18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1938

*Stefán Stefánsson:

Herra forseti, góðir hlustendur! Það, sem mestu mun skipta um afkomu alla og framtíð hverrar þjóðar, er, að fjárhagur hennar sé góður og að atvinnuvegir hennar séu reknir á heilbrigðum grundvelli og með sæmilegum arði. Hversu er nú háttað um þessi efni með okkar þjóð? Ef við athugum nú fyrst fjárhaginn, þá verður ekki framhjá þeim beiska sannleika komizt, að hann er í mesta máta ískyggilegur. Skuldir þjóðarinnar við útlönd fara varandi með hverju ári, og á árunum 1933–1936 hafa þær vaxið um 30 mill. kr., eða úr 74,6 millj. upp í 104,3 millj. Beinar skuldir ríkisins hafa vaxið á sama tíma um ca. 4 millj., eða frá 18,4 millj. upp í 22,á millj. Yfirfærslu og gjaldeyrisvandræði vaxa með hverju ári. Engum, sem nokkuð þekkir til, getur blandazt hugur um það, að fjárhagsástæður þjóðarinnar eru mjög alvarlegar, og að ekki má út af bera, eigi ekki að keyra um þverbak. Svona er ástandið, þrátt fyrir auknar álögur með hverju ári, bæði beinar og óbeinar, og má óhætt telja, að svo nærri hafi nú verið gengið þegnum þjóðfélagsins um greiðslu tolla og skatta, að lengra verði eigi farið. Til sanninda um hinar miklu álögur vil ég leyfa mér að benda á ummæli hv. 9. landsk. (JBald) við umr. um tollafrv. stj. í Ed., er hann gat þess, að svo nærri þegnunum hafi þegar verið gengið um greiðslur beinna skatta að lengra yrði þar eigi komizt, og því yrði að grípa til tolla, þótt það væri neyðarúrræði. ennfremur sagði hæstv. fjmrh. í þingi þann 14. þ. m. að beinir skattar væru hvergi hærri en á Íslandi, a. m. k. eigi í nokkru nálægu landi. Á þessu má sjá, hversu langt hefir verið gengið á lagningu beinna skatta á Íslandi, að þessir tveir háttsettu menn þjóðarinnar. fjmrh. og 9. landsk., forseti sameinaðs þings og formaður Jafnaðarmannafélags Íslands, telja, að lengra verði eigi komizt um álagningu beinna skatta. á þessu stutta yfirliti verður það ljóst, að fjárhagsástandið er allt annað en glæsilegt.

Þá vil ég með nokkrum orðum minna á hina tvo höfuðatvinnuvegi landsmanna, og er þar engu bjartara yfir en um fjárhaginn. Um sjávarútveginn er það alkunna, að hann hefir verið rekinn með tapi undanfarin ár. Í áliti því, er skipulagsnefnd atvinnumála hefir gefið út, segir svo: Afkoma útvegsins hefir verið mjög slæm síðustu sex ár, verri en annara atvinnuvega, þegar yfir öll árin er litið. Öll þessi ár hefir útgerðin í heild sinni verið rekin með tapi. Nú undanfarið hefir nefnd manna setið á rökstólum hér í bænum til að rannsaka ástand útvegsins nú á þessu ári. Og hefir hún komizt að þeirri niðurstöðu, að taprekstur útvegsins muni nema um þrjár millj. kr. á árinu, eða ca 50 þús. kr. á togara. en 10–l5 þús. kr. á mótorbát. Er gert ráð fyrir, að taprekstur muni hækka a. m. k. um helming á næsta ári, eða allt upp í 6–8 millj., miðað við sama afla og verðlag og verið hefir á þessu ári, en þá er gert ráð fyrir auknum kaupkröfum, svo sem gerð hefir verið krafa um af sjómönnum, og auknum skatta- og tollaálögum samkv. frumvörpum þeim, sem nú liggja fyrir Alþingi. Um útveginn verður eigi annað sagt í heild en að hann sé í rústum. Þótt naumast verði hið sama sagt um landbúnaðinn, er hann allt annað en glæsilegur. Torfbæir í landinu skipta ennþá þúsundum. Margir — og jafnvel flestir — þeirra eru að falli komnir. Bændur geta eigi byggt þá upp; og þótt þeir gætu fengið hagkvæm lán, treysta þeir sér ekki til að standa undir byggingarkostnaði. Búrekstur, sem eigi getur byggt hin nauðsynlegustu íveruhús á jörðunum og eigi heldur staðið undir vöxtum og afborgunum af hagkv. lánum til bygginga, hann er í rústum. Bændur hafa frá öndverðu og vilja enn eiga ábýlisjarðir sínar, enda er sú reynsla á okkar landbúnaði á undanförnum öldum, að það er sá búrekstur, sem hefir reynzt traustastur fyrir þjóðina. Þeir vilja hvorki vera landsetar einstakra manna eða hins opinbera. En hversvegna koma þá bændur í hópum til ríkisstjórnarinnar og vilja selja ríkinu jarðir sínar? Slíkt er aðeins gert vegna þess, að bændur sjá sér eigi fært að halda jörðum sínum sakir skulda. Þegar nú atorkusamir hændur verða að selja jarðirnar gagnstætt vilja sinum, þótt þeir skuldi út á þær nokkur þúsund, þá verður eigi litið öðruvísi á en svo, að atvinnuvegur sá, er þeir stunda, sé í rústum. Mesti fjöldi bænda eru nú þegar orðnir einyrkjar, og þeim fjölgar með ári hverju. Þessir bændur vinna svo að segja dag og nótt. Flestir eru bændur þessir einyrkjar sökum þess, að þeir hafa eigi efni á því að halda verkafólk. Þeir geta aðeins séð sér og sínum farborða með því að þræla myrkranna á milli. Sá atvinnuvegur. sem gerir slíkar kröfur til vinnuþrælkunnar, hann er í rústum. Því miður eru þessir gömlu atvinnuvegir vorir allt annað en glæsilegir, enda hefir þjóðin fengið á þeim hina megnustu ótrú. Menn flýja frá framleiðslunni og gerast launþegar og verkamenn. Enginn, sem fé hefir handa milli, þorir að hætta því í framleiðsluna. Reynslan hefir kennt mönnum, að það fé, sem í hana er lagt, gefur engan arð að jafnaði. Þetta þarf og verður að breytast. Það er fyrsta og stærsta skylda hvers stjórnmálaflokks í landinu að vinna að því að reisa við atvinnuvegi landsins, vekja aftur hjá þjóðinni trú á framleiðsluna og möguleika hennar. Aðeins þannig verður þjóðinni bjargað úr þeim fjárhagsvandræðum, sem öllum kemur saman um, að hún sé stödd í. Og þeir einir pólítískir flokkar, sem að þessu vilja vinna af heilum hug og fullum drengskap, eiga á þessum tímum nokkurn tilverurétt. Því verður ekki neitað, að þeir flokkar, sem nú fara með stjórn og hafa farið undanfarin ár, virðast eigi hafa skilið sem skyldi hlutverk og þýðingu framleiðslunnar í landinu og það, að afkoma þjóðarinnar er órjúfanlega tengd afkomu framleiðslunnar. Kröfur neytenda og launamanna hafa mátt sín meir en kröfur og þarfir framleiðendanna. En nú upp á síðkastið virðist nokkur breyting á þessu að verða með Framsfl. Markmið Bændafl. hefir verið allt frá stofnun hans að efla framleiðsluna til lands og sjávar. Flokknum hefir verið ljós sú þjóðarhætta, sem fram undan hefir verið og fram undan er ef atvinnuvegir landsmanna eru áframhaldandi reknir með tapi, og að taka verði fyrir þennan taprekstur, sem nú vofir fyrir dyrum. Það er eins og fjöldinn átti sig ekki á því, hversu öll framleiðsla er mikilvæg fyrir þjóðarheildina. Mörgum hættir við að skoða hana svo, að hún snerti aðeins framleiðendur; hún snertir ekki þá, sem að framleiðslunni vinna, og því síður aðra út í frá. En við nánari athugun má öllum vera ljóst og þarf að vera ljóst, að öll fjárhagsleg velsæld einstaklingsins og þjóðarheildarinnar byggist á því, að framleiðslan sé rekin með sæmilegum arði. Sú framleiðsla, sem ekki ber sig um lengri tíma, hlýtur að falla í rústir, svo sem telja verður um okkar höfuðatvinnuvegi að meira eða minna leyti. Bændafl. hefir frá byrjun gert þá kröfu fyrir bænda hönd, að þeir fengju greitt framleiðslu- eða tilkostnaðarverð, og yrði því verðlag á þeim vörum, sem seldar yrðu frá bændum á innlendum markaði, við þetta miðað. Kom þetta fram í till. þeirri, er Jón í Stóradal flutti á þingi 1933 um skipulagning afurðasölumála, og einnig í brtt. þeim, sem núv. þm. Dal. (ÞBr) og fyrrv. þm. Rang., Pétur Magnússon, báru fram við mjólkurlögin 1934, þar sem svo er tilskilið, að við verðlagningu mjólkur og mjólkurafurða skuli sérstakt tillit tekið til kostnaðarverðs á hverjum tíma. Og ennfremur, að það, sem vinnst á hinu breytta mjólkursölufyrirkomulagi frá því, sem verið hefir, gangi óskipt til bænda, þar til þeir a. m. k. hafa fengið borið upp kostnaðarverð. Það er vert að geta þess, að Framsfl. felldi þessar brtt. ásamt sósíalistum. Þeir munu í þessu hafa viljað fylgja ummælum hv. 9. landsk., er hann lét falla við útvarpsumræður um mjólkurmálið, að það græddust tveir aurar á hinu breytta mjólkursölufyrirkomulagi frá því, sem áður hafði verið, og skyldi deilast milli framleiðenda og neytenda, einn eyrir til hvors, og það án tillits til þess, hvort bændur fengju greitt tilkostnaðarverð eða eigi.

Þessar kröfur um tilkostnaðarverð hafa allt til þessa fengið misjafna dóma hjá stjórnmálaflokkunum. Það hefir verið reynt að gera þær hlægilegar á þeim grundvelli, að eigi væri hægt að finna þetta verð, og það jafnvel dregið í efa, að það hefði verið tilgangurinn með afurðasölulögunum að ná tilkostnaðarverði. En ef svo hefir eigi verið, hver var þá tilgangurinn? Allir muna hróp þau, er gerð voru að þremur bændum, er kosnir voru á búnaðarþingi 1935, þeim Jóni Hannessyni, bónda í Deildartungu, Jóni Sigurðssyni, bónda á Reynistað, og Sveini Jónssyni, bónda á Egilsstöðum, er þeim var falið að reikna út tilkostnaðarverð á kindakjöti. Eins og kunnugt er, komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að framleiðsluverð á kindakjöti mundi nema kr. 1,27 pr. kíló. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að benda á það, að norskir bændur telja sig þurfa að fá kr. 1,40–1,50 pr. kíló af kjöti. Og má þó geta þess, að kaupgjald í Noregi er helmingi til tveim þriðju lægra en á Íslandi. T. d. er vorkaup karlmanna kr. 2,68 á dag, en kr. 3,05 sumarkaupið, og má á þessu sjá, hversu sanngjörn krafa nefndarmanna um kr. 1,27 pr. kíló hlýtur að vera, miðað við verðlag í Noregi. Á það skal minnzt, að Búnaðarfélag Íslands hefir þrívegis gert kröfu um það, að bændur fengju tilkostnaðarverð, bæði árið 1935 og 1937. Ályktun þingsins 1935 var eitthvað á þá leið, að það teldi það rétta stefnu, sem fram kom í hinum nýju afurðasölulögum. En það gerði þá kröfu, að þegar ríkið tæki sölu afurða landbúnaðarins í sínar hendur, þá verði það um leið að tryggja bændum fullt framleiðslukostnaðarverð fyrir afurðirnar. Ályktun búnaðarþings frá 1937 var gerð út af till. frá Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga um að hækka verð á dilkakjöti með hliðsjón af framleiðslukostnaði. Og ályktaði búnaðarþing í tilefni af því að skora á kjötverðlagsnefnd að miða verð á kjöti á innlendum markaði við það, að bændur fái fullt framleiðsluverð, eftir því sem unnt væri.

Í sambandi við þetta framleiðsluverð vil ég drepa ú stjórn afurðasölumálanna. Bændafl. hefir frá öndverðu gert þá kröfu, að framleiðendur fengju þar öll ráð. Búnaðarþing 1935 gerði einnig þá kröfu. Samband ísl. samvinnufélaga gerði einnig þá kröfu, þegar afurðasölulögin voru sett. En allar till. framleiðenda og forráðamanna framleiðenda um þessi efni hafa verið virtar að vettugi af hæstv. landsstj. og kröfur neytenda og verkamanna verið settar ofar kröfum bænda um þessi efni. Verkamenn vilja hafa óskertan rétt til að ákveða sinn vinnutaxta. Vinnan er þeirra vara. Þeir munu ekki vilja veita okkur bændum eða öðrum framleiðendum þar um nokkra hlutdeild. Búnaðarafurðir eru vörur okkar bænda. Við viljum einnig fá að ráða verðlagi á þeim, án nokkurrar íhlutunar neytenda eða verkamanna. Og að því her okkur að vinna, að við fáum þessi yfirráð, sem við eigum kröfu til. Ég gat þess áður, að stjórnarflokkunum, og sér í lagi Framsfl., væri að skiljast krafan um tilkostnaðarverð, og má

benda á, að það er þegar komið inn í löggjöfina, t. d. í lögum um grænmetisverzlun. Og það er vissulega eigi orðin jafnerfið gáta að finna tilkostnaðarverð nú og áður var, að áliti ýmissa ráðamanna Framsfl. Eftir greinum, sem birzt hafa í dagblöðum Framsfl. nú undanfarið, mætti líta svo á, að flokkurinn, eða a. m. k. nokkur hluti hans, hefði séð sig um hönd og væri nú á góðum vegi með að taka upp hina gömlu banda- og samvinnupólitík flokksins, þá stefnu, sem Bændafl. fylgir og hefir fylgt. Blöðin tala nú um, að öll framleiðsla þurfi að bera sig. Allt verður að bera sig; og er þetta í sjálfu sér rétt. En þjóðin hefir eigi átt slíku að venjast úr herbúðum stjórnarinnar undanfarið. Í kosningabaráttunni s. l. vor talaði frambjóðandi jafnaðarmanna norður í Eyjafirði um hin verri og hin betri öfl Framsfl. Að foringjar flokksins hér í Reykjavík gera einnig svo, má sjá undanfarið í Alþýðublaðinu. Frambjóðandinn gat þess, að hin verri öfl væru undir stjórn Jóns Árnasonar framkvæmdarstjóra. Ég vildi mega vænta þess, að „hin verri öfl“, sem jafnaðarmenn svo kalla, innan Framsfl. undir forustu Jóns Árnasonar og S. Í. S. ættu eftir að verða yfirsterkari í flokknum, ættu eftir að vinna að viðreisn framleiðslunnar. En slíkt verður eigi gert í samstarfi við þjóðnýtingarflokka. Menn, sem fyrst og síðast gera síauknar kröfur til örbjarga atvinnuvega um hækkað kaup, styttan vinnutíma og allskonar fríðindi, vitandi um taprekstur þeirra og illa afkomu, þeir eru síztir allra líklegir til að bjarga framleiðslunni og þar með þjóðinni. Enda er vitað um suma þeirra, að þeir óska öllu atvinnulífi í kalda kol, þar sem þeir telja það greiðustu leiðina að hinu langþráða takmarki, sæluríki kommúnismans.

Frumvörp þau, er Bændafl. hefir borið fram á undanförnum þingum, miða flest að því á einn eða annan hátt að bæta afkomumöguleika atvinnuveganna, og þá einkum landbúnaðarins. Má þar benda á frv. um jarðræktarlög eða framhaldsnám bændaskólanna, tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins, fóðurmjölsbirgðir o. fl. Ennfremur vil ég benda á eitt frv., sem flokkurinn hefir borið fram á undanförnum þingum, en það er frv. um rétta gengisskráningu. Það mál er nú komið í höfn hjá milliþingan. í bankamálum. Afstaða hinna stóru stjórnmálaflokka hefir verið nokkuð reikul í því máli. En svo mun nú komið, að ýmsir áhrifamenn innan þeirra flokka telja nú frv. Bændafl. um rétta gengisskráningu, eða frv., sem gengur í sömu átt, einna líklegasta og jafnvel einustu björgun út úr hinni fjárhagslegu þrengingu, til þess að reisu við atvinnulífið í landinu.

Bændafl. var stofnaður fyrir fjórum árum af Tryggva Þórhallssyni. Var hann stofnaður vegna ágreinings, sem upp kom innan Framsfl. Flokknum er borið á brýn af andstæðingum hans, að hann hafi svikið málefni bænda. Hvar er þá svikin að finna? Tryggvi Þórhallsson er kunnur sem hinn einlægasti og tryggasti vinur og málsvari bænda á Íslandi. Stefna flokksins var af honum mörkuð, og henni hefir verið fylgt fram á þennan dag. Dettur nokkrum í hug, að Tryggvi Þórhallsson hefði svíkið sín helgustu mál, mál bændanna á Íslandi og íslenzkra sveita með stofnun flokksins? Þar sem flokkurinn hefir verið í stjórnarandstöðu frá byrjun, og hann jafnframt hefir verið fámennur, hefir hann fengið litlu áorkað, en eigi að síður hefir hann unnið það hlutverk að forða Framsfl. frá því að falla í þjóðnýtingarfaðm sósialista. Og það hlutverk eitt er svo stórt, að íslenzkir bændur og hin íslenzka þjóð má vera flokknum þakklát fyrir.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að hv. 3. þm. Reykv. (HV) sagði í útvarpsræðu frá síðasta þingi, að af hræðslu við Bændafl.

hefði Framsókn eigi þorað að ganga inn á þjóðnýtingar-„plön“ sósialista. Þetta voru nú ummæli þessa sterkasta og áhrifamesta manns innan jafnaðarmannaflokksins. Það var trú mín, þá er Bændafl. var stofnaður og ég skipaði mér undir merki hans, að sá flokkur mundi þess megnugur að safna bændum í einn allsherjar flokk. Framsfl. og Sjálfstfl. hafa eigi megnað svo að gera. Eins og nú er komið högum þjóðanna um hina harðvítugu stéttabaráttu — og þar erum við eða verðum engin undantekning —, þá er það hverri stétt lífsnauðsyn, og eigi síður bændastéttinni en öðrum stéttum, að sameinast til baráttu fyrir sínum hagsmunamálum. Þetta er öllum stéttum að verða ljóst, nema ef vera kynni bændastétt Íslands. Virðist svo sem hún hafi öðrum stéttum minni skilning á mætti og áhrifum samtakanna. En svo má það eigi vera. Íslenzkir bændur verða að skilja það. að sameining og samtök þeirra er fyrir öllu, eigi þeir ekki að verða undir í lífsbaráttunni, verða undirlægjur annara stétta. Ég treysti því, að sú eining muni um síðir takast undir merki og stefnu Bændafl., þar sem ég hefi talið og tel hann fremur öðrum flokk bænda og landbúnaðarins. En nafnið skiptir í raun og veru minnstu, ef stefnunni er fylgt. Sú stefna, sem nú er vissulega upp hjá ýmsum áhrifamönnum Framsfl. og hjá ráðamönnum S. Í. S., mætti vel verða til þess, að skemmra verði nú til samtaka og einingar íslenzkrar bændastéttar en margan grunar.

Ég vil enda þessi orð mín með þeirri ósk. að allir íslenzkir bændur bæru gæfu til þess fyrr en síðar að standa saman til baráttu fyrir sínum hagsmunamálum, án tillits til þess, hvaða pólitískum flokki þeir nú fylgja; og að hvaða nafn, sem sá flokkur ber, sem minnstu skiptir, þá verði hann helgaður byggðum landsins og íslenzkum landbúnaði. Íslenzkir bændur verða að bera sín mál fram til sigurs með félagssamtökum sínum. Geri þeir það eigi sjálfir, verður það ekki gert af öðrum. Íslenzka þjóðin hefir allt til þessa fyrst og fremst verið bændaþjóð. Vinnum að því, allir íslenzkir bændur, að svo megi verða í framtíðinni. Það verður vissulega íslenzku þjóðinni fyrir beztu.