21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Gísli Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. — Mér vitanlega liggur ekki fyrir nein nákvæm áætlun um þessar verksmiðjubyggingar, hvorki á Raufarhöfn né Siglufirði. Sérstaklega vil ég þó taka þetta fram út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um kostnað við verksmiðjuaukninguna á Siglufirði, að þar liggur engin endanleg áætlun fyrir um kostnaðinn.

Annars vil ég yfirleitt halda mér við það, að ég tel, að þessi stefna, að auka svo mjög afköst á aðeins takmörkuðu svæði á landinu, það sé röng stefna. Ég hygg, að á Raufarhöfn standi svo á, að vel sé hægt að hugsa sér, að þessi verksmiðja, sem á að geta unnið úr 2400 málum á sólarhring, geti vel tekið til starfa og verið starfrækt, a. m. k. alllangan tíma, án þess að hafnarbætur séu gerðar þar til verulegra muna. Á þessum stað hefir nú verið starfrækt verksmiðja á annan áratug, og hafa ekki reynzt nein vandræði á því, og það mundi ekki verða. þó að þessi aukning yrði gerð. Ég vil líka benda á það í sambandi við orð hv. síðasta ræðumanns, að verksmiðjan á Raufarhöfn er nú orðin svo gömul, bæði hús og vélar, að það er aðeins tímaspursmál, hvað lengi hún getur enzt. Þess vegna má segja, að þótt verksmiðjan yrði dýrari nú, þá sé það að nokkru leyti endurbygging á verksmiðjunni.

Út af till. minni viðvíkjandi Þórshöfn, þá vil ég halda við það, sem ég sagði, og til viðbótar vil ég aðeins segja, að ég tók fram, að dýpið við endann á fyrirhugaðri hafnarbyggingu er nálægt 13 fet, en ég get bætt því við, að í höfninni er til meira dýpi en þetta, en hafnarbyggingin, sem ráðgerð er, hefir ekki verið teiknuð lengra fram en þetta, að dýpið er 13 fet. En við nánari athugun munu menn sjá, að mikill hluti síldarflotans getur lagzt þarna að, ekki sízt ef tekin yrði upp sú stefna, sem sumir hv. þm. hafa verið að tala um, að auka flotann með mótorskipum; þá mundi slíkur floti geta hafnað sig þarna. Þar að auki eru á Þórshöfn sérlega góð ræktunarskilyrði og yfirleitt góð vaxtarskilyrði fyrir þorp, sem mundi geta varið þarna upp í sambandi við þessa vinnslu.