11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég á hér eina brtt., á þskj. 244, í þá átt að fella niður síðustu málsgr. 2. gr. frv. Enda þótt hv. 1. þm. Reykv. sé búinn að mæla fyrir henni að nokkru leyti, finn ég ástæðu til að bæta við það nokkrum orðum.

Eins og mönnum er kunnugt, er það tekið fram, að sá tekjuauki, sem í 2. gr. getur, frá þeim mönnum, sem hafa hærri tekjur en 7 þús. kr., skiptist til helminga á milli þess bæjarfélags, sem maðurinn er búsettur í, og ríkissjóðs. Þeir menn, sem komast yfir 7 þús. kr. tekjur, eru í raun og veru í mjög fáum bæjar- eða sveitarfélögum í landinu, og flestir hér í Reykjavík. Það er gert ráð fyrir því í fjárlfrv., að um 200 þús. kr. komi inn á þennan hátt og annan álíka, sem þessi sveitar- og bæjarfélög fái, og þá fyrst og fremst Reykjavil: Nú er hér úr þessari hv. d. afgr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að jöfnun komi til milli bæjar- og sveitarfélaga, svo að mér virðist, að sú ástæða til að hafa þetta svo, sem kannske hefir verið til staðar, þegar þetta var samþ. á sínum tíma, yrði ekki lengur til, að þessu þingi loknu, og þess vegna vil ég láta fella þetta niður. Ég þykist líka sjá fram á, að annarsstaðar verði auknar tekjur ríkissjóðs, til þess að fjárl. verði afgr. tekjuhallalaus. Og það kvaðst hv. 1. þm. Reykv. vilja gera, eða þá skera einhversstaðar niður af fjárl. Og þá finnst mér handhægt, þar sem ekki er hægt að finna nein gild rök fyrir að þau bæjarfélög, þar sem þessi gjöld eiga að greiðast, fái þennan skatt, að fella niður ákvæðið um, að helmingurinn renni til bæjar- eða sveitarfélaga, heldur sé hann látinn renna til ríkissjóðs óskiptur til að jafna hallann á fjárl.

Þá talaði hv. 1. þm. Reykv. um, að ef frv. þetta yrði samþ., mundi slíkt auka dýrtíð í landinu að miklum mun Ég geri nú ráð fyrir, að eitthvað sé til í þessu. En hvernig er þetta hér í Reykjavík? Er ekki hátt upp í það sama upphæð og ætlazt er til að ná í ríkissjóð á þennan hátt, tekin, ekki með útsvörum á venjulega borgara hér í bænum, heldur með álagi á vörur, sem þeir neyta, með því að leggja það sem rekstrargjald á þá menn, sem verzla hér í bænum? Ég held því, ef hv. 1. þm. Reykv. vill hafa áhrif til þess að draga úr dýrtið hér í Rvík, gæti hann gert kjósendum sínum töluverðan greiða með því að eiga þarna hlut að máli og láta þennan hluta dýrtíðarinnar hverfa með því að leggjast beint á þá menn, sem gjaldþolið hafa, en leggjast ekki á alla, sem vörunnar neyta. Það er heilbrigðara að leggja skatta á þá, sem bezta hafa getu til að borga. Þess vegna finnst mér ástæðulaust að halda í þessa gr. eftir að bæjarfél. og sveitarfél. fá jöfnun eftir l., sem voru afgr. frá þessu þingi nú fyrir nokkrum dögum.

Ég geng ekki að nokkru samkomulagi við hv. 1. þm. Reykv. um, að báðar brtt. verði teknar aftur. Ég vil þá heldur láta þær báðar falla, ef svo vill verkast. En samt vona ég, að mín till. verði samþ., en hans felld.