11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil að þessu sinni aðeins gera að umræðuefni brtt. frá meiri hl. fjhn., en í henni er lagt til, að viðskiptagjald á áburðarefni, girðingarefni, salti, kolum og olíu verði fellt niður. Þessu get ég verið sammála og ég get lýst ánægju minni yfir því, að þessi till. er komin fram. Ég álít þetta með öllu óréttmæta tolla. En ég hefi vænzt þess, að fjhn. athugaði, hvort ekki væri hægt að ganga lengra í þessu efni, t. d. með því að heimila endurgreiðslu á kolatolli til veiðiskipa. Ég veit, að einstakir menn í n. hafa athugað þetta. Ég tel sem sagt fulla ástæðu til , að þetta yrði tekið til athugunar, en get þó sætt mig við, að það verði látið bíða þangað til málið kemur til Nd. Þetta mundi að vísu valda nokkurri tekjurýrnun, en mér virðist sá tekjuauki, sem gert er ráð fyrir í frv., mundi fara langt með að hrökkva fyrir þeirri tekjurýrnun.