14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég býst ekki við, að það sé nokkur maður hér inni — ekki einu sinni hv. 5. þm. Reykv. —, sem lætur sér detta í hug, að hægt sé að taka öll gjöld til ríkissjóðs, 12–14 millj., með beinum sköttum einum saman, án þess að snerta nokkra aðra en þá, sem hann kallar þá ríku. Og spurningin er vitanlega sú, hvað langt eigi að ganga í því að leggja tekju- og eignarskatt og skatta á þær vörur, sem faldar eru miður þarfar, áður en menn neyðast til að leggja á almennar vörur. Þetta er spurningin, en ekki það, hvort hægt sé ekki einfaldlega að leggja öll gjöld til ríkissjóðs á sem beina skatta. Ég býst ekki við, að nokkur haldi því fram.

Hv. 5. þm. Reykv. segir, að það hafi verið eitt af kosningamálunum í vor, að létta jafnvel af tollum og sköttum frá því, sem þeir hafa verið fyrir þær kosningar, — a. m. k. ekki þyngja þá. Ég mótmæli þessu algerlega hreint. Um þetta var engin yfirlýsing gerð í kosningunum í var. Þvert á móti var almennt litið svo á, að ekki væri hægt að lækka tolla eins og sakir stæðu. Þetta er þess vegna alger uppfinding hjá hv. þm. Þvert á móti kom fram hjá flokkunum áður en þeir lögðu út í síðustu kosningar, að það væri komið svo langt áleiðis fyrir þeirra atbeina að skipta álagningunni eftir efnum og ástæðum, að erfitt væri að gan a miklu lengra eftir þeirri leið einni saman. Ég skal nefna tvö óræk dæmi. Annað, að fulltrúar allra flokka samþ. í þinginu að leggja á almennt vörugjald til bæjar- og sveitarfélaga. Af hverju? Af því að það var álit þeirra manna, sem aðallega töldu sig fulltrúa fyrir kaupstaðina, að með því að hækka tekju- og eignarskattinn eins og lagt var til, þá væri gengið um of á möguleika til að leggja á útsvör. Það er ekkert annað en blekking hjá hv. 5. þm. Reykv., þegar hann er að halda fram, að sú stefna, sem er í þessu frv., komi nokkrum á óvart. Það var viðurkennt alstaðar, nema bara hjá kommúnistum, af því að þeir þurfa nú að tala eins og hv. 5. þm. Reykv. talaði áðan. Hitt er annað mál, að ef borið hefði að höndum góðæri, svo að tolltekjur ríkissjóðs hefðu farið fram úr áætlun, og hægt hefði verið að létta tolla og skatta, þá var sjálfsagt að nota tækifærið til að lækka tolla á nauðsynjavörum. Eins og aðkreppt er nú og áður en lagt var í síðustu kosningar, þá vita allir, hvernig málið stóð, og hv. 5. þm. Reykv. líka. Ef tekin eru útsvör og tekjuskattur á Íslandi á hinum stærri stofnunum, þá er það svo, að álagning á „hina ríku“, eins og hv. þm. orðaði það, og þeir eru þó nokkrir til, og á þá, sem hafa háar tekjur, er eftir beinum leiðum orðin hærri en í nokkru öðru nálægu landi. Og í þessum nálægu löndum fara með völd vinstri flokkar. Og ég vil upplýsa hv. 5. þm. Reykv. um það, að ef hann ekki veit það áður, að þessir vinstri flokkar hafa gripið til þeirra tekjuöflunarleiða, sem við förum nú, áður en þeir voru búnir að auka eins mikið gjöldin á efnamönnunum eins og við höfum gert. Og líka vil ég benda hv. 5. þm. Reykv. á það, að í því eina landi, sem ég veit um, að þrír vinstri flokkar fara með völd, Frakklandi, hafa þeir sett tolla- og skattamálalöggjöf, sem áreiðanlega snertir ekki minna hag almennings í landinu heldur en sú tolla- og skattamálalöggjöf, sem hér er á ferð. Og áður en þeir gera þetta, eru þeir ekki búnir að leggja á með beinum sköttum neitt álíka fjárhæð eins og búið er hér á þessu landi. Ég ætla að segja hv. þm. það, sem hann veit áður, að einn af þeim flokkum, sem stendur að þessum ráðstöfunum, er kommúnistaflokkurinn í Frakklandi. En þessi hv. þm. og kommúnisti getur talað hér gleiðgosalega í deildinni og sagt, að mannlegra sé að þora að tala við kjósendurna. Hann er nú að tala til að afla fylgis, en ég held það væri nær fyrir hann að þora að viðurkenna staðreyndir, sem fyrir liggja, eins og flokksbræður hans í Frakklandi þora að gera. Það er enginn manndómur í því lýðskrumi, sem hann flytur hér. Það er meiri manndómur að viðurkenna staðreyndina um þá nauðsyn, sem fyrir hendi er um fjáröflun. Því að það vita allir, sem kunnugir eru málum, að ræðan, sem hann flutti áðan, getur engu öðru áorkað en að efla fasisma. Þetta hafa flokksbræður þessa hv. þm. séð, og þeir hafa tekið afleiðingunum af því og þorað að viðurkenna staðreyndirnar og standa við þær í framkvæmdinni. En það er það, sem þennan hv. þm. brestur kjark til.