18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

1. mál, fjárlög 1938

Jón Pálmason:

Af því að ég hefi jafnan í huga þau lífskjör, sem fólkið í sveitum landsins á við að búa, þá býst ég við, að ýmislegt af því, sem ég segi hér, láti illa í eyrum þeirra manna, sem telja allt, sem hefir verið að gerast í okkar fjármála- og atvinnulífi, eðlilegt og sjálfsagt; þannig eigi það að vera og hljóti að verða.

Ef við, sem nú erum á fimmtugsaldri og eldri, hefðum fengið að vita það fyrir 20–30 árum, að á yfirstandandi tíma væru komnar í framkvæmd allar þær verklegu umbætur, sem síðan hafa gerzt í samgöngumálum, ræktunarmálum, byggingum, fiskiveiðum, hafnarbótum, iðnaði o. fl., þá mundum við hafa gert ráð fyrir, að nútímans fólk lifði í ríki sælunnar. Svo miklu munar á þægindum allskonar, skilyrðum fyrir meiri framleiðsluarði, aukinni menningu og auðsæjum líkum fyrir vaxandi þjóðarsjálfstæði, fjárhagslega og andlega. En hefðum við jafnhliða fengið að vita, að mitt í þægindunum, inni í óskalöndum verklegrar tækni, stæði þjóðin eða mestur hluti hennar í hinum mesta vanda, undir fjötrum vaxandi skulda og beygði vonsvikum árlegs rekstrarhalla í flestum frumleiðslugreinum landsins, þá mundu flestir hafa talið slíkt öfgar og fjarstæður, sem aldrei gætu stuðzt við kaldan veruleikann. Þó er nú svona komið okkar hag: um það vitna talandi staðreyndir. Það er því fullkomlega ástæða til að aðgæta, hvernig á því stendur, að slík undur hafa skeð. Því verður ekki neitað, að orsakirnar eru margar. Sumar eru þannig, að enginu mannlegur máttur innlendra manna hefir getað við ráðið. Aðrar eru sjálfráðar, þannig að þær eiga rót sína að rekja til mistaka og óstjórnar í félagslífi. menningu og stjórnmálum þjóðarinnar. Í hinum fyrra flokki ber að telja verðsveiflur og verzlunarhöft í okkar viðskiptalöndum, misbestasamt árferði o. fl. Við ýmsum þvílíkum örðugleikum má alltaf búast annað kastið. En það, hve þjóðin reynist fær um að mæta slíku, sannar betur en annað manndáð hennar og fyrirhyggju, eða hið gagnstæða.

Í hinum síðara flokki ber að telja öll mistök, sem eru og verið hafa í atvinnulífi og stjórnmálum á síðustu tímum, svo sem alla kröfufrekju um laun og kaupgjald, skatta og tolla og yfirleitt alla þá eyðslu, sem ekki er þörf á, en hvílir á framleiðslunni eins og farg, sem verkar lamandi og sligandi á heilbrigt framtak. Í því efni hafa hlutverkin snúizt svo við á síðustu árum, að fyrir 10–20 árum gátu framleiðendur landsins og yfirleitt allir landsmenn horft með bjartsýni og gleði fram á veginn. Þá gekk starfsemi félaga og opinberra aðilja út á það, að ræða um og vinna að framförum í þess orðs beztu merkingu, en nú er þetta svo snúið við, að mestöll félagsstarfsemi og yfirleitt megnið af opinberri vinnu í sveitarfélögum sýslu- og bæjarfélögum og Alþ. fer í það að bjarga vandræðum; sem fyrir hendi eru. Svo raunalega hafa hlutverkin snúizt við, og um það er ekki að villast, að þannig verður þetta fyrst um sinn, eftir öllum horfum. En því er ekki að neita, að þetta er að mestu leyti sjálfskaparvíti. Í höfuðdráttum er það því að kenna, að erlend öfgastefna, sósíalisminn, hefir undanfarið verið að flæða yfir landið, en menning þjóðarinnar og félagsþroski ekki orðin nægilega sterk til þess að standa til varnar. Áhrifin hafa því orðið svipuð eins og þegar flóðmikið jökulvatn fer að rífa niður gróið land.

Það, sem meðal annars hefir skapað áhrifastyrk þeirra manna, sem öllu vilja bylta og breyta, er, að það lætur vel í eyrum, sem landsfólkinu hefir verið talin trú um, að hið opinhera ætli, hvernig sem veltur, að sjá um, að það hefði sem mest þægindi við að búa, og það væru fyrir hendi ótakmörkuð tækifæri til þess að ná með sköttum og lánum öllu því fé, sem til þess þarf að koma í framkvæmd hverju því verki, sem skapar ný og aukin þægindi, og öllu væri óhætt, hvað sem heimtað væri, t. d. í launum, kaupgjaldi og nýrri atvinnu. Nú er þó svo komið, að jafnvel sumir höfuðsmenn stefnunnar verða sjálfir að játa, að lengur sé ekki hægt að halda áfram með síaukna beina skatta, og á því sviði hafa staðreyndirnar hrakið þá frá einum svikunum til annara, eins og kunnugt er. En þrátt fyrir allt virðast þeir vilja halda áfram til síðustu marka, jafnvel þó að áfram haldi í þá átt, að tæma sveitir landsins að vinnandi fólki og hópa saman í hinum stærri bæjum sívaxandi fjölda þjóðarinnur, báðum aðiljum, sveitum og bæjum, til óbætanlegs tjóns. Í öllum atvinnurekstri er alþekkt óhjásneiðanlegt lögmál, og það er, að hann getur ekki staðizt, nema um stund, án þess að hafa einhverjar nettó tekjur, þ. e. tekjur umfram útgjöld. Því meiri sem þær eru, því meiri framtíðar velgengni. Hitt er jafnvíst, að öllum atvinnurekstri fylgja ákveðin lágmarksútgjöld til rekstrarkostnaðar, þ. e. minnstu útgjöld, sem hægt er að komast af með. Því er ekki hægt að breyta. En allt, sem bætt er við minnstu hugsanleg útgjöld, verður að greiðast af netfótekjum. Og einmitt það, sem mest hefir verið gert að í okkar atvinnulífi, er að bæta sí og 2 á minnsta nauðsynlegan rekstrarkostnað. Því er það, að allir nýir og auknir skattar og tollar, allt hækkað kaupgjald, öll launahækkun o. s. frv. er tekið af þeim nettótekjum, sem annars væru, og út í það hefir komizt á undanförnum árum í okkar framleiðslu, að allar nettótekjur eru uppétnar á þennan hátt, og oft þar til viðbótar meira eða minna af þeirri eign, sem áður hafði safnazt. Þannig hefir gengið í landbúnaðinum og sjávarútvegnum undanfarin hallaár. Sama lögmál gildir með sveitarfélögin, bæjarfélögin og ríkissjóðinn, alstaðar hefir stefnt í sömu átt, meiri kröfur, meiri eyðsla, meiri skuldir.

Það er líka augljóst mál, að hvar sem drepið er niður fingri í okkar þjóðfélagi, þá er lengst gengið í kröfum og frekju, þar sem sósiallstar koma nærri eða ráða málum.

Þetta, sem ég nú hefi vikið að, eru staðreyndir, sem auðvelt er að sanna með ótal dæmum, en hitt, sem fram kemur í öllum deilunum um það, hverjir eigi sök á þessu og hinu og hvaða menn og hvaða stefnur eigi mestar syndir og mestar dyggðir, þá er náttúrlega margs að minnast og sjálfsagt engir, sem eru með öllu saklausir, og heldur engir, sem ekkert hafa gott gert. En þegar sakir eru bornar á okkur sjálfstæðismenn, eins og hæstv. ráðh. gerði hér í gærkvöldi, fyrir versnandi ástand, þá er því til að svara, að við höfum verið minnihlutaflokkur á Alþingi í 10 ár, og okkar andstæðingar þar hafa haft öll völd, en einmitt á þessum 10 árum hefir lakast farið í okkar fjármálum. Ef minni hlutinn á sökina, þá eru höfð endaskipti á réttu og röngu. Nú skal ég leitast við að svara nokkru af þessu og höggva niður á nokkrum atriðum í þeirri deilu, en halda mig að mestu við þá hliðina, sem að ríkissjóðnum snýr.

Þegar Jón Þorláksson var fjmrh., 1924–'27, linntu andstæðingar hans aldrei látum með að brigzla honum og hans stjórn um eyðslu og óhyggilega meðferð fjármuna. Það er því ekki úr vegi að gera nokkurn samanburð á einstökum atriðum í fjárstjórn ríkisins frá þeim tíma og síðan, en ég ætla að gera það frá allt annari hlið en áður hefir verið mest gert að, og það er á þeim liðum fjárlaganna, sem helzt ber að telja rekstrargjöld og eyðslu, að fráteknu því, sem beinlínis fer til verklegra framkvæmda. Ég miða við landsreikninginn frá 1926 og svo reikning, áranna 1932 og 1936, og svo aftur það fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir.

Frá 1926 þar til nú hafa þessur hækkanir orðið:

1. Útgjöld póstmála samtals .......

123 þús

2. — simans samtals

664 —

3. — í stjórnarráðinu samtals

56 —

4. — til hagstofunnar samtals

9 —

5. — til kirkjumála samtals

26 —

6. — til kennslumála samtals

572 —

7. — til dómgæzlu og lögreglu-

stjórnar

695 —

8. —til sameiginlegs embættis-

kostnaðar-

154 —

9. — til lækna og heilbrigðis-

mála -

71 —

10. — til almennrar styrktar-

–starfsemi -

1192 —

11. — til eftirlauna og styrktar-

fjár -

176 —

12. — til vísinda og lista

6 —

13. — til vaxta af skuldum

979 —

Alls

4723 þús.

Hér eru ekki teknar með þær gr. fjárl., sem mest er í af verklegum framkvæmdum, 13. og 16. gr., og ekki heldur annað í þessu sambandi, sem eru verklegar framkvæmdir. Þetta eru nú aðeins þau útgjöld, sem hægt er að bera saman frá 1926. En síðan hafa verið settar á fót margar stofnanir, sumar til tekjuöflunar og af ýmsum öðrum ástæðum. Í öllum þessum stofnunum hefir verið hlaðið upp mjög miklum rekstrarkostnaði með fjölda embætta, háum launum o. s. frv. Þannig hefir kostnaðurinn við reksturinn aukizt frá 1932 og þar til nú í 5 stofnunum. í útvarpinu, áfengisverzluninni, tóbakseinkasölunni, prentsmiðjunni og landssmiðjunni, um 460 þús. kr., eftir því sem næst verður komizt. Auk þessa eru margar aðrar stofnanir og n., sem settar hafa verið á fót og enginn samanburður frá eldri tíma er um, en þar hefir alstaðar verið hrúgað upp gífurlegum rekstrarkostnaði. Þannig er rekstrakostnaður, eftir því sem næst verður komizt, í raftækjasölunni 121 þús. kr., bílasölunni 44 þús. kr., viðtækjaverzluninni 87 þús. kr., ferðaskrifstofu ríkisins 80 þús. kr., tryggingarstofnun ríkisins 80 þús. kr., fiskimálanefnd 66 þús. kr., veðurstofunni 66 þús. kr., rannsóknarstofu atvinnuveganna 112 þús. kr., rannsóknarstofu háskólans 95 þús. kr., síldarútvegsnefnd 137 þús. kr., hjá síldarbræðslustöðvum ríkisins, til yfirstjórnar og fastra starfsmanna, ásamt síma og ferðakostnaði 149 þús. kr., hjá mjólkursölunni, föst laun yfirstjórnarmanna um 50 þús. kr., hjá gjaldeyrisnefnd laun 74 þús. kr., kjötverðlagsnefnd 10 þús. kr. Hjá Brunabótafélagi Íslands er launin 31 þús. kr., og svona mætti áfram telja. Í þessum 15 stofnunum og n. er rekstarkostnaðurinn 1222000 kr., og sé þar við bætt hækkuninni frá 1932 við áðurnefndar á stofnanir, 460 þús. kr., þá nemur þetta 1680000 kr. Mætti á þeim lið spara miklu meira en flesta grunar, — það fullyrði ég.

Allur þessi gífurlegi aukni rekstrarkostnaður hefir orðið með tvennum hætti: Í fyrsta lagi með margvíslegri nýrri löggjöf á þessu tímabili, og í öðru lagi með sífjölgandi starfsmannaliði og síhækkandi launum, — launum, sem yfirleitt eru í fullu ósamræmi við gildandi launalög. virðist svo komið, að launalögin frá 1919 séu ekki lengur haldin, nema gagnvart starfsmönnum ríkisins utan Reykjavíkur og fáeinum öðrum. Má í því sambandi margt nefna, sem ekki er þó tími til að rekja mikið hér. Í stjórnarráðinu eru greidd samtals milli 20 og 30 þús. kr. í laun umfram það, sem launalögin heimilu, og þó er þar ekki að finna verstu dæmin, heldur hjá öðrum stofnunum. Hjá útvarpsstjóra kostar allur reksturinn 11 70 kr. hvern einasta dag á árinu að meðaltali. Þar hefir á árinu, sem er að enda, verið eytt um 30þús. umfram það, sem heimilað var í fjárlögum, bara í laun, og hefir fjvn. í einu hljóði neitað að taka þá hækkun upp í áætlun framvegis, enda nóg sumt. Föstum starfsmönnum, hátt launuðum, er jafnt sem öðrum aukreitis borgað fyrir upplestur, í hvert sinn 25 kr., útvarpssögu 35 kr., hvern barnatíma 50 kr., hvert leikrit 200 kr., einsöng 35 kr. o. s. frv.

Í pósthúsinu í Reykjavik var rekstrarkostnaðurinn hækkaður á einu ári um 40 þús. kr., eftir reglugerð frá atvmrh. og svo að segja eingöngu með launahækkun og starfsmannafjölgun. Þar er vinnutíminn 6½ klst. á dag, til þess að vinna fyrir laununum, en 2 kr. og 2,50 kr. fyrir hvern tíma í eftirvinnu og næturvinnu, svo að meðallaun samtals eru orðin hátt á 7. þús. kr. hjá hverjum póstfulltrúa, svo aðeins sé tekinn sá hópurinn.

Í þessa sömu átt hefir síðustu árin gengið í allflestum ríkisstofnunum. Þar er ríkisreksturinn í sinni réttu mynd. Í sumum stofnunum er eytt hundruðum og jafnvel þús. kr. í tækifærisgjafir, skemmtiferðir o. s. frv. Mætti mörg einkennileg dæmi færa um fjárstjórnina yfirleitt, m. a. það, að ýmsir menn hafa margföld laun, ein í þessum stað, önnur í hinum o. s. frv. Jón Vestdal heitir t. d. einu slíkra og hefir haft 900 kr. samtals á hverjum mánuði. Forstjóri tryggingarstofnunar ríkisins hefir þetta ár tvöföld forstjóralaun, eða nokkuð yfir 20 þús. kr. Framkvæmdarstjóri síldarbræðslnanna hefir 12 þús. kr. föst laun. 4 þús. í uppbót, og auk þess hefir hann fengið 110 kr. í ferðakostnað hvern dag, sem hann hefir verið á ferðalagi erlendis. Framkvæmdarstjóri mjólkursamsölunnar hefir 12 þús. kr. Annar maður þar hefir 13 þús., og svona mætti áfram telja.

Nú er svo komið, að rekstrargjöld ríkisins verða nærri l7,5 millj. króna og innheimtar tekjur álíka upphæð. Þar við má bæta rekstrarkostnaði þeirra ríkisstofnana, sem ég hefi nefnt, sem dreginn er frá tekjum og var alltaf áður talinn í heilu lagi til gjalda og allar tekjurnar í tekjuhlið. Þetta nemur rúmum 5 millj. Þar við bætast öll útsvör, sem nema yfir í millj., og til viðbótar má telja rekstrarkostnað bankanna o. fl. opinberra stofnana, sem hafa sérreikninga, og mun ekki of í lagt að reikna þetta 2 millj. Eru þó öll gjöld, sem tekin eru gegnum hina opinberu starfrækslu um 311 millj., eða 3 krónur af hverjum 5, sem fást fyrir allar útfluttar vörur.

Svo er allt, sem verzlunin tekur frá því minnstu til þess mesta það mikið, að ekki mun mikið til vanta, að þar fari það, sem eftir er af verði útfluttrar vöru.

Það er því ekki nein furða, þó illa sé komið fyrir okkar framleiðslu, enda er sannleikurinn sá, að fyrir 10 árum áttu framleiðendur til lands og sjávar miklar skuldlausar eignir, sennilega ekki minni en 70–80 millj. króna. Þessar eignir eru nú eyddar að mestu, því það, sem enn telst til eigna hjá framleiðendum, er í óseljanlegum fasteignum og umbótum, sem ekki mundu seljast nema fyrir brot af tilkostnaðarverði, því þegar halli er á rekstri, þá eru fasteignir ekki útgengilegar. Nokkuð mikið af þessari fyrrv. eign hefir skipt um eigendur og er nú í eigu hinnar eiginlegu yfirstéttar þjóðfélagsins, launastéttarinnar og verzlunarstéttarinnar, en mest er tapað og hefir farið til að fullnægja auknum kröfum til þæginda hjá miklum hluta þjóðarinnar.

Það hefir verið um það spurt í þessum umr., hvað við sjálfstæðismenn viljum spara. Ég hefi nú sýnt fram á, að síðan 1926 hafa ríkisgjöldin verið hækkuð um 4,78 millj. fyrir utan allt, sem fer til verklegra framkvæmda, og fyrir utan rekstrarkostnað þeirra ríkisstofnana, sem síðan hafa verið settar á fót. Þar er ekki heldur með það, sem nú er eftir að samþykkja vegna pestarinnar o. fl. En við má bæta ½ millj. til atvinnubóta, sem fyrst er tekið á fjárlög 1932. Auk þess 460 þús. kr., sem rekstrarkostnaður 5 stofnana hefir verið hækkaður um síðan 1932, o. fl., en aðeins þetta er á 6. millj. Þar við bætist óhóflegur kostnaður við hinar nýjustu nefndir og stofnanir.

Það er nú náttúrlega svo, að það er hægra að ríða út í fenið en að draga hestinn upp úr, þegar hann er nærri sokkinn, og það er hægra að hlaða á gjöldunum en að taka þau af. Það er t. d. ekki hægt að láta vera að greiða vexti af skuldum, en þeir hafa aukizt um nærri heila millj. í meðferð framsóknarmanna.

Um allar hinar dýru ríkisstofnanir skal ég ganga framhjá öllum ágreiningi um það, hvað af þeim eigi rétt á sér sem slíkar og hvað ekki. Þær eru, eiga margar að vera og geta verið mikil gróðafyrirtæki ef rétt er á haldið. En það fer ekki sízt eftir því, hve miklu er eytt í laun og annan kostnað. Forstjórar þeirra flestra hafa komið til fjárveitinganefndar og allir viljað hafa há laun fyrir sig og sitt fólk og fengið það. Margir heimta fleiri menn og hærri laun. Þannig hefir þetta gengið ár frá ári og mun ganga, ef alltaf er undan látið.

Mjög mikið af þessu lít ég sömu augum eins og ég mundi gera, ef heim til mín kæmi sendimaður frá Alþýðusambandi Íslands eða Kommfl. og segði: Þú verður nú að hafa 5 vinnumenn og borga hverjum 100 kr. á mánuði allt árið og allt frítt, en þú mátt ekki láta þá vinna nema 6 tíma á dag. Allt, sem þar er umfram, verðurðu að greiða með 2 kr. á tímann. Þannig er hugsunarhátturinn hjá sósíalistum og mörgum háttsettum mönnum í okkar landi, og hann hefir markað línurnar undanfarið í okkar launamálum og fjármálaháttum. Sjálfur hæstv. fjmrh., sem er velviljaður maður, getur ekki fótað sig á hinu hála svelli, þegar til ríkisstofnananna sumra kemur. Vegna þess hvað hann er í vondum félagsskap og vegna þess hve fjármálavaldinu er dreift, þá er hann á mörgum sviðum máttvana gegn hóflausum kröfum og verður að borga.

Um það er nú enginn vafi, að það má spara svo skiptir millj. á ári í okkar opinberu starfrækslu, en það verður ekki gert nema að litlu leyti með ákvæðum fjárlaga eingöngu. Til þess þarf lagabreytingar og skipulagsbreytingar á flestum sviðum, en þó fyrst og fremst sterkt framkvæmdarvald manna með gagnólíkum hugsunarhætti við þá, sem mestu hafa ráðið undanfarið, sem hafa hugrekki og manndóm til að breyta því, sem breyta þarf, sem hafa fullan skilning á því, hvernig komið er okkar framleiðslu, og sem aldrei láta sér detta í hug, að framleiðendur eigi að vera meðhöndlaðir sem annars flokks menn í þjóðfélaginu, eins og nú er gert, því mismunurinn á þeirra hag og launaliði ríkisins er þannig, að þetta er svo.

Framsfl. hefir nú verið valdaflokkur í landinu í 10 ár, og er það enn. Hann verður nú að láta sér skiljast, að um tvennt er að velja á komandi tíð. Annaðhvort að hlaupa glötunarveginn á enda og taka alla framleiðslu og framfærslu þjóðarinnar undir ríkið, eins og kommúnistar vilja, og horfast í augu við alla þá eymd, hungur og vesöld, sem það hefði í för með sér, — eða snúa gersamlega við, bjarga því, sem hægt er að bjarga á grundvelli einstaklingsréttar og félagsfrelsis, og láta allar villukenningar sósíalista og kommúnista sigla sinn sjó.

Það þarf enginn að efast um, hvorn kostinn við sjálfstæðismenn viljum taka, og ég verð að segja það, að þeim, sem hér hafa verið að sökkva framleiðslu þjóðarinnar í hyldýpið, er það allra sízt sæmd, að hrópa út til þjóðarinnar spádóma og ásakanir um það, að allt illt sé minni hlutanum að kenna.

Við sjálfstæðismenn höfum ekki vald á málum á Alþingi, og okkar stefna hefir á mörgum sviðum verið borin fyrir borð árum saman, en hún er sú fyrst og fremst, að vinna að því, að framleiðslan sé rekin hallalaust.

Hæstv. fjmrh. ferst því ákaflega illa að kalla valdlega eftir bjargráðatillögum frá minni hlutanum, þegar 10 ára óstjórn hans eigin flokks er búin að fara þannig að, að mestallar eignir framleiðenda eru eyddar og hrunið blasir við. Þegar svo er komið, þá er ekki um góða kosti að velja; það vita allir landsmenn.

Ég vil svo ljúka þessu máli með því að óska hlustendum og þjóðinni allri gleðilegra jóla og batnandi aðstöðu og bjartari vona á komandi ári.