20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jóhann Jósefsson:

Mér virðist það vera dálítið eftirtektarvert þegar formælendur þessa máls fara að rökstyðja nauðsyn þess og ástæður, að þá fer mestur tíminn, bæði hjá hv. 2. flm. og hæstv. ráðh., í að bera sig saman við sjálfstæðismenn, án þess að þeir séu nokkuð farnir að láta til sín heyra um þetta mál, og þeir jafnvel gera okkur upp orðin og finna til svör við þeim fyrirfram.

Það er líkt kaldhæðni örlaganna, þegar hv. 2. flm. fer að tala um hið einstaka ábyrgðarleysi sjálfstæðismanna í fjármálum. Annars verð ég að segja, að það er leitt, að hæstv. fjmrh. gefur sér ekki tíma til að hlusta á fá orð um þetta mál, heldur þýtur út úr d. Hann er að vísu búinn að svara fyrirfram, en verið getur, að ég komi ekki með það, sem hann var mest að fiska eftir, að kæmi hér fram. En ég ætlaði bara að segja, að það mun flestra manna álit í þessu landi, að höfuðorsökin fyrir því giftuleysi yfir höfuð, sem sýnist elta núverandi stj. eins og skugginn hennar, höfuðástæðan fyrir því er einmitt ábyrgðarleysi sósíalista, sem hún hefir valið sér að meðstarfsmönnum. Það er ekkert launungarmál, og það veit ekki einu sinni allur þingheimur, heldur og landsmenn yfirleitt, að hin stóraukna eyðsla undanfarinna ára hefir runnið ekki hvað sízt undan rifjum sósíalista hér á þingi. Þess vegna er það dálítið broslegt, þegar þessi hv. þm. hefir hér upp sína rödd til þess fyrirfram og án þess að nokkur stjórnarandstæðingur sé farinn að láta til sín heyra, að útmála ábyrgðarleysi sjálfstæðismanna í fjármálum. Og ástæðan til þess er sú, að sjálfstæðismenn hafa leyft sér að bera fram hér á þingi till. í ýmsum opinberum málum, sem hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, en það er eins og það sé bannaður hlutur, ef sjálfstæðismaður ber það fram, þá er það ábyrgðarleysi og gyllingar á máli þessa hv. þm. Þess er skemmst að minnast, að tveir sjálfstæðismenn í þessari d. fluttu frv. til lagfæringar á fjárhag sveitar- og bæjarfélaga, sem fór í aðra átt en þetta frv. Þá þreyttust stjórnarliðar ekki á að útmála, hvílíkt óskapa ábyrgðarleysi fylgdi okkar athöfnum, þegar við lögðum til, að bæjarfélögin fengju að njóta einhvers hluta af ágóða vínverzlunarinnar, sem allir vita, að eykur stórlega á byrðar bæjarsjóða, þetta var talið sérstakt ábyrgðarleysi af okkur, að vilja fá í bæjarkassann eitthvað af þeim peningum, sem borgarar bæjarins fleygja út fyrir áfengi. — Það var annars svo lítið, sem hv. 2. flm. lét í ljós um þetta mál annað en þetta, að ég hefi ekki ástæðu til að fara langt út í hans ræðu.

Ég mun þá bíða með mína ræðu, þangað til hæstv. fjmrh. sér sér fært að hlusta á mál óbreyttra þm. hér í d. Vænti ég, að hæstv. forseti misvirði það ekki við mig, þó að ég kinoki mér við að tala yfir tómum ráðherrastólnum. (BSt: Hæstv. fjmrh. er við atkvgr. í Nd.) — Ég get þá, meðan hæstv. ráðh. sést ekki í d., minnzt á annað, sem mér virðist talsvert atriði í þessu máli. Í grg. frv. er talað um það sem nýmæli, sem hefir komið í sambandi við önnur frv., að til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga eigi að renna 700 þús. kr. samkvæmt þessu frv. og öðrum. Ég vil nú spyrja hv. flm., hvort þessar 700 þús. kr. séu alveg nýmæli og þetta séu nýir peningar, sem eigi að renna í bæjar- og sveitarsjóði, því að mér virðist, eftir því sem liggur fyrir í frv. stjórnarinnar, þá sé engin ný fjárveiting til bæjar- og sveitarsjóða. Hinsvegar er í fjárlfrv. stj., 17. gr. 3. lið, samkv. l. nr. 68 1932, um breyt. á fátækral. veittar kr. 250 þús. Og eftir því sem mér er kunnugt um, þá hefir þessi gjaldaliður, 250 þús., verið þarna að undanförnu og verið notaður til þeirrar jöfnunar á fátækraframfærslu milli bæjar- og sveitarfélaga, sem einmitt er gert ráð fyrir í því nýja frv., að þessar 700 þús. kr. renni til. Hér er því ekki að ræða um neinar nýjar 700 þús. kr., sem eigi að renna til bæjar- og sveitarfélaga, heldur er þar aðeins um 450 þús. kr. að ræða, að því er mér virðist. Um þetta atriði óska ég að fá skýringu hjá hv. flm.

Ég vil þá líka beina nokkrum orðum til hv. flm. víðvíkjandi 4. gr., þar sem ræðir um innflutningsgjald af benzíni og ráðstöfun á þeim hækkaða benzínskatti. Meðal þeirra vega, sem taldir voru í frv. upphaflega, þegar benzínskatturinn var hækkaður, var samþ. af Nd. að láta Vestmannaeyjar njóta 5 þess. kr. af þessari skiptingu, sem talin var upp í 4. gr. Ég minnist þess, að þegar þetta mál lá fyrir fyrra þingi þessa árs, þá kom síðari flm. þessa frv. með þá brtt. í þessari d., að Vestmannaeyjar skyldu fá þessar 5 þús. kr.. eins og upphaflega hafði verið samþ. af Nd. Ég sé ekki, að þessi breyt. breyti ástæðunni, hvað benzínskattinn áhrærir, þegar þingið féllst á, að Vestmannaeyjar nytu til malbikunar sem svaraði þeirri hækkun, sem á Vestmanneyjabenzínið kæmi, eins og mér virtist líka hv. 2. flm. viðurkenna í verkinu, þegar hann gerði brtt. 2 sínum tíma. Ég vænti, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, setji þennan lið inn í 4. gr., því að annars væri mikið ranglæti haft í frammi við Vestmannaeyjar, því að benzínskattur er þar mjög mikill, en hrein undantekning, að bifreið frá Vestmannaeyjum aki hér á meginlandinu. Þess vegna er það sjálfsagður hlutur, að þessi kaupstaður njóti hlutfallslega þessarar viðbótar á skattinum, sem aðrir eru látnir njóta.

Hún er víst löng þessi atkvgr. í Nd., hæstv. ráðh. er ekki kominn enn. Mér hefði þótt viðeigandi sökum embættistignar hans að beina orðum mínum ekki aðeins til hv. 2. flm., heldur einnig til hans, þar sem hann hélt líka lengstu ræðuna. Ég vil því ekki setjast niður, nema hæstv. forseti gefi mér leyfi til að fresta ræðu minni, þangað til hæstv. ráðh. hefir tök á að vera hér. Annars er það leiðinlegt, þegar hæstv. ráðh. halda hér ræður, sem eðlilega gefa ástæðu til andsvara, og hverfa samstundis, þegar eitthvað á að athuga það, sem þeir hafa sagt, en þetta er orðið algengt hér á þingi.