22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Frv. hefir tekið þeim breyt. frá því það fór úr þessari hv. d., að 4. gr. er færð til samræmis við tilsvarandi ákvæði fjárl. Þar eru taldir þeir vegir, sem í fjárl. er áætlað fé til af benzínskatti. — Þá var sett í frv. ný gr., 6. gr., þar sem ríkisstj. er heimilað að endurgreiða fiskveiðagufuskipum vörutoll af kolum, sem þau nota til fiskveiða í salt, og að falla frá innheimtu aðflutningsgjalds af salti, þó ekki nema hlutaðeigandi bæjar- eða hreppsfélög veiti slíkar undanþágur. Ef ríkisstj. notar þessa heimild, þá er henni heimilt að hækka skatt- og tollviðauka þann, sem um ræðir í 5. gr. l., úr 11% í 12%. Ég geri ráð fyrir, að það gefi þá því sem næst sömu upphæð og þegar það kom frá d.

Ég vil mælast til þess, að d. fallist á að samþ. frv. svona breytt, þar sem nú er komið að þinglokum og málið búið að fara milli d., eins og kunnugt er.