03.12.1937
Efri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hafði ekki búizt við, að fram færu umr. um þetta mál í dag, þó að það bæri á góma við 1. umr. þessa máls. En út af ræðu hv. þm. Vestm. verð ég að segja nokkur orð. Hann vill ásaka ríkisstj. stórlega fyrir að hafa ekki farið eftir óskum stjórnar S. Í. F. í bréfi 16. júní um að eyða innieignum, sem safnazt höfðu fyrir á Ítalíu. Hv. þm. verður að athuga það, að tapið kom ekki fram á allri líruinnieigninni á Ítalíu. Ég man því miður ekki, hvað há upphæð það var, en get séð það. En það er þess vegna ekki rétt, að það hafi ekki verið gerðar ráðstafanir til þess að eyða innieigninni jöfnum höndum. Það, sem tapið kom niður á, var að langmestu leyti lírur. sem S. Í. F. seldi fyrir í sept. og lágu því alis ekki fyrir til ráðstöfunar um það leyti. sem stjórn S. Í. F. ásakar ríkisstj. fyrir að hafa engar ráðstafanir gert. Það má náttúrlega deila um það, hvort ekki hefði verið rétt að vera búið að eyða þessum lírum fyrirfram, en við því er það að segja, að bankarnir höfðu þá ekki útvegað sér þannig sambönd á Ítalíu, að þeir hefðu nokkra möguleika til að stofna þar til skulda, og þar að auki vissu menn ekki þá, hvað þangað þyrfti að fara mikið af „Labrador“fiski. Ég vil bara segja, að það er sjáanlegt á þeim sölusamningum, sem stjórn S. Í. F. gerði í sept., að hún hefir þá verið í alveg jafnmikilli óvissu og við um þetta. Ég vil ennfremur benda hv. þm. Vestm. á það, að ef búið hefði verið að selja líruna fyrirfram, þá hefði það þó ekki komið í veg fyrir, að Sölusamlagið hefði tapað eins og það gerði, en hitt skal viðurkennt, að þjóðin í heild hefði ekki tapað á því, ef slíkir sölusamningar hefðu farið fram. — Ég ætla svo ekki að fara lengra út í þetta mál; ég varð að taka þetta fram, til þess að það stæði í þingtíðindunum við hliðina á ummælum hv. þm. Vestm. (JJós: Ég var aðeins að bera hönd fyrir höfuð sölusamlagsins). Ég var aðeins að svara óviðeigandi árás hv. þm. á mig út af þessu atriði.