20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Guðmundsson:

Ég hélt, að það hefði verið samkomulag frá okkar hálfu að segja ekki neitt við þessa umr. En hv. þm. Vestm. stóðst ekki áfrýjanir og eggjanir í ræðu hv. 10. landsk., sem ég ekki álasa honum fyrir, og af því leiddi allar þessar umræður. Sé ég því ekki heldur ástæðu til að sitja hjá, og vil þá fyrst segja það um þetta frv.; að ég lít á það sem samkomulag á milli stjórnarflokkanna um það, hversu eigi að koma fyrir skattamálum næsta árs. En í því sambandi vil ég gjarnan spyrja, hvort ekki sé ætlazt til, að minni hl. fái að hafa neina íhlutun um þetta mál á þessu þingi, því að ég tel það vera nokkuð hart, ef tveir flokkar, sem ekki hafa á bak við sig meiri hl. þjóðarinnar, gera svo bindandi samninga sín á milli, að ekki sé hægt að koma fram neinum breytingum af hálfu þeirra manna, sem eru fulltrúar fyrir allt að helmingi þjóðarinnar (JBald: Það yrður séð fyrir þeim). Verður séð fyrir þeim? Stjórnarflokkarnir ætla að sjá fyrir þeim sjálfir. En mér finnst þetta allhæpin aðferð og vera í ósamræmi við reglur, sem gilda í lýðræðislöndum og þingræðislöndum. Ég er ekki að segja, að þetta sé útbúið svona nú, en ég spyr, hvort svo sé eða ekki. Ég vil benda á, að ég er hræddur um, að í þessu frv. séu atriði, sem margir sjálfstæðismenn á þingi eiga erfitt með að ganga inn á. Á ég alveg sérstaklega við það ákvæði, að láta framlög til sjávarútvegsins ganga gegnum hendur svonefndrar fiskimálanefndar. Ég get ekki séð, að það eigi að vera nokkurt kappsmál fyrir stjórnarflokkana, að fé verði endilega veitt þessa leið. Og mér skilst, að ef sá atvinnuvegur, sem í hlut á, óskar að hafa aðra aðferð, þá sé það útlátalitið, ef ekki er haft fyrir augum annað en velferð þess atvinnuvegar. Það ætti að vera nokkurnveginn gefinn hlutur, að sá atvinnuvegur, sem hér á hlut að máli, vill ekki gera annað en það, sem hann sjálfur telur vera bezt fyrir sig, og ég er þess vegna ekki alveg viss um, að rétt sé af stjfl. að setja sig á þann háa hest, að vilji vera yfirráðamaður þessa atvinnuvegar. Enda hefir nú verið bent á það af hv. þm. Vestm., að þessi ráðsmennska hefir ekki farizt þannig, að ástæða sé til þess að vera ánægður með hana í öllum greinum.

Hv. 10. landsk. sagði, að beinu skattarnir væru nú orðnir svo háir, að ómögulegt væri að hækka þá meir. Það er gott að fá þessa játningu nú, því að verið getur þá, að jafnaðarmenn fari ofurlítið að stinga við fæti með skattahækkanir. Og sjálfsagt er það rétt, sem hv. þm. sagði, að hann flytji ekki með glöðu geði frv. um stórkostlegar tollahækkanir á nauðsynjavörum almennings, og verður honum það vonandi til viðvörunar í framtíðinni.

Annars er það um hækkunina á tekjuskattinum að segja, að mér sýnist hækkunin á skalanum í 2. gr. frv. vera gífurlega mikil. Hefi ég gert þarna samanburð víð gildandi l. frá 1935, og er hækkunin stórkostlega mikil. Við þetta á svo að bætast 10% álag samkv. 5. gr. frv., og skal mig því ekki undra, að þeir séu farnir að finna það, stjfl., að þeir séu nú komnir eins langt og hægt er í þessum efnum. Enda er það augsýnilegt, að með þessum skatti, að viðbættu útsvarinu, er beint tap á því fyrir menn að hafa tekjur fyrir ofan visst mark.

Þá eru það þessar eilífu umr. um hækkunartill. sjálfstæðismanna. Það er eins og stjfl. gangi út frá því, að sjálfstæðismenn hér á þingi hafi ekki nokkra heimild til þess að koma með neina hækkunartill., því að þá er talað um, hversu óforsvaranlegt það sé að sjá ekki fyrir neinum tekjum á móti. Þetta klingir í hvert einasta skipti. En nú skulum við athuga, hvað ráðh. sjálfur hefir gert. Hann leggur fram í þingbyrjun fjárlfrv. fyrir árið 1938 með 900 þús. kr. greiðsluhalla, án þess að benda á nokkra leið til þess að greiða hann með. Og það er fyrst nú, eftir 5–6 vikur, sem hann gerir það. Ef nú sjálfstæðismenn hefðu borið þetta fram í byrjun þings án þess — eins og ráðh. — að koma með nokkrar till. um auknar tekjur, þá er ég hræddur um, að heyrzt hefði þessi sami sónn, að þetta væri óforsvaranlegt og bæri vott um gífurlegt ábyrgðarleysi í fjármálum. Þetta er alveg óþolandi yfirgangur, og sýnir það, að stjfl. telja sig eina eiga að ráða um fjármál ríkisins.

Nú vil ég benda á það, að ég fæ ekki betur séð, en að í þessari till. sé að ýmsu leyti farið eftir till. sjálfstæðismanna í þessum málum, t. d. um afnám útflutningsgjalds af saltfiski. Sjálfstæðismenn hafa borið það fram mörg undanfarin ár, og nú taka stjfl. það upp. Eitthvað á líka að fara til hraðfrystihúsa, á svipaðan hátt og sjálfstæðismenn hafa stungið upp á. En þarna á bara að fara þá krókaleið, sem sjálfstæðismönnum er afarilla við, sem sé að láta þetta fara gegnum fiskimálanefnd. Við sjálfstæðismenn höfum einmitt séð það í mörg ár, að ósanngjarnt var að heimta af sjávarútveginum — eins og hann er staddur — þetta útflutningsgjald, og það hefði verið hægt, alveg eins nú, að afnema það fyrr og hækka einhverja innflutningstolla í staðinn.

Svo er nú enn eitt við þetta frv. Ég veit að vísu ekki, hvað mikið fellur til sjávarútvegsins af þessu innflutningsgjaldi, sem frv. gerir ráð fyrir, en ég er sannfærður um það, að ákaflega mikið af þeirri upphæð, sem sjávarútvegurinn losnar við með brottfellingu útflutningsgjaldsins af saltfiski, verður hann að borga aftur í sköttum. Þess vegna sé ég í hendi mér, að með. þessari löggjöf er í raun og veru tekið með annari hendinni það, sem gefið er með hinni.

Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. sagði, að hann væri eftir hina löngu ræðu hv. þm. Vestm. óviss um, hvort hann fylgdi frv. eða ekki. Má vel vera, að bann hafi ekkert um þetta sagt, og ætla ég ekki að fara að svara fyrir hann. En ég segi fyrir mína hönd, að ég sé í hendi mér, að ríkissjóður þarf að fá á þessu þingi mikinn tekjuauka, en ég krefst þess jafnframt, að Sjálfstfl. fái að hafa hönd í bagga um það, hvernig skattarnir eru á lagðir. Ef stjfl. vilja ekki í neinu sinna þeirri kröfu, þá er náttúrlega óvandari eftirleikurinn hjá Sjálfstfl. Þá getur hann gert málinu það, sem hann vill. Það er heilbrigt fyrirkomulag, enda þótt stjfl. geti keyrt fram mál, þá leiti þeir samt samvinnu við minni hl., ekki sízt þegar sá minni hl. er meiri hl. meðal þjóðarinnar. — En um leið og ég lýsi því yfir, að ég sé, að ríkið þarf á miklum tekjuauka að halda á þessu ári, þá vil ég taka það fram, að það, hversu mikil sú þörf er, á mjög rót sína að rekja til þess, hvernig á fjármálunum hefir verið haldið undanfarin ár. En því verður ekki breytt, og það verður að taka hlutina eins og þeir eru.

Það var svo að heyra á hæstv. fjmrh., að þörfin fyrir auknar tekjur kæmi mest af því, hversu mjög hefðu brugðizt tekjustofnar ríkisins, sérstaklega verðtollur og vörutollur. Hann tekur til samanburðar um það árið 1925. Mér finnst nú vera nokkuð langt seilzt að taka það ár til samanburðar. (Fjmrh: Ég gerði það að gefnu tilefni). Nei, það er ekki að gefnu tiletni, því að við framlagningu fjárl. var hann einnig að bera saman við árið 1925. Síðan 1925 hefir ríkissjóði sannarlega ekki bætzt við neitt smáræði af tekjum. Ef hæstv. ráðh. þess vegna vill bera saman árin 1925 og 1937, þá verður hann einnig að minnast þess, hvaða tekjuauka ríkissjóður hefir fengið á þessu tímabili. Það er ekki svo lítið, sem hann t. d. hefir fengið af sölu og innflutningi vína, eða þá af „klauflaxinum“, sem samþ. var í hittiðfyrra.

Annars er eitt atriði, sem gerir menn hugsandi um þessi mál, sem sé, að hér virðist allt vera á leiðinni niður á við. Gjaldeyrisástandið er nú verra en nokkru sinni fyrr, og ríkissjóður er verr stæður en hann nokkru sinni áður hefir verið. Þetta er alveg þveröfugt við það, sem annarsstaðar virðist vera. Fyrir nokkrum dögum var ég að lesa það í dönskum blöðum, að þar er stórkostlega verið að slaka til á innflutningshöftunum. Það er innflutningur fyrir um 700 millj. kr., sem þar er gefinn frjáls, í viðbót við það, sem áður var, og allir flokkar þar eru sammála um, að þetta muni ekki hafa nein ill áhrif fyrir ríkissjóð, heldur þvert á móti. — Ef ég lít á inn- og útflutning síðan 1930, þá get ég ekki séð, hvernig á því stendur, að ríkissjóður er svo miklu verr staddur nú, að sögn ráðh., heldur en hann áður hefir verið. Á yfirstandandi ári er innflutningurinn í október orðinn miklu hærri en hann var árið 1936, og hlýtur hann því að gefa meiri tekjur nú. Við þetta bætist svo allur innflutningurinn í nóvember og desember, svo að ég fæ ekki skilið, að tolltekjurnar minnki svona gífurlega eins og mér virðist hæstv. ráðh. gefa í skyn. Mér skilst þær hljóti að hækka ekki svo lítið frá því í fyrra. Ég get ekki betur séð en að innflutningurinn á árinu 1937 hljóti að verða miklu meiri heldur en á nokkru öðru ári síðan 1930. Ef maður nú lítur á útflutninginn, þá er eftir skýrslum að dæma búið að flytja út fyrir 45,5 millj. kr., og ef eins mikið verður flutt út í nóvember og desember eins og síðastl. ár, þá ætti útflutningurinn að nema alls um 55 millj. kr. Ef maður svo ber þetta saman við það, sem verið hefir síðan 1930 til þessa árs, þá sér maður, að þetta er hærra en nokkurt þeirra ára. Það er því alls ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að ríkissjóður hafi þarna orðið fyrir miklum tekjumissi. Sannleikurinn er sá, að ríkissjóður hefir úr allmiklu að moða. Og hvað gjaldeyrismálin snertir, þá er það heldur ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að það komi svo ákaflega niður á ríkissjóði, að við höfum ekki getað selt saltfiskinn til Spánar, því að vitanlega skiptir það engu máli, hvort gjaldeyririnn er fenginn fyrir saltfisk eða síld. Ég ímynda mér, að útflutningurinn nú í ár verði hér um bil 8 millj. kr. hærri heldur en 1931, og voru þá engar hömlur á saltfiskssölunni. Það er því ekki hægt að segja, að í gjaldeyrislegu tilliti sé þetta ár illt; það er betra heldur en nokkurt annað ár síðan 1930. Og einmitt þetta, að hér er alltaf verið að herða á, í staðinn fyrir að annarsstaðar er slakað til, hlýtur að vekja hjá manni grunsemdir um það, að eitthvað sé bogið við framkvæmdir þessara mála hér hjá okkur. Ég er hræddur við þessa stöðugu hækkun á gjöldum ríkissjóðs, og ég er hræddur við að taka alltaf meira og meira af gjaldþegnum ríkisins í þarfir þess opinbera. Það verður að stöðva á þessari leið, en ég er líka hræddur um, að það verði ekki gert af núv. stjfl.

Í blaði hæstv. fjmrh. er í dag gerður samanburður á sköttum hér og annarsstaðar, og er því haldið fram, að skattarnir hér séu lægri en víða í öðrum löndum, þegar miðað er við gjaldendafjöldann. Þetta má vel vera, án þess að ég geti nokkuð um það sagt. En heldur hæstv. ráðh., að það sé ekki dálítið villandi að koma með þennan samanburð einan. Ég er hræddur um, að það sé dálítill munur á eignum manna hér á landi og erlendis, og sérstaklega er munurinn mikill í því, að þar eru margir menn, sem geta borið alveg gífurleg gjöld, svo að segja án þess að finna til þess. Hvernig ættum við að geta farið að eins og t. d. einn Svíi gerði nú í haust, að gefa 40 millj. kr.? Ég held, að við eigum ekki einn einasta milljónera í þessu landi, en í Svíþjóð kemur einn og gefur bara 40 millj. kr. Hann á sjálfsagt annað eins eftir eða kannske miklu meira. Það er því dálítið annað að leggja þungar byrðar á svona breið bök heldur en okkur mjóu.

Hvað viðvíkur forminu á frv., þá byrja allar greinarnar með meiningarleysu. 4. og 5. gr. frv. byrja t. d. báðar þannig: „Með því að innheimta á árinu 1938“, en svo kemur engin eftirsetning. Ég vil því skjóta því til n., að hún athugi þetta og breyti á þann hátt, að hver gr. út af fyrir sig geti einhverja meiningu. (JBald: 1. gr. vísar til upphafs hverrar gr.). Já, en það er ekki síður að hafa þetta svona, að slíta efnið sundur með gr., heldur skipta því með stafliðum, svo að maður sjái, að áframhald sé, en því getur maður ekki varað sig á, þegar efninu er skipt í gr., sem byrja þannig, að ekki er hægt að fá neina meiningu út úr þeim, nema með því að taka 1. gr. með. — En það eru kannske svo fastir samningar um þetta mál, að ekki megi einu sinni breyta þessu.

Ég hjó eftir því hjá hæstv. fjmrh., að hann sagði, að Sjálfstfl. hér á þingi væri miklu verri í sínum till. í fjármálum heldur en kommúnistar. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. vill standa við þetta, því að ég veit ekki, hvað gefur honum rétt til að dæma svona, og ég hygg, að hann geti ekki á neinn hátt rökstutt þetta. (EystJ: Ég er búinn að því). Jæja, þá skal ég ekki ræða um það meira, og óska honum þá til hamingju með samstarfið við kommúnistana, að því er fjármálin snertir.

Þá er það þetta atriði, sem hæstv. fjmrh. er ulltaf að stagast á, að við sjálfstæðismenn bendum ekki á neitt, sem fella megi burt úr . fjárlfrv. En mér er spurn: Hvað er það, sem hann ætlar að fella burt? Ég hefi eins mikinn rétt til að spyrja og hann. Og hvað viðvíkur því, sem gerðist í fjvn. 1935, þá var alveg rétt frá því skýrt af hv. þm. Vestm. Hæstv. ráðh. veit þetta sjálfur, því að hann var það mikið riðinn við starf n. Við sjálfstæðismenn í n. höfðum ekki hugmynd um að hækka ætti gjöld fjárl., eins og raun varð á, og talar hæstv. ráðh. því hér gegn betri vitund. (Fjmrh: Mikil undur eru þetta ). Þetta er sannleikur, sem ég veit alveg elns vel og hæstv. ráðh., enda hefir það verið viðurkennt í mín eyru af a. m. k. einum manni úr hans flokki, og viðurkenndi hann, að þessi aðferð hefði verið röng. Og þegar verið var að starfa í n. 1935, var það látið í veðri vaka af hálfu beggja stjfl., að lækka þyrfti útgjöld fjárl., en svo kom það bara á daginn, að til þess að samvinna gæti haldið áfram með þeim, þurfti að gefa þetta til. Það er einmitt þetta, sem kom svo greinilega fram í Nýja dagbl. nú um daginn, að ýmislegt, sem jafnaðarmenn hafa gert fyrir landbúnaðinn, hefir óðar þurft að borga að fullu með öðrum útgjöldum. Þetta stendur nú í blaði hæstv. ráðh.

Þá sagði hæstv. ráðh. í ræðu sinni áðan, að ástandið hefði orðið illt á árunum 1926 og 1927. (Fjmrh: Ég sagði það ekki. Ég sagði, að tekjur hefðu ekki hrokkið fyrir gjöldum). Já, það munaði víst um 200 þús. kr. 1926 (Fjmrh.: Já, og 1½ millj. 1927). Já, en á miðju því ári tóku framsóknarmenn og jafnaðarmenn við stjórninni, svo að fyrir það ár þarf Sjálfstfl. ekki að svara. — Þá sagði hæstv. ráðh. eða hv. 1. þm. Eyf., að Íhaldsfl. hefði byrjað sína stjórn 1924 með hækkaðri skattaálagningu. Þetta er rétt, en sú skattahækkun var gerð til þess að greiða afborganir af lánum, lausaskuldir ríkisins og rétta fjárhag þess. Ég hefi ekki reiknað það út, hve mikið af þessum tekjuauka árin 1924 og 1925 fór til þess að greiða afborganir af skuldum ríkisins, og ég er sannfærður um, að tekjuaukinn fór allur í slíkar greiðslur. En tekjuauki stj., hefir hann farið til þess að afborga skuldir? Ekki hefir „klauflaxinn“ farið til þess, ekki benzínskatturinn og ekki milljónatekjurnar af áfenginu. Nei, þessir tekjuaukar hafa ekki farið til þess að bæta hag ríkissjóðs, heldur hafa þeir farið í eyðslu.

Ég hafði gaman af að heyra til hv. 1. þm. Eyf., þegar hann var að tala um Sjálfstfl. og Íhaldsfl. og var að reyna að rökstyðja það, að Sjálfstfl. væri hættur að vera íhaldssamur, þótt hann hafi þúsund sinnum getað séð það í blöðum sins flokks, að þau telja Sjálfstfl. íhaldsflokk. (BSt: Hann er að verða Kommfl.). Kannske kallar hv. þm. Kommfl. íhaldsflokk. Mér sýnist hv. 1. þm. Eyf. vera á góðum vegi með að fara yfir í Kommfl. Máske hann ætli gegnum þann flokk að komast í íhaldið. Annars er gróflega gaman að fá yfirlýsingu úr þessari átt um það, hve radikal Sjálfstfl. sé orðinn, að hann sé jafnvel kominn fram úr kommúnistum, og þó eru sjálfstæðismenn kallaðir nazistar af þessum mönnum. (Fjmrh.: Þeir eru bæði nazistar og kommúnistar). Ég ætla að muna þessa setningu hæstv. ráðh.; hún sýnir sanngirni hans í umr.

Ég kæri mig svo ekki um að segja meira í þetta sinn. Ég vona að fá nú þegar svar við þeirri spurningu frá stjórnarflokkunum, hvort samningar um þetta frv. eru svo fast bundnir milli flokkanna, að þýðingarlaust sé fyrir Sjálfstfl. að reyna að fá fram breytingar á því.