22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Guðmundsson:

Það er lítill tími til að svara bæði hv. 10. landsk. og hæstv. fjmrh. En ég skal byrja með því, að ég var alveg hissa á, hvað hv. 10. landsk. var skápillur í sinni ræðu. Ég held, að hann hafi haldið, að hann væri á flokksfundi hjá sjálfum sér, því að sagt er, að öldurnar gangi þar nokkuð hátt. Ég held, að hann hafi gleymt því, að hann var kominn inn á Alþ.

Hann sagði um mig eða okkur sjálfstæðismenn, að við mundum aldrei stinga upp á neinu. Öðruvísi mér áður brá. Hann og fleiri hafa talað um, hvað margar till. við höfum borið fram. Það, sem hann á hið, er, að við viljum ekki, samtímis og við stingum upp á útgjaldatill., bera fram tekjuaukatill. Það er rétt, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að við sjáum ekki ástæðu til þess, fyrr en við sjáum, hvernig útgjaldatill. er tekið. Og það er eðlilegt. Ég benti á það á laugardaginn, að sömu aðferð hefir hæstv. fjmrh. Hann ber fram frv. til fjárl. fyrir árið 1938, sem er með 900 þús. kr. greiðsluhalla, og benti ekki á tekjur til að mæta honum, fyrr en 5–6 vikur voru liðnar. Það er ekki enn farið að bóla á því, að nein af þessum till. Sjálfstfl. hafi verið samþ. Og það þarf ekki að sjá fyrir tekjum þeirra vegna, á meðan svo er. Hitt er annað mál, að sumt úr þessum till. er tekið upp í skældu og skemmdu formi af stjórnarflokkunum.

Hv. þm. var að tala um það, að ég vildi fara að í gjaldeyrismálum eins og gert væri í Danmörku. Ég sagði það ekki, heldur nefndi ég Danmörk sem dæmi um það, að ástandið væri alstaðar að batna, nema hér. Og það stendur alveg óhrakið í því sambandi.

Þá sneri hv. þm. mjög út úr því, sem ég sagði viðvíkjandi Spánarmarkaðinum. Ég sagði, að ríkisstj. hefði fengið meiri gjaldeyri til umráða á yfirstandandi ári en nokkru sinni fyrr síðan 1930. Það þýðir því ekki í því sambandi að tala 10. landsk. ekki að segja mér, að það hefði verið betra, et hægt hefði verið að selja líka fisk til Spánar. En mér er ekki betur kunnugt en að það hafi verið seldur um áramótin því nær allur fiskur, sem fékkst úr sjó.

Þá kem ég að hæstv. fjmrh. Ég spurði hæstv. ráðh. að því, hvort vænta mætti, að hægt væri að komast að samkomulagi um breyt. á þessu frv. Hann sagði, að það mætti takast, ef þeir yrðu fyrst sannfærðir um, að þær breyt. væru til bóta, og það át hv. 10. landsk. upp eftir honum. Ég sé ekki, að það sé beint þakkavert. En það, sem ég átti við, var, að mér finnst það ekki sanngjarnt, þó að þeir hafi meiri hl., að þeir ráði öllu. Geta þeir ekki tekið eitthvert tillit til óska minni hl. á þingi, sem hefir að baki sér allt að helmingi þjóðarinnar. Ég álít það heppilegt fyrir þingræðið, að stjórnarflokkarnir beiti ekki út í yztu æsar því afli, sem þeir hafa. Ég álít, að þeir hafi gott af því og það sé rétt þingræðislega séð, að taka eitthvert tillit til minni hl.

Ég hirði svo ekki um að fara frekar út í það, sem verið er að deila um, að við bentum ekki á tekjur fyrir þeim útgjöldum, sem væru samfara okkar till. Það kemur ekki til að benda á tekjur fyrir útgjöldum, sem kveða á niður. Og það er alveg ósæmilegt af stjórnarflokkunum að gera þá kröfu til minni hl., þegar þeir gera ekki þá kröfu til sjálfra sín.

Hæstv. ráðh. fór ekki rétt með það, sem ég sagði viðvíkjandi sjávarútveginum. Þegar ég talaði um, að hann fengi meira en áður, þá átti ég eingöngu við afnám útflutningsgjaldsins af saltfiski, en ekki þetta fé, sem veitt er til fiskimálanefndar.

Þá gerði hæstv. ráðh. samanburð á sköttum í öðrum Norðurlöndum og hér. Og mér skildist, að hæstv. fjmrh. hefði búið hann til sjálfur. Þessi samanburður er villandi. Hann sagði, að okkar gjöld væru 14 millj. í sköttum og tollum. En þau eru meiri. Hann telur ekki með tekjurnar af vín- og tóbakseinkasölunni. (Fjmrh.: Tek þær ekki með hjá hinum heldur.) En getur ekki hæstv. ráðh. skilið, að ef ekki væri einkasall á þessum vörum, þá væri tollurinn á þeim miklu hærri. Ef tekið er tillit til þessa, þá hækkaði skatturinn um 20 kr. á hvern mann hér á landi, og þá væri hann orðinn hærri en í nokkru öðru Norðurlandanna. Það mun engum blandast hugur um, að það væri aldrei látið nægja að tolla vínið eins og nú, ef það væri selt í frjálsri sölu, eins og í Danmörku. Það mundi hækka svo gífurlega, að það hefðist eins mikið upp úr því og einkasölunni. Og alveg sama er að segja um einkasöluna á tóbaki, bifreiðum og rafmagnstækjum, sem settar eru á stofn til að afla ríkinu tekna, eins og lýst hefir verið yfir af hæstv. fjmrh. og hans flokksmönnum. Þess vegna er skylt að taka þetta með, þegar verið er að tala um það, hvaða gjöld hvíla á landsmönnum. Samanburðurinn um íbúatölu og meðaltekjur er líka villandi. Annars staðar eru stóreignamenn, sem borga hundrað sinnum meira en nokkur maður gerir hér á landi, og kannske miklu meira en það. Þess vegna er þessi samanburður ekki réttur og gefur mjög litlar upplýsingar.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi það, sem ég benti á, að tolltekjur hlytu að verða talsvert meiri yfirstandandi ár en síðastl. ár, og það er náttúrlega gleðilegt að heyra. En samt skal ég segja hæstv. ráðh. það, að ég mun ekki koma með neina brtt. til að lækka þessa skatta, því að ég er búinn að reka mig á það, að þessi stj. þarf svo mikla peninga, að ég efast um að þetta nægi, þótt það sé mikið á pappírnum og eigi að vera nóg.

Þá er það viðvíkjandi sköttunum í bæjunum, sem hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um. Tók hann sérstaklega Reykjavík til samanburðar í því sambandi og sagði, að þar hefðu hækkað skattar síðastl. ár. Þetta er rétt. En fyrir hvað hafa þeir hækkað? M. a. fyrir aðgerðir Alþingis. Fátækraframfærslan hér hefir hækkað um hundruð þús., kannske upp undir ½ millj., vegna nýju framfærslulaganna, og þá er ekki að furða, þótt það þurfi líka að hækka útsvörin.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að atvinnubótafé létti undir með Reykjavík. Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig hann fer að haldá þessu fram, þar sem tilskilið er í fjárlögum, að það komi tvöfalt framlag frá bænum á móti. Og ég þori að fullyrða, að það er ekki alstaður heimtað tvöfalt framlag, þótt það sé gert hér.

Hæstv. ráðh. sagði, að við ættum að segja til um það, hvað við vildum fella burt úr fjárlfrv. Nei, það hvílir engin skylda á okkur til þess. Frv. hefir hæstv. ráðh. borið fram sjálfur og samið, og vill hann nú ekki segja til um, hvað á að fella niður? því hefir hann ekki strikað eitthvað út sjálfur, ef hægt er, en kemur með frv., sem á er 900 þús. kr. tekjuhalli.