11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Guðrún Lárusdóttir:

Ég gæti fallið frá orðinu, vegna þess, að hv. þm. Hafnf. tók allt það fram, sem ég hafði hugsað mér að segja um þetta mál. Þó var eitt atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem ég vildi drepa lítið eitt á. Mér heyrðist á hæstv. forsrh., að hann eins og hálfvegis drótta því að mér, að ég væri að fara með róg um einstaka menn hér í þessari hv. d. Tilefnið til þessara ummæla hæstv. ráðh. mun hafa verið það, að ég mun hafa komizt þannig að orði í ræðu minni áðan, þegar ég var að benda á, hversu óheppileg höftin á innflutningi ávaxta væru, að ég áliti miklu eðlilegra, að slík vara fengist í frjálsri verzlun heldur en einstaka menn neyddust til þess að fá undanþágu og flytja inn kassa og kassa. Þegar hæstv. ráðh. fór að tala um þetta, þá fyrst flaug mér í hug saga, sönn eða login, sem flaug um bæinn um vissan mann og vissan kassa, en fyrr ekki, svo grandalaus var ég í þessum málum. Hitt er mér kunnugt um, að það eru ýmsir menn, sem hafa reynt að fá slíkt leyfi — og jafnvel fengið. Og ég er ekki að víta það. Það er ofur eðlilegt, þegar menn telja sig þurfa að fá slíka vöru, að þeir leiti fyrir sér um það. Hvað viðvíkur dósakassanum, sem hæstv. ráðh. fékk að gjöf frá Danmörku, þá hefi ég ekki heyrt á hann minnzt, svo að í orðum mínum fólust engar aðdróttanir í þessu efni.

Mér þótti leitt að heyra það í ræðu hæstv. ráðh., að það hefði verið eytt ½ millj. kr. í skemmd epli eða að miklu leyti ónýt. En ég vildi í því sambandi spyrja, hvernig ástatt er með þau epli, sem nú er verið að flytja inn í landið. Þau koma frá Portúgal og eru uppskorin í júlí, fyrir allt að hálfu ári síðan. Það er því ekki nema eðlilegt, að þau séu farin að skemmast, þegar þau eru komin til Íslands. Kaupmenn hafa sagt mér, að það megi ganga út frá því sem gefnu, að mikill hluti eplanna í hverjum kassa sé skemmdur. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. var að segja, að þegar miklu er dyngt saman af þessum ávöxtum, vilja þeir skemmast. Þetta þekkjum við bezt húsmæðurnar, ef við viljum geyma eitthvað slíkt og höfum ekki því betri geymslu. Svo þetta er það, sem er að gerast enn þann dag í dag, þó að lítið sé innflutt.

Viðvíkjandi verðinu, sem var lögð mikil áherzla á hér við umr. að væri hátt, — og sannarlega þræti ég ekki fyrir það —, þá er það að segja, að kaupfélagið, sem áður hefir verið talað svo um hér, að væri hin mesta bjargarráðstöfun fyrir Reykjavík, hefir ekki heldur getað selt epli fyrir minna verð en 3 kr. kg.

Annars ætla ég ekki að fara að deila um þetta. Eins og ég sagði áðan, þá hefir læknirinn, sem hér á sæti í d., sýnt mjög vel fram á þá hollustuhætti, sem ávextir hafa að geyma fram yfir ýmsa aðra vöru, t. d. okkar ágæta sveitamat, sem mörg okkar hafa alizt upp á, en mjög margir, a. m. k. kaupstaðafólkið, hafa tæplega ráð á að veita sér, sökum þess hve hann er dýr.

Annars er sagt, að fæðið í sveitinni sé ekki orðið nærri eins kjarngott og það var fyrr á árum, síðan nýmjólkin er seld að mestu leyti frá heimilunum, smjörið hverfur þá um leið, og smjörlíkið kemur í staðinn, og bezta kjötið fer í kaupstaðinn. Þegar svo er komið, virðist ekki allur munur á fæði sveitafólksins og okkar kaupstaðabúa, svo að þörfin fyrir bætiefni ávaxtanna og grænmetis verður alstaðar jafnbrýn. Ég mun svo ekki orðlengja meira um þetta efni, og læt máli mínu lokið.