11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég var hér með 2 brtt. við þetta frv. Aðra flutti ég með hv. þm. Vestm. Fer önnur brtt. mín, á þskj. 235, fram á að breyta til um toll á ávöxtum, þurrkuðum og nýjum, og grænmeti. En af því að önnur brtt. kom fram á þskj. 239 sama efnis, frá hv. 2. landsk., hefi ég hugsað mér að taka mína brtt. til baka og fylgja d-lið hinnar brtt. Þar er það skýlaust, að það sé nýir ávextir og þurrkaðir, og nýtt og þurrkað grænmeti. Ég þarf ekki að fjölyrða mikið um brtt. Öllum þm. ætti að vera það vel ljóst, hversu það er afarnauðsynlegt að bæta úr því á viðunandi hátt, hve lítið við getum ræktað hér af ávöxtum. En það er ekki nóg, að innflutningur fáist á þessari vöru til landsins og hún verði aðeins fyrir hina efnuðu, heldur verður hún að vera það ódýr, að allur almenningur, og þá ekki sízt sjúklingar, geti notið hennar. Þess vegna er ég þessu fylgjandi, að skipt verði í flokka, þannig að það, sem er stimplað með 30% gjaldi, verði eftirleiðis stimplað með 7% gjaldi. — Þá er hin brtt., sem ég flutti með hv. þm. Vestm., á þskj. 291. Fer hún fram á að taka úr 1. tölul. 1. málsgr 3. gr. ýmsar vörur, sem ætlaðar eru til útgerðar, og gera þær tollfrjálsar, eða réttara sagt, að undanþiggja þær stimpilgjaldi því, sem frv. ákveður. Það eru eingöngu vörur, sem ætlaðar eru til útgerðar, eins og ég minntist á. Og eins og öllum hv. þdm. er ljóst, hafa bæði komið frá útgerðarmönnum skýrslur um, hve hagur útgerðarinnar er slæmur, og einnig spannst þetta inn í umr. í gær, þegar talað var um síldarverksmiðjurnar. Þó að þetta í sjálfu sér sé ekki sú fúlga, sem hjálpi sjávarútveginum gegnum örðugleikana, þá álít ég a. m. k. skyldu þingsins að koma ekki fram einmitt á þessum erfiðleikatímum neinum álögum á útgerðarmenn, um leið og útgerðarmenn vonast til þess, að Alþingi geri eitthvað til þess að bæta þeirra hag frá því sem nú er. Það verður að vera sjálfsögð krafa til Alþingis, að það íþingi ekki þeim atvinnuvegi, sem er orðin eins illa staddur og hann er orðinn og má segja um, að sé lífakkeri þjóðarbúskaparins. Ég vona þess vegna, að hv. þd. samþ. þessar brtt. mína, því að þær fara ekki fram á annað en fulla sanngirni bæði til hinna fátæku í landinu, sem eiga erfitt með að ná í þær vörur, sem þeim er nauðsyn á til að halda hreysti, og svo að öðru leyti að taka tillit til þeirra erfiðu ástæðna, sem sjávarútvegurinn á nú við að búa.