22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jón Baldvinsson:

Ég hefi hugsað mér að svara nokkru af því, er andstæðingar frv. hafa fært fram, og byrja á hv. þm. Hafnf.

Hv. þm. Hafnf. átti ekki nógu sterk orð til að lýsa því, hversu slæmt fjárhagsástandið væri í bæjum þeim, sem sósíalistar ráða í. Ég hygg, að fjárhagsástand þeirra bæjarfélaga þoli fyllilega samanburð við bæjarfélögin, þar sem sjálfstæðismenn eru í meiri hluta. Það er enginn mælikvarði á fjárhagsástand bæjar, þó að fé vanti í bili. Bæjarfélagið getur átt miklar eignir, þó að erfiðir tímar geri það að verkum, að bæina skorti fé til atvinnurekstrar. Svo mun það vera um Hafnarfjörð, en hv. þm. Hafnf. er sérstaklega annt um að bera það bæjarfélag út. — Eins og allir vita, er Hafnarfjörður verkamannabær, er hefir vaxið upp í nálægð Reykjavíkur. aðallega sem útgerðarbær, og hefir fáa stóra gjaldendur, en mikið af verkafólki. Nú er það alkunnugt, að atvinnurekstur sá, sem bærinn byggir afkomu sína á, sjávarútvegurinn, hefir brugðizt undanfarin ár. En það tekur hv. þm. ekki með í reikninginn; hann er svo fullur af úlfúð í garð bæjarfélagsins, að hann lítur ekki á það, að aðalatvinnuvegur bæjarins hefir brugðizt tvö undanfarin ár. En mér skilst, að hv. þm. geti ekki með nokkurri sanngirni litið svo á, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar eða ríkisstjórninni geti verið um að kenna, þó að Ítalía færi í stríð við Abesseníu og Ítalir hefðu þess vegna ekki ráð á því að kaupa fisk af Íslendingum eins og áður. Varla er það meiri hl. í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sem setti Franco af stað á Spáni, en sú styrjöld, er þar hefir geisað, hefir orðið þess valdandi, að þau bæjarfélög hér á landi, sem eiga allt sitt undir fiskveiðum og fiskverkun, eru í standandi vandræðum, og mörg þeirra alveg bjargarlaus. Og þetta ástand er ekki skapað af neinum sérstökum bæjarstjórnum, heldur af því að þessi bæjarfélög hafa reitt sig um of á einn atvinnuveg. Ástæðan fyrir því, að fjárhagur Vestmannaeyjakaupstaðar er svo slæmur sem raun er á, er sú sama og ég hefi 1ýst hér viðvíkjandi Hafnarfirði. — Hv. þm. sagði, að ríkissjóður væri búinn að níðast svo á bæjarfélögunum, að þau gætu ekki lengur náð inn tekjum sínum. Ég veit ekki, hvað hv. þm. meinar með þessu. Mér skilst, að það komi af þessum sömu utanaðkomandi ástæðum, að bæjarfélögunum veitist erfiðara að ná inn tekjum sínum, fólkið á erfiðara með að borga gjöld sín, og margt af því getur það beinlínis ekki. Og það er ekki hægt að taka Reykjavík til samanburðar um þessi efni. Í Reykjavík eru flestir stórefnamenn landsins saman komnir, og svo að segja öll þau embættismannalaun, er ríkið greiðir, eru borguð þar, þeim er velt þar, má segja. Það gefur að skilja, hver hagnaður þetta er fyrir bæjarfélagið. Þó er það svo, eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti, að Reykjavikurbær hefir orðið að safna miklum skuldum. Hæstv. fjmrh. upplýsti, að Reykjavíkurmær hefði nú sem stæði mjög mikið af lausaskuldum, þessum skuldum hlýtur bærinn að koma á fastan grundvöll á næstunni, annaðhvort með föstum lánum, eða þá að hann leggur á nýjar álögur til þess að hægt verði að borga þær upp.

Annars var hv. þm. Hafnf. opinskáastur þeirra sjálfstæðismanna, er hann lýsti því yfir, að hann og hans flokksmenn vildu engar till. gera til fjáröflunar, nema tryggt væri, að þær yrðu samþykktar. Annars yrðu þær bara notaðar af andstæðingunum til þess að rífa Sjálfstfl. í sig, sagði hv. þm. Ég verð að segja, að hv. þm. Hafnf. treystir illa málstað þeirra sjálfstæðismanna, ef hann er þess fullviss, að fjáröflunartill. flokksins gæfu tilefni til slíks. Hv. þm. Hafnf. sagði það með miklum þunga, að sjálfstæðismenn mundu alls ekki gefa upp till. sínar um fjáröflun, fyrr en tygging væri fengin fyrir því, að þær yrðu samþykktar. Ætli það sanna í málinu sé ekki það, að Sjálfstfl. hafi engar till. að gera um þessi efni, og því séu þm. hans hér eins og villuráfandi sauðir á stigum stjórnmálanna. — Hv. þm. gat þess, að það hefði alltaf verið á stefnuskrá Sjálfstfl. að fara sparlega með fé landsmanna. En það upplýstist ótvírætt í umr., að þær till., sem sjálfstæðismenn hafa borið fram á þessu þingi, benda sízt í sparnaðaráttina. Væri farið eftir þeim öllum, þá skiptir það milljónum, sem útgjöld ríkissjóðs aukast og tekjur hans rýrna vegna þeirra. Útgjaldatill. Sjálfstfl. eru öllum sýnilegar. En tekjuöflunartill. þeirra ætla þeir að geyma vandlega, þar til vissa er fengin fyrir, að þær verði samþ. Þetta er eins og þegar krakkarnir eru að leika sér. Ef þú segir já, þá skal ég segja þér það, sem ég veit!

Hv. þm. talaði langt mál um þá bruðlunarsemi, að halda uppi tveimur stofnunum til hins sama, þar sem væri Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og fiskimálanefnd. Hv. þm. veit vel, að hvor þessara stofnana hefir sitt ákveðna verkefni og er ætlað það að lögum. Það er vitað, að mistök hafa orðið á starfi Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, sem sambærileg eru við þau töp og mistök, sem orðið hafa á starfi fiskimálanefndar.

Hv. 9. landsk. (MG) spurði, hvort sjálfstæðismenn ættu þess engan kost að fá breytingar gerðar á fjáröflunarfrv. stjórnarflokkanna. Ef sjálfstæðismenn bera fram till., sem eru til bóta, þá verða þær að sjálfsögðu athugaðar. En ég fyrir mitt leyti vil engar yfirlýsingar gefa um það að vera með öllum till. þeirra. Eins og aðrir þeir sjálfstæðismenn, er talað hafa, kom hv. 9. landsk. líka með fiskimálanefnd og sagði, að Sjálfstfl. væri því mótfallinn, að fé væri veitt til fiskimálanefndar, af því að atvinnuvegur, sem hlut ætti að máli, væri á móti stofnuninni. En hvað er það, sem hv. þm. meinar með atvinnuvegi? Vill hann meina, að þeir 100–200 menn, sem reka atvinnufyrirtækin, séu „atvinnuvegurinn, sem hlut á að máli“. Hv. þm. ætlast sýnilega til þess, að þær þúsundir verkamanna, sem vinna í atvinnuvegunum, hafi hlutdeild um stjórn hans. (JJós: því hættu þúsundirnar að kjósa Alþfl. í sumar?). Ég sé ekki, að nein ástæða sé til þess fyrir sjálfstæðismenn að gorta af kosningunum í sumar. Ég vissi ekki betur en að þeir yrðu fyrir sízt minni vonbrigðum en sumir aðrir. Þeir voru búnir að gorta af því, að þeir ætluðu að taka meiri hl. á Alþingi í þessum kosningum. Og um okkur hv. 9. landsk. er það að segja, að við sluppum báðir álíka nauðulega á þing að þessu sinni, svo að bezt er fyrir okkur að sleppa öllum rosta hvað það snertir.

Hv. þm. þótti líka sitthvað athugavert við samsetningu fiskimálanefndar og þótti óþarfi, að áhrifa verkalýðsins á sjó og landi gætti þar að nokkru. (MG: Það eru engir verkamenn í fiskimálanefnd). Það eru fulltrúar verkamanna í fiskimálanefnd. Ég býst við, að hv. 9. landsk. telji sig fulltrúa bænda í Skagafirði, þó að hann sé ekki sjálfur bóndi. — Fulltrúar verkamanna eiga sæti í fiskimálanefnd, og þannig á það að vera. í stofnun sem þessari eiga að vera fulltrúar útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna, — allar þessar stéttir eiga að geta haft áhrif á það, hvernig því fé, sem hið opinbera veitir til stofnunarinnar, er varið. — Hv. þm. hélt fram þeirri furðulegu kenningu, að það rýrði ekki tekjur ríkissjóðs, þó að fisksalan til Ítalíu og Spánar minnkaði um allan helming. Heldur hv. þm., að ríkissjóður njóti ekki góðs af því, ef fiskveiðar eru miklar, mikill fiskur verkaður í landinu og sala hans gengur greiðlega? Þetta er álíka fáránleg staðhæfing hjá hv. 9. landsk. og form. Sjálfstfl. leyfði sér að viðhafa í umræðum í hv. Nd. á dögunum, er hann staðhæfði, að óhætt væri að veita eins mikið fé og verkast vildi til atvinnuveganna, því að það streymdi svo að segja jafnskjótt í ríkissjóðinn aftur.

Hv. þm. sagði frá því, að nýlega hefði verið slakað á innflutningshöftunum í Danmörku og hefði það haft mikil áhrif til batnaðar á verzlun landsmanna. Það hefir nú aldrei þótt neitt sérstaklega sjálfsagt, að Íslendingar færi í öllu að dæmi Dana, enda hagar svo ólíkt til í þessum löndum, ekki sízt um verzlunarhætti og verzlunaraðstöðu, að það verður ekki borið saman. Hjá okkur er það svo, að nú á þessum erfiðu tímum höfum við orðið að gerbreyta atvinnuháttum okkar, byggja upp iðnað í landinu, byggja ný tæki til að geta hagnýtt síldina, þar sem þorsveiðarnar og þorskmarkaðurinn hafa brugðizt. Ekkert af þessu á sér hliðstæður í dönsku atvinnu- og verzlunarlífi. Danir hafa á síðustu árum lagt mikið kapp á að efla fiskveiðar sínar, og nú er svo komið, að þeir geta haft bezta fiskinn á beztu fiskmörkuðum heimsins. Á 30 klukkustundum geta þeir komið nýjum og góðum fiski til Englands og sent hann með járnbrautum suður um alla álfuna. Landið liggur að Þýzkalandi, sem kaupir mikinn hluta af vörum þess. Og svo ber hv. þm. okkur og okkar afstöðu saman við þetta. Veit hv. þm. ekki, að Ísland liggur 1200 mílur norðaustur í hafi, og skip eru 6 daga til Danmerkur og 4 –5 daga til Englands? Það er ekki nokkur leið að bera verzlun okkar og viðskipti saman við verzlun annara þjóða, sízt Dana. Af aðstöðu okkar leiðir, að seljendur hér reyna að selja í sem stærstum stíl, — það er svo langt til markaðanna. Af þessu leiðir aftur það, að gjaldeyririnn, sem við fáum fyrir útflutningsvörur okkar, verður tímabilsbundinn, kemur aðallega inn á tveimur tímabilum á árinu. Eftir því verðum við svo að haga öllum okkar verzlunarháttum.

Hv. þm. Vestm. hafði mörg orð um ábyrgðarleysi stjórnarflokkanna, einkum talaði hann um hið gífurlega ábyrgðarleysi sósialistanna. Hann kvað útgjöld hinna síðari ára runnin undan rifjum sósíalista. Ég skal kannast við margskonar útgjöld, sem ég hefi verið með. Atvinnubótaféð var t. d. hækkað upp í 500 þús. kr. 1935. Sjálfstæðismönnum hefir ekki orðið tíðrætt um, að þetta væri of mikið, enda hefir það létt drjúgum á bæjum þeim, þar sem þeir stjórna. (JJós: Við fáum bara svo lítið af því). Ég þykist vita, að Reykjavík hafi fengið drjúgan skerf, og Vestmannaeyjar víst líka. Þá vorum við með alþýðutryggingunum. Sumir sjálfstæðismenn voru á móti þeim. Það eru víst aðallega þessi tvö mál, sem þeir kalla ábyrgðarleysi að hafa verið með. Af því má ráða, að ef þeir væru við völd, þá myndu þeir afnema hvorttveggja.

Ég ætla ekki að rekja það, sem hv. þm. sagði um Rauðku. En um fiskimálan. sagði hann, að hún hefði gert hverja skyssuna á fætur annari, og væri því óverjandi að láta hana fá á aðra millj kr. til umráða. Hann bar engin rök fram fyrir þessu. Hefir hv. þm. vitað til þess, að hjá nokkurri þjóð væru gerðar tilraunir um nýjungar í atvinnuháttum, án þess að til þess væri veitt fé eða án þess að nokkur mistök hefðu átt sér stað? Þó að sjálfstæðismenn hefðu farið með völd, er það víst, að líka hefðu orðið mistök, enda er slíkt eðlilegt. En þó hefir árangurinn af þessum tilraunum orðið sá, að menn sjá, að hægt er að breyta nokkuð til um framleiðsluhætti. Ég vil t. d. benda á íshúsin eða dragnótaveiðarnar, sem nú hafa verið leyfðar og ekki er hægt að reka, nema íshús séu til. Þá hefir og verið sendur fiskur til Ameríku. Það hefir að nokkru leyti mistekizt. En á það má benda í því samhandi, að Kveldúlfur hefir sagt frá því, að saltfiskfarmur, sem hann reyndi að selja til útlanda, hafi allur eyðilagzt. Ef nota ætti þeirra eigin orð, væri þetta ljót skyssa. En sjálfstæðismenn tala alltaf um framsýni Kveldúlfs og fórnfýsi í sambandi við þennan atburð, að hann skyldi eyðileggja heilan skipsfarm af fiski við tilraunir.

Þá talaði hv. þm. um síldarútvegsn., að hún hefði fyrst selt síldarmagn nokkurt háu verði, en síðan gefið afslátt á verðinu, og nefndi hann þar milljón. Það má vera, að n. hafi gefið nokkurn afslátt af samningsverðinu, þó að vel væri búið að ganga frá þessum samningum. En það var af því, að Norðmenn buðu þá á markaðinn síld fyrir 10–20 kr. lægra verð tunnuna. Hverjar eru nú sannanirnar fyrir því, að n. hafi gert þessar miklu skyssur, sem hv. þm. vill vera láta? Jú, hingað hefir borizt erindi frá útvegsmönnum fyrir norðan. Það er þannig til komið, að ósannindi úr Morgunblaðinu voru símuð norður og skrifuð þar á skrifpappír og síðan send hingað aftur. Ég verð að segja um þetta eins og Sveinn í Firði, að lygin verður ekki meiri sannleikur, þó að hún sé ljósmynduð.

Þá skulum við athuga lítilsháttar stofnun, þar sem hv. þm. er sjálfur í stj., sem sé S. Í. F. Áður en stríðið hófst á Spáni, höfðu þeir þar afhent fiskfarm tryggingalaust. Farmurinn nam 900 þús. kr. og stendur þar enn. Um þetta hefir hv. þm. ekki hátt. Þetta var afhent án allra pappíra fyrir því, að það yrði nokkru sinni greitt. Hætt mun vera við, að aldrei fáist grænn eyrir fyrir þessa vöru, því að menn þeir, sem keyptu, eru nú komnir sinn í hvora áttina, og er víst erfitt að hafa hendur í hári þeirra.

Þá er það, er Union fékk 150 þús. kr. úr ríkissjóði vegna líruábyrgðarinnar. Ég er ekki að ásaka Union fyrir að hafa selt fisk til Ítalíu, en kaupmennirnir á Ítalíu hafa þó auðsjáanlega verið fróðari en þeir um væntanlegt gengisfall lírunnar. Þessi sala fór fram fáum dögum áður en líran féll, og menn fengu af þessum sökum 33–33% minna fyrir fiskinn en þeir höfðu gert sér von um. Og ríkissjóði varð að blæða fyrir. Þetta eru stórum meiri skyssur en síldarútvegsn. gerði með því að lækka verðið á síld, þegar Norðmenn buðu tunnuna fyrir 10–20 kr. lægra verð. (JJós: Það er verst, að hv. þm. er þarna alstaðar samsekur). Hv. þm. talar svona, af því að honum er svo mjög í nöp við formann síldarútvegsn. En þeir sjálfstæðismenn eiga sjálfir mann í n., og eru þeir því með þessum dylgjum sínum að löðrunga sjálfa sig. Þó að formaðurinn sé dugandi maður, gera þeir eflaust of mikið úr völdum hans. Þeir ráða þar með honum. Það má því segja um hv. þm. Vestm. eins og segir í vísunni, að hann sé svo blindaður, að „ekki sér hann sína menn, svo hann ber þá líka“.

Þá talaði hv. þm. um ábyrgðarleysi sósíalista, sem staðið hefðu fyrir flestum útgjöldum síðari ára. Ég hefi áður gert grein fyrir nokkrum málum, er við höfum komið fram, en sjálfstæðismenn verið á móti. En þeir hafa þó ekki verið á móti öllum útgjöldum. Ég var nýlega að blaða í atkvgr. um ýms mál frá 1934. Það er auðvitað ekki hægt að sanna, hvernig þm. hafa greitt atkv., nema þegar um nafnakall er að ræða, ef þeir lýsa þá ekki afstöðu sinni beinlínis í ræðu. En það nennti ég ekki að rannsaka. En ég tók af handahófi 10 fyrstu nafnaköllin við þessar atkvgr. Útkoman er þessi:

1. nafnakall: 8000 kr. útgjaldatill, þar segir hv. þm. já.

2. nafnakall: 15000 kr. útgjaldatill., hv. þm. segir já.

3. nafnakall: 100000 kr. útgjaldatill. Hv. þm. sagir já.

4. nafnakall: Það er um. aths. í fjárl. og þýðir víst ekki aukin útgjöld, en hv. þm. segir já. .

5. nafnakall: 30000 kr. útgjaldatill. Hv. þm. segir já.

6. nafnakall 20000 kr. útgjaldatill. Hv. þm. segir já.

7. nafnakall: 25000 kr. útgjaldatill. Hv. þm. segir já.

8. nafnakall: 10000 kr. sparnaðartill. Þar segir hv. þm. auðvitað nei.

9. nafnakall: 5000 kr. útgjaldatill. Hv. þm. segir já.

10. nafnakall: 2000 kr. útgjaldatill. Hv. þm. segir líka já.

Hér eru alls útgjöld upp á 230 þús. kr., sem hv. þm. hefir greitt atkv. með, og þó eru þetta aðeins nafnaköll. Ég ætla, að hann hafi verið með flestum útgjaldatill. þá. Svo að sparnaður hans kemur a. m. k. ekki fram í nafnaköllunum við atkvgr. um fjárl., þó að hann tali mikið um sparnað í sínum ræðum. Ég gæti bezt trúað, að ef ég færi gegnum nafnaköllin síðan 1934, þá kæmi í ljós, að hv. þm. stæði yfirleitt útgjaldamegin.