22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jóhann Jóaefsson:

Ég vænti þess, að hæstv. forseti taki tillit til þess, að ég hefi talsverðu að svara. Ég til aðeins víkja að því örfáum orðum, sem hefir verið drepið á hér undir þessum umr., þótt ég geti það ekki nægilega. Ein af undirstöðunum hjá hæstv. fjmrh. fyrir því, að þessa nýju skatta og álögur þurfi, var sú, að hann benti til vissra liðinna ára og hélt því fram, að verðtollurinn og vörutollurinn hefðu minnkað svo og svo mikið samanborið við þessi ár, sem hann nefndi. Hann nefndi árið 1936 og tók til samanburðar árið 1925, þegar þessir tollar voru samanlagðir 4262000 kr. árið, 1930, þegar þeir voru 4257000 kr., og 1934, þegar þeir voru 3397000 kr. Með þessu hefir hann tekið út úr þau ár, sem sýna langhæstar tekjur ríkissjóðs af þessum tekjustofni. Þessi málfærsla virðist mér mundi sæma „prokúrator“, en fer áreiðanlega ekki vel fjmrh., vegna þess að sú mynd, sem hann fær þannig fram, gefur alls ekki rétta hugmynd um þetta, ef litið er á öll árin. Sú tekjurýrnun, sem um er að ræða, ef öll árin eru lögð til grundvallar, er ekki, eins og hæstv. fjmrh. vildi halda fram, 1 millj. eða meira en það, heldur að meðaltali 350 þús. kr. Ég skal svo ekki vegna tímans fara fleiri orðum um þetta, sem ég tók fram áðan, að þegar hæstv. ráðh. er að undirbyggja ástæðuna fyrir þessum sköttum, þá hagar hann sér í þessu máli eins og „prókúrator“, en ekki eins og maður, sem á að líta nokkuð hlutlægt á hlutina.

Hv. 1. þm. Eyf. hefi ég litlu að svara. Hann tók fram það, sem ég hefi sagt, að 1933 unnu sjálfstæðismenn með framsóknarmönnum að lækkun á útgjöldum fjárl., en þeir voru sviknir í tryggðum. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að vitna í það, að komið hafi ný mál með 2 millj. kr. útgjöldum, því að starf fjvn. var hafið í því skyni að lækka útgjaldaliði fjárl. í heild og koma fram sparnaði á ríkisbúskapnum. Það er dálítið skrítin aðferð, ef á að spara, að lækka þá um 1 millj., en hækka svo aftur um 2 millj. kr. En reyndin varð sú 1935.

Þá kem ég að hv. 10. landsk. (JBald). Hann talaði óvenjumikið á reiki um þetta mál. Hann sýndist hafa komizt í taugaóstyrk út af þeirri ádeilu, sem ég flutti áðan, svo að ég hefi sjaldan heyrt hv. 10. landsk. vaða svo mikið í villu og svima með sín rök. Mér virðist hann vera í innsta eðli sínu þakklátur fyrir að mega eyða ræðutíma sínum í þetta, í stað þess að gera grein fyrir hinum einstæða stefnumun, sem orðið hefir hjá honum og hans flokki í tolla- og skattamálum. Það hefir þó einhverntíma kveðið við annan tón. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. og hv. 10. landsk., hvort þeir séu svo mikil börn að halda, að ómögulegt sé að koma hér á hraðfrystingu fiskjar, dragnótaveiðum, herðingu á fiski og fleiri þess háttar breyttum aðferðum í veiði og verkun fiskjar án þess að róta á 2. millj. kr. í nefnd, sem Héðinn Valdimarsson stjórnar, maður sem aldrei áður hefir komið nálægt þessum málum. En þeir eru engin börn, og þeir mega heldur ekki balda, að hv. þdm. eða aðrir, sem láta sig þessi mál skipta, séu það. Það hefði verið hægt að koma þessum málum í framkvæmd, enda var bent á flest í þessum l., áður en nefndin var sett á stofn, og m. a. af okkur, sem áttum sæti í mþn. í sjávarútvegsmálum.

Hv. 10. landsk. var með dylgjur í minn garð viðvíkjandi því, að síldarútvegsnefnd hefði slakað til á síldarverðinu við útlenda kaupendur. Ef eitthvað er að vefjast fyrir hv. þm. í þessu efni, þá vil ég mælast til þess, að hann, vegna stöðu sinnar innan þings og utan, komi með það á þeim vettvangi og í því formi, að mér gefist kostur á að svara réttilega. Ég vil mælast til þess við hann, að hann komi framan að mér í þessu efni. Það er hlægilegt að halda því fram, að ég hafi átt að eiga þátt í því, að útlendir kaupendur í Ameríku, Póllandi og Þýzkalandi hafi heimtað og fengið hjá síldarútvegsnefnd stórkostlegan afslátt á gerðum samningum, án þess að síldarútvegsnefnd hafi reynt að reka réttar síns á þessum mönnum. Það er barnalegt að halda því fram, að ég hafi átt þátt í þessu. Og ég vil skora á hv. þm., að hann komi beint framan að mér á þeim vettvangi, þar sem ég get svarað eins og við á.

Hann minntist á líruverðfallið á Ítalíu. Það er nú helzt að fara að kenna Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda um það, hvernig fór með innstæður okkar á Ítalíu, þegar það er skjallega staðfest í fundarbók S. Í. F., að margar munnlegar tilraunir, og áreiðanlega ein skrifleg, voru gerðar þetta sama sumar sem líran féll til að benda ríkisstj. á, að það væri hættulegt að hafa svona miklar inneignir á Ítalíu, og reynt að fá ríkisstj. til að auka innflutninginn þaðan. En ríkisstj. anzaði þessu ekki. Hv. 10. landsk. hefir víst verið henni samþykkur í þessu og getur því nú kallast samsekur vegna þess að líran datt niður. Þá var hlaupið út um allt land til þess að fá menn til þess að kaupa líruna með gamla verðinu og þannig velta þessu á alla þjóðina, sem aldrei hefði þurft að koma á hana. Það er skrítið að bera mig eða stjórn S. Í. F. sökum fyrir það, sem er hans og ríkisstj. sök, að svona fór. Eins og ég hefi þegar sagt, þá er það skriflega sannað, að við vöruðum við þessu í tíma. (Forseti (EÁrna): Tíminn er búinn). Ég skal þá ekki hafa þessi orð fleiri, en aðeins verð ég að lýsa undrun minni yfir því, hvað hv. 10. landsk. breiddi sig út yfir, að það væri hin mesta fjarstæða að vitna til þess, hvað Danir gerðu í gjaldeyrismálunum, Danmörk væri svo voðalega langt í burtu, eins dönsk og hún er. og við eins íslenzkir og við erum. Ég hélt satt að segja, að það væri ein helzta þrá þessa hv. þm. að vera eins líkur víssum dönskum stjórnmálamanni eins og unnt er í allri framkomu, gjörðum og jafnvel hugarfari. En það má segja, að því valdi Kolur og Kroppinskeggi, að þetta hefir ekki tekizt. En hugarfar hans í þessu efni vissi ég ekki allt.

Að síðustu vil ég minnast á síldarsöluna. Ég benti á það undir þessum umræðum, að mér virtist að stefna — síldarútvegsnefndar í þessu máli, að framleiða litla síld og selja hana á þröngum markaði og halda henni í háu verði, væri röng, vegna þess að við ættum við keppinauta að stríða, sem hefðu allt aðra stefnu. Ég get bætt því við, að hv. 10. landsk. er sem prívatmaður samþykkur þessu.

Um fiskimálanefnd er það að segja, að það lá við borð, að framkvæmdarstjórinn stykki í burtu. Þetta er sú nefnd, sem hv. 10. landsk. álítur, að ein geti staðið fyrir dragnótaveiðum, komið upp hraðfrystihúsum og ein látið herða fisk o. s. frv. Þessi nefnd er sjálfri sér svo sundurþykk, að eini hæfi maðurinn þar, og sá, sem er vanur þessum viðskiptum, var rétt að segja genginn í burtu.

Ég er nú dauður í þessu máli og búinn að fara fram yfir tímann og bið ég hæstv. forseta afsökunar á því. Ég hefi aðeins drepið á þau atriði, sem mér þótti mestu varða, en orðið að sleppa mjög mörgum, sem snerta þetta mál. En það kemur mál á eftir, sem er skylt þessu, og þá verður tækifæri til þess að taka upp sumt af því, sem ég læt nú ósvarað.