18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1938

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti ! Góðir hlustendur! Blær þessara eldhúsumr. hefir, eins og ég benti á í gær, verið með nokkuð öðrum hætti nú en áður. Það er sameiginlegt einkenni á ræðum hv. þm., sem eru í stjórnarandstöðu, að þeir telja sig vera fúsa til samvinnu til að ráða fram úr erfiðleikunum. E. t. v. eru það erfiðleikar tímanna, sem þokað hafa hv. þm. inn á þessa hugsun, og það, að þeir finna, að landsmenn yfirleitt eru þeirrar skoðunar, að samvinnan ætti að vera meiri en hún hefir verið hingað til. Ég býst einnig við, að hv. stjórnarandstæðingum sé það ljóst orðið, að ekki sé auðvelt að reka hér stjórnmálastefnu, sem í aðalatriðum sé öðruvísi en sú, sem framfylgt hefir verið hin síðari ár af núv. stjórnarflokkum. Að vísu reyndu stjórnarandstæðingar að benda á galla á stefnu núv. ríkisstj., en þær ásakanir, sem þeir báru fram, voru mjög veigalitlar, og þær aðfinnslur, sem fram komu, áttu yfirleitt litla stoð í veruleikanum, eins og ég mun nú sýna fram á með nokkrum orðum. En það, sem hlaut að vekja alveg sérstaka athygli, var það, að enginn af hv. stjórnarandstæðingum reyndi að marka fyrir sinn flokk þá stefnu, sem hann vildi fylgja til lausnar núverandi erfiðleikum.

Eitt af því, sem hv. þm. G.-K. (ÓTh) lagði áherzlu á, var það, að lýðræði og þingræði landsins væri misboðið með samvinnu stjórnarflokkanna, vegna þess að þeir hefðu í vor gengið til kosninganna í fullkominni andstöðu. Þessi rök fá ekki staðizt, því að stefna núv. stj. er mörkuð í fullu samræmi við þann vilja, sem kom fram í síðustu kosningum frá kjósendum í landinu. Og eftir þessari kenningu hv. þm. myndi í framtíðinni verða mjög erfitt að mynda stjórn á Alþ., þar sem engar líkur eru til þess, að nokkur einn fl. nái fullkomnum meiri hl. þar í nánustu framtíð. Það eru allar líkur til þess, að þeir fl., sem nú eiga þar fulltrúa, gangi á sínum tíma til kosninga í fullkominni andstöðu hverjir við aðra. Og samkv. kenningu hv. þm. G.-K. ætti þeim því að vera óheimilt að hefja stjórnarsamvinnu, þótt málefnislegt samkomulag næðist, nema með því að ganga til kosninga á ný um málefnasamninginn! Þetta er vitanlega firra, sem ekki er farið eftir í nokkru lýðræðislandi, þótt þingræði sé þar í hávegum haft. En það er annað, sem ég tel, að sé hættulegt fyrir þingræðið og lýðfrelsið í landinu, og það er málflutningur sá, sem nú tíðkast frammi fyrir alþjóð. Menn reyna að gylla sinn málstað, en þegar betur er að gáð, er þetta, sem fram er borið, aðeins skrumauglýsingar. Til þess að finna þessum orðum mínum stað, vil ég fyrst og fremst benda á málflutning kommúnistanna. Þeir segjast vilja þjóðfylkingu — ef stjórnin vilji fara að sinum ráðum. Og ráðin, sem þeir benda á, eru að taka um 1 millj. kr. með ýmsum beinum sköttum. Fyrst og fremst er nú þessi eina millj. kr., þótt fáanleg væri á þennan hátt, með engu móti fullnægjandi fyrir ríkissjóð, því að tekjuaukaþörf hans er um 3 millj. kr., miðað við þær lágmarksráðstafanir, sem Alþ. hefir orðið sammála um, að geru þyrfti vegna fjárpestarinnar og sjávarútvegsins. En jafnframt er öllum ljóst, að þessi 1 millj. kr. er ófáanleg með þeim aðferðum, sem kommúnistar hafa bent á. Þeir benda á hækkun tekjuskattsins, og þó er þessi skattur orðinn hærri hér á landi en í landi, þar sem konunúnistar sjálfir styðja og bera ábyrgð á ríkisstjórn, nefnilega í Frakklandi. Þar hefir tollaleiðin verið farin. Kommúnistar benda á skatt af óbyggðum lóðum og segja, að framsóknarmenn hafi verið fylgjandi þessum skatti áður. Nú vita kommúnistar hinsvegar, að allt öðruvísi stendur á nú en fyrir nokkrum árum í þessu efni. Lóðaverð stendur í stað, eða fer jafnvel heldur lækkandi, og þess vegna leggur enginn óvitlaus maður fé sitt í slíka hluti með gróða fyrir augum. kommúnistar benda á stóríbúðaskattinn, sem einnig var nauðsynlegur fyrir nokkrum árum, meðan menn voru of bjartsýnir og byggðu uf stórt. Nú hefir reynslan kennt mönnum að hætta slíku. Og þar sem ýmsir eigendur stærstu húsanna eru farnir að leigja þau út af því að tímarnir knýja þá til þess, þá er stórum minni ástæða nú en fyrir nokkrum árum til þess að leggja á þennan skatt, enda er um sáralítið fé að ræða, sem hann gefur af sér. Þeir benda á að ákveða hámarkslaun hjá starfsmönnum ríkisins, sem við höfum verið fylgjandi. Þeir vita það þó, konunúnistarnir, að með hækkun tekjuskattsins er tekinn kúfurinn af launum hátekjumannanna, ekki einungis þeirra, sem eru starfsm. ríkisins, heldur og þeirra, sem atvinnu hafa hjá einkafyrirtækjum, og þannig er náð til fleiri en til næðist með l. um hámarkslaun embættismanna og starfsmanna ríkisins. Þannig er það auðsætt, að ábendingar konunúnistanna eru ekki gerðar til þess að efla og viðhalda stjórnarsamvinnu vinstri flokkanna á grundvelli raunveruleikans, heldur þvert á móti eru þær skrumauglýsingar, gerðar til þess að reyna að afla sjálfum sér fylgis. Þær eru af sama toga spunnar, þessar aðfinnslur, og tillögur þeirra um óframkvæmanlega framfærslu fyrir bændur á fjárpestarsvæðunum og um gefins fóðurbæti til bænda á óþurrkasvæðunum. Þetta eru samskonar till. og í sama tilgangi fram bornar og till. þær, sem Bændafl. hefir verið aðalhöfundur að hér á Alþ. til þessa.

Sama eðlis eru og ádeilur kommfl. á hendur Framsfl. fyrir það, að við viljum taka upp samvinnufyrirkomulag í útborgunum við síldarverksmiðjur ríkisins, sömu aðferð og bændur nota í sínum samvinnufélögum, aðferð, sem tryggir sjómönnum sannvirði fyrir síldina. Hér er verið að reyna að smeygja inn tortryggni og óánægju, þótt kommúnistar viti það eins vel og við, að verksmiðjurnar geta ekki greitt meira en sannvirði fyrir síldina; því að hvaðan ætti þeim að koma mismunurinn, ef meira væri greitt?

Aðferð kommúnistanna í Akureyrardeilunni sýndi það líka vel, að þeim lék meiri hugur á að rjúfa stjórnarsamvinnuna heldur en að efla hana, og sama sýnir undirróður þeirra og andstaða gegn vinnulöggjöfinni, sem þeir vita, að er óhjákvæmilegt að setja til þess að tryggja vinnufriðinn og koma í veg fyrir hrun atvinnulífsins, sem orsaka mundi tjón og eyðileggingu fyrir alla jafnt, og ekki sízt verkamennina, ef ekki er komið í veg fyrir það. Þessa löggjöf vita þeir, að Framsfl. sem ábyrgur stjórnmálafl. hlýtur að leggja mikla áherzlu á, að verði samþ. Það er ekki verið að skýra frá því jafnframt þessari andstöðu gegn vinnulöggjöfinni af hálfu kommúnista, að Rússland hefir sína vinnulöggjöf, „akkords“ — vinnu og sterkari lögreglu og her en flest ríki í Evrópu. Þessi vinnuaðferð kommúnistanna, sem þeir hafa alstaðar tekið upp til að afla sér fylgis, að bjóða vinstri flokkunum samvinnu í orði, getum við framsóknarmenn ekki tekið alvarlega, meðan þeir bæði hér á Alþ. og utan þings breyta gegn þessu skrafi sínu. Ef kommúnistar hafa í einstökum kjördæmum stutt frambjóðendur Framsfl. við kosningarnar s. l. sumar, þá hafa þeir gert það af ótta við breiðfylkinguna og afleiðingarnar af valdatöku hennar, og er þeim sá stuðningur fulllaunaður með því að koma í veg fyrir þessar afleiðingar. Enda hefir Framsfl. ávallt lýst yfir því, að hann myndi ekkert tillit taka til vilja kommúnista, meðan þeir ekki í verkum sínum kæmu svo fram sem hæfði ábyrgum stjórnmálafl. En þannig hefir hann ekki komið fram hingað til, þrátt fyrir sín fögru orð.

Sama máli gegnir að ýmsu leyti um Sjálfstfl. og Bændafl. Sjálfstfl. vill taka 4 millj. kr. úr ríkissjóði með tilflutningi tolla og auknum útgjöldum úr ríkissjóði og auka á þann hátt hallann á fjárl. um þessar 4 millj. kr. Þessar ráðstafanir segist sá flokkur vilja gera til þess að styðja sjávarútveginn. Þetta er sagt fyrir sjávarútvegsmennina. Hinsvegar segjast þeir ekki vilja hækka skatta og tolla, og deila harðlega á ríkisstj. fyrir hinar þungu álögur á þjóðina. Þetta er sagt fyrir skattgreiðendurna.

Þegar stjórnin fer milliveg og greiðir um hálfa millj. kr. til sjávarútvegsins og annað eins til hjálpar landbúnaðinum vegna fjárpestarinnar, og hækkar tolla og skatta til þess að vega upp þessar greiðslur ásamt fyrirsjáanlegum tekjuhalla, sem fyrir var á fjárl., þá er ráðizt á ríkisstj. fyrir tvennt: Annarsvegar fyrir það, að hún geri ekkert fyrir sjávarútveginn, og hinsvegar fyrir það, að hún leggi drápsklyfjar tolla og skatta á þjóðina. Það er talað um, að færa þurfi niður útgjöld fjárl. En í hv. fjvn. benda stjórnarandstæðingar ekki á neinar leiðir til þessa. Hér er sama ábyrgðarleysið og tvöfeldnin og gætir svo mjög hjá kommúnistum.

Fyrir ríkisstj. eru og lagðir reikningar og áætlanir, þar sem gert er ráð fyrir, að 110 þús. kr. tap muni verða á rekstri hvers togara yfir vetrarvertíðina á næsta ári, miðað við afkomu hinna tveggja lélegu undanfarinna ára á vetrarvertíðinni. Og svo er farið fram á að afnema toll, sem myndi í hæsta lagi geta létt um 3–4 þús. kr. gjöldum af útgerðinni. Síðan er sagt við sjómennina, að vegna þess, að ríkisstj. hafi ekki viljað létta þessum 3–4 þús. kr. gjöldum af útgerðinni, þá sé ekki mögulegt annað en að kaupgjaldið hljóti að hækka, sem útgerðin þarf að greiða. Sömu aðferðinni er beitt, þegar útgerðarmenn gera kröfur til þess að fá umráð yfir gjaldeyrinum, sem fæst fyrir þeirra framleiðsluvörur, til frjálsra afnota til þess að selja hann fyrir það verð, sem þeim kynni að bjóðast, og lækka þannig gengi krónunnar ófyrirsjáanlega. Hér á Alþ. og í áheyrn alþjóðar segir hv. þm. G.-K., að hann vilji verða við þessari kröfu útgerðarmanna, að þeir fái umráð yfir sínum eigin gjaldeyri, og þá skilja sennilega flestir útgerðarmenn þessi ummæli hans svo, að hann vilji í raun og veru verða við kröfum þeirra og óskum. En þegar þessi hv. þm. er spurður að því uppi í stjórnarráði, hvort hann vilji horfast í augu við afleiðingar þeirra framkvæmda, sem gera þyrfti til að þóknast útgerðarmönnum í þessu, þá vill hann láta útgerðarmenn fá umráð yfir gjaldeyri sínum til kaupa á nauðsynjum til útgerðarinnar, sem er allt annað en það, sem þeir í aðalatriðum óska eftir að fá, og sem tekið hefir verið vel í að athuga. En ástæðan til þessa er sú, að útgerðarmenn ýmsir vilja gengislækkun; peningamennirnir vilja hana hinsvegar ekki.

Svipuð afstaða kemur fram hjá Sjálfstfl. hvað snertir útborgun síldarverksmiðjanna. Þeir vilja láta sjómennina vinna upp á hlutaskipti nú við þorskveiðarnar, þótt þeir væru því mótfallnir meðan vel áraði og gróðinn var mikill af þeirri útgerð. En viðvíkjandi síldarverksmiðjunum telur Sjálfstfl. sig ekki geta fallizt á þetta, því að þar eiga útgerðarmenn í hlut.

Það er stöðugt talað í blöðum Sjálfstfl. um dýrtíðina, sem ríkisstj. leiði yfir landið. Þetta er sagt við neytendurna. En svo er stjórnin látlaust skömmuð fyrir innflutning þann, sem hún hefir veitt kaupfélaginu hér í bænum, sem allir vita þó, að hefir gert stórkostlega mikið í þá átt að halda niðri og lækka vöruverðlagið í bænum. Þetta er sagt, þ. e. a. s. stjórnin er skömmuð fyrir þetta, vegna kaupmannastéttarinnar.

Það mætti nefna mörg fleiri dæmi þess, að Sjálfstfl. á enn langt í land til þess að reka ábyrga stjórnmálastefnu, þar sem samræmi er milli athafna og orða, þar sem tekið er á staðreyndunum og reynt að leysa málin með tilliti til staðreyndanna, þótt komið sé við hagsmuni einstakra manna. Það er mjög langt bil á milli ábyrgrar stjórnmálastefnu og þeirrar, að telja sjómönnum trú um, að hægt sé að hjálpa þeim með milljónum króna og segja skattgreiðendum jafnframt, að þeir þurfi ekki að greiða hærri skatta eða tolla.

Flokkar þeir, sem ekki reka ábyrga stjórnmálastefnu, reyna stöðugt að tala tveim tungum og haga máli sínu eftir því, við hvern talað er í það skiptið. Gott dæmi um þetta er Sjálfstfl. Hann hefir áður rekið ábyrga stjórnmálastefnu.

En það er orðið langt gengið frá slíkri stefnu, er flokkurinn telur sjómönnum nú trú um, að hægt sé að ráðstafa fjórum millj. króna til eflingar sjávarútveginum og jafnframt lækka alla tolla og skatta. Með slíkum flokki getur Framsfl. ekki unnið nema hann breyti um stefnu. Aðalástæðan til þess, að Framsfl. rauf stjórnarsamvinnu við Alþfl. var sú, að okkur þótti þess gæta um of, að Alþfl. tæki upp þær ábyrgðarlausu baráttuaðferðir, sem nú eru mest notaðar af Sjálfstfl. og Kommúnistafl. Með flokkum. sem beita slíkum bardagaaðferðum, getur Framsfl. ekki unnið. Jafnaðarmenn hafa á þessu þingi tekið á sig ábyrgð á þeim tollum og sköttum, sem óumflýjanlega hefir orðið að leggja á vegna ráðstafana Alþingis, sem allir flokkar eru sammála um, að eigi að gera. Bæði Sjálfstfl. og Kommfl. ætla sér að reyta fylgi af jafnaðarmönnum fyrir þessa afstöðu þeirra, fyrir það, að hafa sýnt ábyrgðartilfinningu í þingstarfinu. Framsfl. er óhræddur við slíkar tilraunir. Allir vita, að það verður að gera ráðstafanir til að hjálpa sjávarútveginum og bændum þeim, sem orðið hafa fyrir mestu tjóni af völdum fjárpestarinnar. Til þess að það væri hægt, hafa stjórnmálaflokkarnir orðið að leggja á skatta og tolla, og þeir hafa sagt þjóðinni frá því. Ég fyrir mitt leyti geri það óhræddur. Framsfl. hefir alltaf tekizt að gera kjósendum sínum ljóst nauðsynina á því, að flokkurinn ræki ábyrga stjórnmálastefnu, og hann gerir kröfu til þeirra flokka, er með honum vinna, að þeir geri það einnig. Vinnuaðferðir Framsfl. eru öllum kunnar.

Hann hefir veitt viðnám flutningi fólksins til sjávarsíðunnar, svo að sveitirnar skuli ekki leggjast í auðn. Hann hefir stöðugt fylgt þeirri viðreisnaraðferð, að það eigi að hjálpa mönnum til að hjálpa sér sjálfum. Hann hefir stuðlað að stofnun rjómabúa, en þau hafa sjálf orðið að bera hita og þunga rekstrarins. Sama stefnan liggur til grundvallar hinni stórkostlegu skipulagningu á afurðasölumálum bænda, sem flokkurinn hefir komið á. Það er marg enn ógert fyrir bændurna, og þar er verið að halda áfram á sömu braut og hingað til, byggðar nýjar mjólkurstöðvar, mjólkurskipulagið endurbætt, verðjöfnunarsjóðurinn aukinn, byrjað að blanda þurrmjólk í brauð, endurbætt skipulag grænmetisframleiðslunnar. Í vor verður settur á stofn garðyrkjuskóli, sem mun hafa mikil áhrif þegar á næstu árum. Það má ekki ganga svo lengur, að hverahitinn sé að mestu ónotaður. Það er fullvíst, að viðreisnarstarfsemi sveitanna og landbúnaðarins verður haldið áfram á sama grundvelli og árin að undanförnu. Og þar eins og annarsstaðar miðast starf Framsfl. við það, að auka verklegu þekkinguna, hjálpa þegnunum til sjálfshjálpar, og það þarf engum að koma á óvart, þó að við Framsóknarmenn bendum á sömu leiðirnar til viðreisnar við sjávarsíðuna. Framsfl. hefir varað við stórútgerðinni, stórgróðafíkninni.

Meðan allt lék í lyndi, vildu stórútgerðarmennirnir kaupa vinnuna og græða. Framsóknarmenn hafa frá byrjun bent á hlutaskipti og samvinnuútgerð sem leiðirnar til heilbrigðrar útgerðar. Og nú eru útgerðarmenn orðnir fylgjandi hlutaskiptum, af því að gróðahlutföllin hafa snúizt við. En þetta fyrirkomulag á ekki bara að gilda á erfiðleikatímum, heldur einnig þegar batnar í ári. Sjómenn eiga að fá sannvirði fyrir vinnu sína. Til lengdar geta þeir ekki heldur fengið annað. Framsfl. er reiðubúinn til að rétta útgerðinni hjálparhönd, en engan þarf að undra, þó að hann setji þau skilyrði, að þar verði teknar upp þær vinnuaðferðir, sem bezt hafa reynzt bændum.

Þau orð hafa verið látin falla, er bent gætu til þess, að fleiri flokkar en núv. stjórnarflokkar vildu styðja viðreisnarviðleitni stjórnarinnar. Ég vildi óska, að sá stuðningur kæmi meira fram á borði en í orði. Til þess að slík samvinna gæti tekizt, verður að vera samræmi í orðum og gerðum, og það ólíkt meira en gætt hefir hjá andstöðuflokkum stj. á þessu þingi. En eins og bent hefir verið fram á, er skraf Kommfl., Sjálfstfl. og Bændafl. einungis í skrumtilgangi og á sér enga stoð í veruleikanum. Tal kommúnista um stuðning við stj. er eingöngu gert í þeim tilgangi að afla sér kjörfylgis. Ég legg ekki mikið upp úr tali Sjálfstfl., þó að það væri óneitanlega ánægjulegt, ef sjálfstæðismenn væru loksins farnir að átta sig á því, að stefna Framsfl. er sú eina stjórnmálastefna, sem hægt er að reka í landinu á yfirstandandi tímum.