22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Aðeins örstutt aths. Ég vil ekki fara langt út í að ræða málið frekar, vegna þess að ég hefi áhuga á að málið fari að komast til n.

Því var haldið fram af hv. þm. Vestm. og hv. 9. landsk. (MG), að til þess að sýna fram á, að verðtollur hefði hækkað sem tekjur fyrir ríkissjóð, væri ósanngjarnt að bera þetta ár, sem nú er að liða, saman við árin 1924 og 1925. Ég játa, að það, að bera yfirstandandi tíma saman við árið 1925, gefur ekki fullnægjandi mynd af því, hvað tímarnir hafa breytzt í þessu efni. En ég hefi borið yfirstandandi tíma í þessu efni saman við árið 1924 einnig. Og þá kemur í ljós, að tekjur ríkissjóðs af þessum tveimur tollum eru nær tveim millj. kr. minni nú á ári en það ár, og 750000 kr. lægri heldur en þeir voru að meðaltali síðustu 12 árin. síðan 1934 hefir svo verið sett í l. viðskiptagjald og önnur gjöld til ríkissjóðs, sem gert hefir það að verkum, að heildartekjur ríkissjóðs af tollum og sköttum hafa orðið svipaðar árin 1936 eins og 1935 og 1934, og dálítið hærri en árið 1933. Hefði þessi þróun ekki orðið um vörutollinn o. fl. tolla, þá hefði ekki þurft að leggja á hina ýmsu aðra tolla og skatta, sem orðið hefir að leggja á til þess að vinna upp tekjurýrnunina af vörutollinum og verðtollinum. Þá hefði heldur ekki þurft að bera fram þá gífurlegu tollahækkun, sem verið er að setja. Ef ekki þyrfti innflutningshöft hér, þá hefði verið hægt að halda uppi útgjöldunum á fjárl. án þess að hækka nokkurn skatt nú eða nokkurn toll. Þetta er meginatriðið í þeim röksemdum, að vegna þess að tolltekjur hafa lækkað, þarf að leggja á rýjar tolla- og skattahækkanir. En mér hefir aldrei dottið í hug að halda því fram, að þessar tekjur ríkissjóðs hafi í heild sinni lækkað. Þær hafa a. m. k. ekki lækkað síðan 1934. En greiðslur úr ríkissjóði, sem verða samþ. nú, eins og t. d. greiðslur vegna mæðiveikinnar og greiðslur til styrktar sjávarútveginum, gera það að verkum, að ekki er hægt að komast af með sömu tekjur og áður nægðu til ríkissjóðs. En sem sagt, hefði ekki orðið svo stórkostlegur niðurskurður á innflutningnum, þá hefði verið hægt að ná nógum tekjum í ríkissjóð með þeim tollum og sköttum, sem giltu árið 1934.

Hv. 6. landsk. talaði hér nokkur orð áðan um frv. og var allillskeyttur í minn garð. Hann sagði, að ég hefði lofað, að engar umframgreiðslur skyldu verða fram yfir gjaldaáætlun fjárl. í minni ráðherratíð. Þetta ætla ég ekkert að pexa um nú, þó að vitanlega eigi þessi fullyrðing hans enga stoð í veruleikanum. En aðalatriðið í ræðu þessa hv. þm. var það, að kjördæmi þau, sem kosið hefðu sjálfstæðismenn á þing, hefðu verið mjög illa leikin, að því er snertir fjárframlög úr ríkissjóði, og því væri eðlilegt, að þau kjördæmi og þm. þeirra væru nú nokkuð á móti tekjuaukningu til ríkissjóðs, sem þessi stj. legði á, sem nú situr. Þetta er að langmestu leyti rangt hjá þessum hv. þm. Það skal að vísu játað, að haustið 1934 var nokkuð sterkt tekið á þessu, þannig að það gekk minna af framlögum úr ríkissjóði til þeirra kjördæma, sem þessir hv. þm. voru fyrir. En vegna aðgerða stjórnarfl. árin 1935, 1936 og 1937 í þessu efni þurfa ekki þessir hv. þm. að kvarta um þetta. Vitanlega er ekki hægt að fullnægja öllum beiðnum um fjárframlög úr ríkissjóði til hinna ýmsu héraða landsins, og það jafnvel þó að um sé að ræða að styrkja ýms þau mál, sem í sjálfu sér eru mjög góð. En það eru ekki kjördæmin, sem kjósa sjálfstæðismenn á þing. sem verða ein fyrir þessu, heldur öll kjördæmi landsins. Þetta vita sjálfstæðisþingmenn vel og játa sumir, og það við sína eigin kjósendur.

Þá sagði hv. þm. Vestm., að það sæti ekki á okkur í stjórnarflokkunum að deila á S. Í. F., því að við hefðum ekki gert það, sem bar að gera og hægt var að gera til þess að komast hjá tapi vegna verðfalls lírunnar. Ég upplýsti, að þetta er rangt, af þeirri ástæðu, að andvirði fisksins, sem seldur var rétt áður en verðfali lírunnar skall yfir, kom ekki inn fyrr en í nóvember og desember um haustíð. En sölurnar voru gerðar í september, og líran féll í september. Verðfallið hlaut því að skella á þeim, sem áttu eftir að fá greiddan fiskinn, þegar verðfall lírunnar skall yfir. (JJós: Það var hægt að vera búinn að festa kaup á vörum á Ítalíu í lírum, þótt ekki væri búið að borga þær). Í fyrsta lagi er því til að svara, að ekkert var fyrirfram vitað um það, hvenær fiskurinn mundi fara. Í öðru lagi hefði, þótt búið hefði verið að festa slík kaup fyrirfram, áður en gengi lírunnar féll, tapið samt sem áður skollið á S. Í. F. — Annars finnst mér frekar lítilmannlegt fyrir hv. þm. að vera að deila hvor á annan fyrir að sjá ekki fyrir verðfall á peningum. Ef maður t. d. gerði ráð fyrir, að líran hefði alls ekki fallið, en S. Í. F. hefði orðið af sölu, vegna þess að það hefði ekki fengið að selja fyrir þann tíma, er líran í reyndinni féll, þá hefði líklega heldur betur sungið í tálknunum á hv. þm. Vestm. Sannleikurinn er sá, að ríkisstj., þegar hún er beðin um ríkisábyrgð fyrir útflutningi, verður að láta S. Í. F. ráða því, hven2er sölurnar eiga að framkvæmast, því að okkur í ríkisstj. skortir skilyrði til þess að meta, hvenær rétta augnablikið sé til þess að selja. Það verður því í aðalatriðum að fara eftir till. þeirra, sem með fisksöluna hafa að gera. Þess vegna finnst mér lítilmannlegt af þeim í stjórn S. Í. F. að vera að kenna okkur, sem með stj. landsins förum um það, að tap af völdum gengisfalls lírunnar átti sér stað á fisksölunni, og álasa okkur fyrir að hafa ekki séð gengisfallið fyrir.