11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Forsrh. (Hermann Jónsson):

Ég hafði ætlað mér að koma fram með brtt., þar sem ákveðið yrði að leggja nokkurn hluta af benzínskattinum í veg, sem liggur frá Hólmavík og vestur til Nauteyrar, en eins og menn hafa sennilega veitt athygli, er engu af þessum benzínskatti, sem nú er mikið deilt um, ætlað að renna í vegi í Vestfirðingafjórðungi, og ég verð að segja það, að ef meta á, í hvaða vegi benzínskatturinn yfirleitt eigi að renna, þá tel ég hiklaust réttlátara, að nokkur hluti hans renni þangað heldur en til Vestmannaeyja, þar sem vegaþörfin er óneitanlega ekki mjög mikil og vegalengdir svo stuttar, að þörf fyrir bilvegi er yfirleitt ekki aðkallandi. Þess vegna álít ég það meira ranglæti, ef skilja á eftir heilan fjórðung, sem ekkert á að fá af benzínskattinum, heldur en þó að Vestmannaeyjar verði látnar sitja á hakanum, þar sem verulegur hluti benzínskattsins rann einmitt til Vestmannaeyja á síðasta ári, en þá fékk Vestfirðingafjórðungur heldur ekkert. Hinsvegar mun ég verða við þeirri ósk hæstv. fjmrh. að koma ekki fram með þessa till. í sambandi við þetta frv., því að ég er í raun og veru þeirrar skoðunar, að það ætti ekki að vera ákvæði um það í þessum l., hvert benzínskatturinn skuli renna, og það er fyrirsjáanlegt, að slík ákvæði munu leiða til þess, að um þetta verði stöðugur reipdráttur utan við fjvn., sem endar á þann hátt, sem nú horfir. Annars vil ég segja það um vegina yfirleitt, að ég sé ekki betur en að það sé búið að leggja það mikið í vegi í þessum fjárl., að yfirleitt sé ekki hægt að ganga lengra heldur en gert hefir verið. Ég hygg, að framlög til nýrra vega séu hærri heldur en þau hafa verið um margra ára skeið.

Viðvíkjandi benzínskattinum er það að segja, að það er auðséð, þó að það ætti ekki að ræða um það í þessu sambandi, að það er ekki hægt að komast hjá því að taka upp þá reglu, og verður að gera innan skamms, að hækka benzínskattinn og nota hann eingöngu til vegaviðhalds. Það er það eina rökrétta, og það er eðlilegt að láta benzínskattinn og vegaviðhaldið standast á, en að ríkið leggi fram fé til nýrra vega. Ég ætla þess vegna að lýsa yfir því, að ég mun hætta við að koma fram með þessa brtt., sem ég ætlaði að koma með, og ég sé ekki betur en það sé sjálfsagt að fella þær brtt., sem hafa komið fram í sambandi við þetta frv.

Það er eitt atriði enn, sem ég get ekki komizt hjá að minnast á, fyrst ég fór að ræða um þetta. Það er búið að ræða svo oft um það án þess að því hafi verið svarað. Það er þessi söngur um ávextina, sem hefir endurtekið sig hér í hv. d. Það er ekki hægt að neita því, að það er í sjálfu sér þarft og gott, að hægt vari að flytja ávexti til landsins til neyzlu, en þær fullyrðingar, sem fram komu í sambandi við þetta mál, eru þannig vaxnar, að það er ekki hægt að komast hjá að svara þeim. Ég hygg, að síðasta árið, sem ávextir voru fluttir til landsins, þannig að leyfi voru veitt nokkurn veginn óhindrað, hafi verið fluttir inn ávextir fyrir um ½ millj. kr. Mikið af þessum ávöxtum var skemmd og óholl vara, og sumu af því, sem flutt var inn, varð beinlínis að kasta, og það í stórum stíl. Það er því tvímælalaust, að þessi vara, sem þannig var keypt inn í landið, þegar ávextirnir voru fluttir nokkurn veginn óhindrað til landsins, var einhver dýrasta vara, sem hingað flyzt, og mikið af henni einhver sú óhollasta vara, sem hingað kemur, en þessi vara er alltaf dýr í höndum þeirra, sem með hana verzla, svo að almenningur getur ekki keypt hana og kemur aldrei til með að nota hana neitt að ráði. Ég býst við, að hæstv. fjmrh. upplýsi það, hvað tollurinn er mikill hluti af verði ávaxtanna, sem fluttir eru til landsins. Þegar verið er að staðhæfa, að krafa komi fram frá miklum hluta húsmæðra landsins um, að þessi vara sé almennt á borðum allra manna í landinu, þá getur ekki annað verið en að talað sé á móti betri vitund. Það er vitanlegt, að nú um áratug hafa ávextir svo að segja ekki sézt á flestum sveitaheimilum landsins, nema á hátíðum og tyllidögum, ef þeir hafa þá sézt þar.

Af því að svo mikið hefir verið rætt um ávexti í þessu sambandi, sem hér hefir verið gert, talaði ég víð dr. Skúla Guðjónsson, sem mikið hefir rannsakað, hvaða matarhæfi sé hollast og nauðsynlegast fyrir okkur. Ég spurði hann, hvort það væri ekki nauðsynlegt fyrir okkur að flytja inn ávexti. Svar hans var: Að vísu er mjög gott að geta flutt inn sítrónur. Líka væri gott að fá apríkósur. En þegar væri verið að tala um innflutning ávaxta yfirleitt við fólkið, þá væri bezt að líta til okkar jafnaldra, sem aldir væru upp í sveit, hvernig heilsa þeirra væri. Þeir sáu svo að kalla aldrei ávexti fyrr en þeir komust á fullorðins ár. Dr. Skúli Guðjónsson hefir verið að rannsaka m. a. fæði Færeyinga, og munu líklega koma bráðlega út eftir hann skýrslur, sem sýna það, að okkar gömlu fæðutegundir, sem notaðar hafa verið hér á landi um aldir, eru margar alveg eins ríkar að vítaminefnum eins og ávextir þeir, sem hér er verið að flytja inn. Það er vitað mál, að 90% af öllum unglingum, sem aldir hafa verið upp á þessu landi, hafa alls ekki neytt ávaxta, þó að þeir hafi verið fluttir inn hindrunarlaust, hvað þá heldur nú, þegar dýrtið er og fólkið verður að spara. Nánari rannsóknir munu eiga eftir að leiða í ljós, að við eigum svo margar góðar fæðutegundir, að fólkið geti lifað á þeim án ávaxta bezta lífi, eins og það hefir um margar aldir komizt vel af með. Þess vegna er þessi stöðugi söngur um, að ávextir eigi að vera á hvers manns borði, ekkert annað en bláber blekking. Sömuleiðis er verið að koma því hér að, sem notað hefir verið til áróðurs og rógs í einstökum blöðum, að það hafi, eins og hv. 2. landsk. kastaði hér fram, verið til handa einstökum mönnum leyfður innflutningingur á kassa. og kassa af ávöxtum. Það eru vitanlega einstakir menn hér á landi, sem hafa fengið læknisvottorð um — og það öllu meira þó þeir menn, sem þessum rógi hefir ekki verið haldið að — að vegna heilsunnar þyrftu þeir að neyta ávaxta. Það eru nokkrir þekktir menn af flokki hv. 2. landsk. Er ekkert um það að segja. En t. d. um þann róg, sem ég gat um, get ég þess hér, að ég fékk kassa frá útlöndum í sumar. Vitanlega var það undir eins komið í blöðin hér í Rvík, að ég hefði fengið ávaxtakassa sendan mér prívat. (JBald: Hvað var í kassanum?). Síðan hefir það orðið að orðtaki: „Hvað var í kassanum?“ En í honum voru niðursuðuvörur, sem Halfdan Henríksen sendi mér, vegna þess að hann vissi, að við vorum að vinna að því að setja upp niðursuðuverksmiðju hér heima. En þetta var samstundis gert að ávöxtum, til þess að halda uppi rógi. Þau skrif og ræður, sem haldið hefir verið uppi um ávaxtainnflutninginn, eru algerlega óforsvaranlegur og óheiðarlegur málflutningur. Og ef einhverjar ráðstafanir ætti að gera í þessu máli, þannig að hægt væri að flytja inn ávexti, þá ættu þessir hv. þm., sem mest tala um nauðsyn ávaxtanna, að setja upp innflutningsstofnunn, sem seldi þá ódýrar en kaupmenn hér gera nú. Hér í Rvík er nú selt á 3 kr. hvert kg. af eplum. Tollurinn á þeim er 22 aurar á kg. Þannig er okrað á þeim af þeim, sem selja þau. Þetta vildi ég láta sjást í Alþt.