdum, hefir það tvennt farið saman, að viðskiptamönnum verksmiðjanna hefir bæði árin verið greitt hærra verð fyrir bræðslusíld en nokkurn tíma áður síðan verksmiðjurnar tóku til starfa, 1936 kr. 5,50, 1937 kr. 8,00 fyrir málið, og jafnframt hefir hagur verksmiðjanna sjálfra bæði þessi ár batnað stórkostlega.

Þegar við tókum við verksmiðjunum í byrjun rekstrartímans 1935, var fyrningarsjóður verksmiðjanna og afborganir frá byrjun um ½ millj. króna. Í árslok 1936 voru eignir þessar ásamt varasjóði og tekjuafgangi rúm 1100 þús. og nú í árslok um 1½ millj. króna.

Sjóðseignir, afborganir og varasjóðir hafa þannig þrefaldazt á þessum tveim árum.

Þetta tvennt: að borga sjómönnum og útgerðarmönnum hærra verð en nokkru sinni áður fyrir bræðslusíld og þrefalda eignir ríkisverksmiðjanna, er pest í augum hv. þm. G.-K.

Háttv. hlustendum kunna að hljóma þessi ummæli undarlega í eyrum, en ég er ekkert hissa á þeim, því hv. þm. G.-K. hefir aðeins eitt sjónarmið í öllu sínu pólitíska brölti, sem sé hagsmuni h. f. Kveldúlfs. Á árinu 1936 heimtaði þm. G.-K. allt að átta króna verð fyrir bræðslusíld og stofnaði til síldarverkfalls til þess að reyna að koma af stað „stórum atburðum“, eins og hann boðaði sí og æ. Gerði hv. þm. G.-K. kröfu til, að verksmiðjurnar greiddu svo ógætilegt verð fyrir síldina, að þær færu á höfuðið. Þá var það pest í hans augum, að standa á móti þessu, eins og við gerðum í verksmiðjustjórninni. Þá var Kveldúlfur enginn kaupandi að bræðslusíld, heldur seljandi að henni. Þá voru það hagsmunir þessa skulduga félags, sem síldarseljanda, að hafa síldarverðið ógætilegt.

Nú í ár er þessu snúið gersamlega við. Nú er Kveldúlfur orðinn stór bræðslusíldarkaupandi, og nú er það orðin pest í augum hv. þm. G.-K. hvað síldarverðið var ákveðið hátt í sumar.

Ég hefi heyrt þá menn, sem ekkert vit hafa á þessum málum, segja, að bræðslusíldarverðið hafi verið ákveðið ógætilega hátt í sumar. Þetta hefir ekki við nein rök að styðjast. Verðið var ákveðið nákvæmlega eftir sömu reglum eða jafnvel varlegar en á árinu 1936. Því til sönnunar má nefna, að síldarverksmiðjur ríkisins höfðu selt fyrirfram fyrir árið 1937 5775 tonn af lýsi á 21 stpd. pr. tonn, en aðeins um 3000 tonn á árinu 1936 fyrir 17,10,0 stpd. Mjölverðið var lengi framan af árinu 1936 8 stpd. tonnið og fór aldrei hærra en í 9 stpd., en á árinu 1937 11,2,6 stpd. Ef hv. þm. hefði verið samkvæmur því, sem hann var á árinu 1936, hefði hann átt að stofna til nýs síldarverkfalls á árinu 1937 og heimta bræðslusíldina a. m. k. upp í 10–12 kr., því hafi síldarverðið verið ákveðið óhæfilega lágt 1936, þá var það líka ákveðið óhæfilega lágt 1937. En hv. þm. G.-K. þagði, og hann gerði raunar meira en þegja við verðinu 1937. Hann leggur það beinlínis á borð við fjárpestina, hve verðið var skaðlega hátt að hans dómi.

Og fyrir hans fyrirtæki getur það að vissu leyti haft sömu afleiðingar eins og fjárpestin fyrir bændur. En það er engum að kenna nema stjórnendum þessa fyrirtækis sjálfum. Allar aðrar verksmiðjur notuðu sér háa verðið á síldarlýsinu og seldu lýsi fyrirfram, meðan verðið var hátt. Kveldúlfur einn taldi sig hafa ráð á að spekúlera með alla framleiðslu sína.

Hv. þm. mun sennilega segja, að þetta sé þeim vondu Alþýðuflokksmönnum að kenna, sem ekki vildu veita félaginu verksmiðjuleyfi á Hjalteyri. En þetta er haldlaus afsökun. Allar sölur á síldarlýsi fyrirfram eru gerðar með þeim fyrirvara, að lýsið verði framleitt. Framleiði seljandi ekki lýsi, fellur samningurinn úr gildi án nokkurra skaðabóta frá hendi seljanda. — Hvað sem Hjalteyrarverksmiðjunni leið, átti Kveldúlfur verksmiðju á Hesteyri, en seldi þaðan heldur ekkert síldarlýsi, meðan verðið var bezt. Þetta er full sönnun þess, að stjórnendur fyrirtækisins spiluðu fjárhættuspil eins og svo oft áður.

Þeir þurfa ekki að óttast tapið; þeir eru að spila með fé allrar þjóðarinnar. Þeir eiga enn óselt tiltölulega mest allra af síldarlýsi sínu. Verðið hefir farið stöðugt lækkandi, og það svo mjög, að fullt útlit er fyrir, að ekkert geti bjargað þessu stóra skulduga fyrirtæki frá tapi nema enn víðtækari styrjöld en nú geisar, eða einhverjir óvæntir stórir viðburðir, eins og hv. þm. G.-K. myndi orða það. Í stað þess, að hv. þm. G.-K. vildi spenna síldarverðið upp úr öllu valdi 1936, er hann nú farinn að hafa áhyggjur út af því, hvað síldarverðið var hátt 1937, og er það að vonum, því ætlunin hefir verið að láta síldina borga stóru skuldirnar, en ekki auka við þær. Þess vegna hefir hann nú svarizt í fóstbræðralag við hv. þm. S.- Þ., Jónas Jónsson, sem vill ekki greiða sjómönnum og útgerðarmönnum nema 85% af verði bræðslusíldarinnar við móttöku um sérstakt frumv. til laga um Síldarverksmiðjur ríkisins.

Frumv. þetta miðar að því að veikja stjórn ríkisverksmiðjanna með því að gera hana svo ósamstæða, að þar verði sífelldur ófriður og vandræði, eins og var á árinu 1935 og framan af árinu 1936. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir, að ríkissjóður beri framvegis ekki ábyrgð á rekstrarfjárlánum verksmiðjanna. Þetta veikir verksmiðjurnar mjög, og í sambandi við hótanir þær, sem hv. þm. S.-Þ. hefir haft í frammi hér á Alþingi um að láta bankaráð Landsbankans — það er hann og hv. þm. G.-K. — ákveða verð á bræðslusíld, er vert að benda á, að þetta ákvæði mun eiga að nota til þess að gera það að skilyrði fyrir rekstrarfé ríkisverksmiðjanna, að ekki sé greitt nema 85% út á bræðslusíld við móttöku. Þetta myndi geta gefið ráðamönnum Kveldúlfs tækifæri til ógætilegra og óhæfilegra spekulationa með síldarafurðirnar í framtíðinni, eins og þeir hafa gert á þessu ári, en sjómenn og útgerðarmenn bæru af þeim áhættuna.

Ég nota tækifærið til þess að aðvara ykkur, hlustendur, sérstaklega sjómenn og útgerðarmenn, við þeirri hættu, sem ykkur er af þessu búin. Þið eigið heimtingu á réttu verði, fullri greiðslu fyrir bræðslusíldina. En þið verðið að leita allra bragða til að koma í veg fyrir að þið verðið misrétti beittir í því efni.

Þið, megið af þessu sjá, hvað hv. þm. G.K. meinar með stöðugu bónorði sinu til Framsfl., og þá sérstaklega til hv. þm. S: Þ. Hann gerir gælur við þennan gamla fjandmann sinn. En það er ekki með neinni sanngirni hægt að ætlast til, að þið borgið skuldir Kveldúlfs af bræðslusíldarverði ykkar. Ég veit, að ykkur er þetta ljóst, og ég veit, að þið eruð menn til að verja hagsmuni ykkar gegn óhæfilegri kúgun og rangsleitni, ef með þarf.