13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Vilmundur Jónsson):

Ég hefi að mestu leyti svarað því fyrirfram, sem til mín hefir verið beint síðan ég síðast tók til máls. Hv. 2. þm. Reykv. talaði til mín nokkrum óstillingarorðum, og bjóst ég við, að í þeirri viðleitni að hnekkja rökum mínum myndi honum vinnast betur en raun varð á.

Hann nefndi nokkur atriði, sem áttu að vera til vitnis um það, að ég bæri lítið skyn á frv. og l., sem farið er fram á að breyta með því. Ég hafði upplýst það, að svo mikið lægi á einni aðalbreyt., sem farið er fram á með frv., að létta langvinnum, alvarlegum, virkum sjúkdómum af sjúkrasamlögunum, að ef sú breyt. fengist ekki fram nú um áramótin, þá myndi fjmrh. ekki treystast til að leyfa lengur þá framkvæmd á þessu, sem verið hefir í Reykjavík og víðar og hv. ræðum hafði játað, að sjúkrasamlögin stæðu og féllu með. Þetta vildi hann hrekja með því, að atvmrh. hefði fyrir sitt leyti viljað framkvæma þetta á þessa leið. En það er ekki að hrekja það, sem ég sagði. Ég sagði, að fjmrh., sem vitanlega hefir æðsta vald í þessu, treystist ekki til að heimila áfram greiðslur til slíkrar framkvæmdar nema l. yrði breytt í þá átt. Ég hefi síðan rætt um þetta við hann og hann sagði, að ég mætti bera sig fyrir því, að þetta væri rétt eftir haft. Þá er því slegið föstu, eftir því sem hv. 2. þm. Reykv., form. stjórnar sjúkrasamlags Reykjavíkur, sagði hér í hv. d., að það er hvorki meira né minna en lífsspursmál fyrir sjúkrasamlögin í landinu og þar með sjúkrasamlag Reykjavíkur, að þetta ákvæði frv. a. m. k. verði lögfest.

Annað, sem hann vildi telja fram til þess að sanna kunnáttuleysi mitt um þessa löggjöf, var af því tilefni, að ég hafði leiðrétt það, sem honum hafði yfirsézt, að ekki er ætlazt til í alþýðutryggingarl. nú, að leitað sé staðfestingar tryggingarstofnunar ríkisins á samningum, sem sjúkrasamlögin gera við lækna, sjúkrahús og lyfjabúðir. Það er í fyrsta skipti farið fram á það í þessu frv., að þessarar staðfestingar sé leitað. Hann leitaði gegnum öll tryggingarl. og ætlaði að finna þarna stað, sem stóð öfugur í höfði hans, að krafizt væri staðfestingar af tryggingarstofnuninni á slíkum samningum, en hann fann ekki staðinn, af því hann er ekki til. En hann las upp, að sjúkrasamlögin lytu öll yfirstjórn tryggingarstofnunar ríkisins. Vill hann telja það svo, að þó tryggingarstofnunin hafi yfirstjórn yfir sjúkrasamlögunum, þá ráði tryggingarstofnunin í framkvæmdinni öllu um sjúkrasamlögin. Nei, það er ekki ætlazt til þess. Það var ekki vilji löggjafans, og það hefir ekki heldur verið framkvæmt þannig. Mér er kunnugt um, að hingað og þangað úti um landið hafa samningar verið gerðir af sjúkrasamlögunum, mjög hættulegir samningar, sem bersýnilega stefna sjúkrasamlögunum í voða, án þess að leitað hafi verið nokkurrar ráðleggingar hjá tryggingarstofnuninni, hvað þá leitað staðfestingar á þeim samningum. Eina leiðin fyrir tryggingarstofnunina til þess að hafa afskipti af starfi og rekstri sjúkrasamlaganna, er með ábrifum sínum á samþykktir, sem þau eiga að gera og leita ber staðfestingar á. En það var ekki gert ráð fyrir því þá, enda óframkvæmanlegt, að samningar við lækna, sjúkrahús og lyfjabúðir væru í hvert skipti teknir upp í samþykktir samlaganna, fyrir utan það, að eftir því sem ég veit bezt, þá hafa þessar samþykktir verið mjög óvíða gerðar. Þannig mun t. d. enn ekki hafa unnizt tími til hjá sjúkrasamlagi Reykjavikur að ganga svo frá sinni samþykkt, að unnt væri að staðfesta hana. Hún mun ekki hafa verið lögð fram fyrr en mjög nýlega, og það í því formi, að ekki voru nein tiltök að staðfesta hana.

Enn talaði þessi hv. þm. um það, að mér hefði yfirsézt í skýringu minni á 9. gr. frv., þar sem hann áleit, að með henni væri engin breyt. gerð á því, hvernig menn ná tryggingu í sjúkrasamlögunum eða hafa náð til þessa. En mér skilst enn, að það sé hann, sem misskilur, en ekki ég. Eftir því, sem sú gr. er orðuð, og eftir þeim kröfum, sem hún gerir, liggur í hlutarins eðli, að hver einasti maður, sem leitar tryggingar í samlögunum, verður að sanna það, að hann sé ekki haldinn alvarlegum, langvinnum, virkum sjúkdómi, og það verður ekki sannað með öðru móti en því, að láta lækni skoða sig og leggja fram læknisvottorð um, að svo sé ekki ástatt um hann. Nú hefir það aftur á móti verið svo, að hver maður hefir getað tryggt sig í sjúkrasamlögunum án þess að leggja fram slíkt læknisvottorð, og það er jafnvel nokkur ástæða til að halda, að einmitt þeir hafi flýtt sér að tryggja sig, sem höfðu ástæðu til að gruna, að slíkur sjúkdómur byggi í þeim. Fyrir vikið koma undir l., eins og þau eru nú, miklu fleiri og hættulegri menn fyrir samlögin heldur en ef þessi breyt. verður staðfest. Það er svo nú gert hér í hv. d. Ég fæ ekki betur séð en að kostnað, hina fyrstu sjúkrahúslegu þegar tryggðra manna, sem taka alvarlegan, langvinnan, virkan sjúkdóm, verða samlögin að bera. En vissulega síast margir úr fyrir það, að læknisvottorðs er krafizt áður en menn fá réttindi, og það einmitt þeir, sem hefðu orðið samlögunum ákaflega kostnaðarsamir.

Allt það, sem hv. þm. sagði um hættuna af því fyrir sjúkrasamlögin að afnema hið svokallaða fjórðungsgjald, var, svo sem ég áður hefi sagt, eins og talað fyrir munn læknanna. Ég þykist alveg vita, að læknarnir, sem eðlilega halda fram sínum málstað, krefjast, eins og allir bera, sem tryggastrar afkomu. Þeir eiga vitanlega mjög mikið undir því, hvernig samningar takast milli þeirra og sjúkrasamlaga um launagreiðslur til þeirra, og náttúrlega telja þeir það fram til stuðnings sínum kröfum, að nú séu þeir sviptir nokkrum tekjum, þar sem þetta fjórðungsgjald er. Ég hefi áður sagt, hvaða röksemdir eru þar á móti. Og ég get upplýst, að ég hefi rætt þetta mál við lækna, en aldrei heyrt nokkurn þeirra flytja til líka svo einstrengingslega kröfu fyrir hönd læknanna af þessu tilefni eins og hv. 2. þm. Reykv., sem er form. stjórnar sjúkrasamlags Reykjavíkur, hefir nú gert hér í hv. d. Ég fæ ekki betur séð en að hann sé að gera sig algerlega óhæfan til að semja við læknana fyrir hönd sjúkrasamlagsins með þeirri afstöðu, sem hann hefir tekið í málinu. Hann leyfir sér að segja, að það sé ekki einungis sanngirnistill. að hækka fastar launagreiðslur til læknanna sem nemur fjórðungsgjaldinu, heldur beri þeim raunar miklu meira. Hvernig ætlar hann svo að mæta læknunum við samningaborð eftir nokkrar víkur? Þó er eitt, sem er enn eftirtektarverðara, og það er, að þessi sami þm. hleypur í þessu sambandi yfir annað ákvæði í frv., sem er læknunum miklu þýðingarmeira frá þeirra hagsmunasjónarmiði, og það er ákvæðið í 10. gr. um að veita hátekjumönnum rétt til hlunninda í sjúkrasamlögunum, ef þeir greiði a. m. k. helmingi hærra iðgjald en aðrir samlagsmenn. Ég er viss um, að ef það væri borið undir lækna, hvort þeir vildu heldur, að samþ. yrði ákvæðin um að fella niður fjórðungsgjaldið eða að hátekjumönnunum yrði á þennan hátt hleypt að sjúkrasamlögunum, þá myndu þeir allir kjósa að missa heldur af fjórðungsgjaldinu. En þessu sleppir hv. þm., vegna þess, — ja, ég vona, að ekki verði sagt, að þetta séu getsakir, mér er ómögulegt að skilja það öðruvísi — að hann, form. sjúkrasamlags Reykjavíkur, sem að vísu hlýtur að bera hag hinna tryggðu að einhverju leyti fyrir brjósti, þó að hann láti sér enn annara um hag læknanna, gleymir ekki þar fyrir þeim hóp manna, sem hann virðist bera langmesta umhyggju fyrir, og það eru hátekjumennirnir í Rvík. Þar verða jafnvel læknarnir að lúta í lægra haldi.

Af því að ég minntist á þetta ákvæði, vil ég út af ræðu hv. frsm. minni hl. upplýsa betur en ég hefi líklega gert, hvernig þetta ákvæði, sem er, eins og hann sagði, skattaákvæði, er komið inn í tryggingarl. hér og líka annarsstaðar, eins og t. d. í Danmörku. Það er alls ekki hugsað sem skattaákvæði. Það mun eingöngu vera tilkomið vegna læknanna, sem hvarvetna eru svo ríkur aðili í þessum málum, að orðið hefir að bægja hinu efnaðasta fólki á þennan hátt frá hlunnindum trygginganna. Ef þeir hefðu ekki möguleika til að hafa atvinnu hjá þessu gjaldsterka fólki, mundu þeir verða svo harðir í kröfum sínum til samlaganna, að þau gætu illa staðið undir því. Þetta tel ég vera grundvallarástæðuna. En í rauninni er þetta ákvæði að öðru leyti einnig réttmætt frá trygginganna sjónarmiði. Það getur oft komið fyrir, að fólk, sem í langan tíma hefir kosið að vera fyrir utan samlögin, fyrir það, að það hefir haft háar tekjur, missir skyndilega tekjurnar, — kannske fyrst heilsuna, — og verður á þann hátt skyldutryggt í samlögunum. Verða þau þá oft og tíðum fyrir ærnum kostnaði, án þess að þetta fólk hafi unnið fyrir tryggingu sinni með langri veru í samlagi, eins og aðrir hafa til upp jafnaðar gert, sem lægri tekjur hafa.

Eg held, að ég geti sparað mér að mestu að svara hv. 5. þm. Reykv. Ég hygg, að það eigi frekast við um hann, að honum hafi verið svarað fyrirfram. Þó vil ég geta þess, að mér láðist í fyrri ræðu minni að leiðrétta það, sem hann bar á tryggingarstofnun ríkisins um launagreiðslur þar, og hefði raunar hv. stjórn átt að leiðrétta þetta sjálf, en hún er nú ekki hér viðstödd. Um þetta er ekki hægt að segja annað en það, að það er algerlega tilhæfulaust. Hv. þm. sagði, að launagreiðslur væru þarna svo háar, að þær næmu 7900 kr. á mann að meðaltali. Mér þykir rétt, af því að slík ummæli sem þetta eru oft vön að fjúka viða, og jafnvel því fremur, því óréttmætari sem þau eru, að lesa hér upp úr fylgiriti fjárl. skrá yfir launagreiðslur þessarar stofnunar, og þá má sjá, hversu fjarri lagi þessar upplýsingar hv. þm. eru, ef upplýsingar skyldi kalla. Svo að ég sleppi tryggingarráðinu, þar sem í eru 3 menn, sem varla geta talizt fastir starfsmenn og aðeins hafa litla þóknun, eru launagreiðslur tryggingarstofnunarinnar svo sem hér segir:

Forstjóri 10000 kr. Yfirlæknir ½ laun, 6000 kr. Endurskoðandi, ½ laun, 2700 kr. Deildarstjóri slysatr. 6000 kr. Gjaldkeri 5000 kr. Bókari sjúkratr. 4800 kr. Skrifstofumaður 4200 kr. Skrifstofustúlkur, 3, 4500 kr. Símastúlka 1260 kr. Sendisveinn 1260 kr. Ef meðaltal er tekið af þessu, er það sem næst 4200 kr., og skakkar nokkuð frá 7900 kr.

Það er rétt að geta þess, að ekki er hægt að fá yfirlækni til stofnunarinnar fyrir 6 þús. kr. laun. Honum er því leyft að hafa önnur störf á hendi, og vinnur hann einnig hjá sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Hann reiknast því sem hálfur maður, og sama er að segja um endurskoðandann, og eru þetta sparnaðarráðstafanir af hendi tryggingarstofnunarinnar. Þetta ætla ég, að sé nægilegt um þetta atriði.

Ég skal játa á míg það, sem þessi hv. þm. bar á mig og þótti auðsjáanlega mikill galli, að ég er honum sjálfsagt miklu síðri í því, að geta hugsað eftir fundarsamþykktum. Hann er þar mér vitanlega miklu æfðari og klókari. Ég hugsa ekki eftir fundarsamþykktum. Og mér er sama, hvar þær samþykktir eru gerðar, hvort þær eru innan míns flokks eða utan, ef þær rekast, eftir því sem mér finnst, á óbrjálaða hugsun, þá læt ég þá óbrjáluðu hugsun ráða. Ég veit, að þetta mun hljóma sem öfugmæli fyrir þessum hv. þm., en svo verður það að vera. Ef til vill skýrir þessi mismunur í hugsunarhætti okkar ýmislegt, sem okkur ber á milli, og mér finnst hann vera svo mikill, að það væri líklega bezt fyrir okkur að tala sem minnst saman, bæði um þessa hluti og aðra. Jafnvel þó að fulltrúaráð verkalýðsfélaganna hafi gert einhverja fundarsamþykkt um, að það áliti, að hag trygginganna ætti að sjá borgið með stighækkandi iðgjöldum, þá er engin skylda á mér að vera á sama máli, enda er ég það ekki. Ég ætla, að slíkar samþykktir á fjölmennum fundum séu ekki mikils virði, hvar sem þær eru gerðar, enda ráði því oft mikil hending, hvað borið er upp og hvað ekki.

Það, sem tryggingarnar hafa mesta þörf fyrir, er aukinn fjárstyrkur. En það getur verið álitamál, hvernig á að ná því fé saman. Ég held, að það sé óklókt fyrir tryggingarnar að ætla að ná því með stighækkandi iðgjöldum. Ég hefi margar uppástungur að gera um aukin framlög þjóðfélagsins til trygginganna, sem eru ákaflega miklu eðlilegri. Það er búið að þaulreyna annarsstaðar, hvernig þessu verður bezt fyrir komið, og það er ekki með stighækkandi iðgjöldum. Okkur kemur saman um, hr. þm. og mér, að mikið sé undir því komið, að tryggingarnar séu vinsælar. En ef það er nokkuð, sem er öruggt um að gera þær óvinsælar, þá er það áreiðanlega það, að gera þær að skattastofnun, því að skattastofnanir eru óvinsælastar allra stofnana. Ég vil benda á, hvað það væri miklu eðlilegri krafa, að þjóðfélagið styrkti tryggingarnar á sama hátt og tíðkast annarsstaðar á Norðurlöndum, sem sé með því, að sjúkrahúsin séu rekin af þjóðfélaginu og það sé rétt til málamynda, að tryggingarnar borgi nokkuð fyrir sjúklinga sína á þeim. Ég verð að segja, að það er e. t. v. allra svartasti bletturinn á heilbrigðismálum okkar þjóðfélags, hvernig sjúkrahúsin eru rekin. Þau eru rekin þannig, að þau komist sem næst því að bera sig. En þau á vitanlega að reka eins og sjálfsagða ráðstöfun hins opinbera, til þess að berjast á móti hinu almenna böli sjúkdómanna. Þess vegna ætti að halda þeim uppi að mestu leyti á almenningskostnað, og að sjálfsögðu ættu tryggingarnar að fá þar aukin hlunnindi.

Þessu líkt er það, sem okkur ber á milli um framfærslu og tryggingu. Ég vil halda þessu sem mest aðskildu. Og ég hefi ástæðu til að ætla, eftir því sem þessi hv. þm. segir í öðru orðinu, að í raun og veru vilji hann það líka. Hann segist helzt vilja afmá alla framfærslu og koma henni á tryggingagrundvöll. Ég er sammála honum um þetta. En hvernig ætlar hann að afmá framfærsluna með tryggingum, ef hann ætlar fyrst að breyta tryggingunum í framfærslu?

Hv. þm. gat þess, að það sæi ekki á Alþfl. hér á þingi, að hann vildi hafa skattana þannig, að þeir, sem í raun og veru geta borgað skatta, bæru byrðarnar fyrir hina. Ég ætla, að það hafi oft sýnt sig í störfum Alþfl., hvað hann vill í þessum málum, en hitt er rétt, að við eigum hér á hv. Alþingi við þá erfiðu aðstöðu að búa, að við getum ekki komið öllu því fram, sem við óskum. Og ekki væri til mikils mælzt, eftir því sem þessi hv. þm. talaði um Þjóðabandalagið hér á dögunum, að hann vildi sýna okkur nokkra vorkunn í þessum efnum. Þjóðabandalagið var að hans dómi alls ekki forkastanlegt eftir meðferðina á Abessiníu, af því að hún gat án afskipta þess orðið enn verri. Við fáum ekki ráðið miklu um skattastefnu stj., þar sem við erum ekki nema 8 saman, og þó má telja víst, að hún gæti verið enn verri, ef okkar áhrifa gætti ekki neitt.

Ég veit, að það er skömm af mér að mælast til þess af þessum hv. þm., að hann sýni okkur sömu nærgætni og Þjóðabandalaginn, því að vitanlega elskar hann miklu meira Þjóðabandalagið en Alþfl. og á hægara með að sýna því sanngirni.

Hv. 5. landsk. þm. beindi til mín fyrirspurn viðvíkjandi 16. gr. frv., sem ég heyrði reyndar ekki rétt vel, en mér skildist, að hún væri í sambandi við það, að ég hefði engu svarað þeirri brtt., sem hann og hv. 5. þm. Reykv. bera fram við þá gr. Vildi hv. þm. krefja mig til reikningsskapar um það, skildist mér, hver ætti að borga mismuninn, ef sjúkrasamlag gæti ekki gengið að samningum við sjúkrahús um fullar greiðslur. Ég á bágt með að svara þessu. En ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þó að þessi 16. gr. sé felld niður, er engu svarað með því. Samkv. 30. gr. l. taka sjúkrasamlögin ekki á sig skyldur til þess að greiða fyrir sjúklinga sína í öðrum sjúkrahúsum en þeim, sem samningar hafa náðst við. Og þetta er vitanlega nauðsynlegt. Hvernig ætli þau kjör yrðu, sem sjúkrahúsin, a. m. k. sum þeirra, byðu sjúkrasamlögunum, ef þau vissu, að samlögin yrðu að ganga að hverju því, sem þau — sjúkrahúsin — krefðust? Það gæti ekki gengið. Hér verða að koma til samningar. Samskonar ákvæði var sett inn í berklavarnalögin fyrir mitt tilstilli, og gafst svo vel, að á mörgum undanförnum árum hefir kostnaður orðið miklu skaplegri, vegna þessa ákvæðis, heldur en áður, þegar svo gálauslega var að farið, að borgað var það, sem upp var sett, og í mörgum tilfellum var alveg stjórnlaust. Hafði sumum dottið í hug að fyrirskipa sjúkrahúsunum ákveðin daggjöld, en því hefðu þau að sjálfsögðu unað mjög illa. Meðalvegurinn, sem ég stakk hér upp á og fékk samþ., var, að samið yrði um þetta milli sjúkrahúsanna og ríkisstj. Og á þann hátt hefir tekizt að komast að sanngjarnri niðurstöðu fyrir báða aðilja. Þetta hefir því gefizt vel fyrir ríkissjóð, og svo hagkvæm og sjálfsögð sem þessi tilhögun er fyrir hann, mun hún þó vera enn nauðsynlegri fyrir sjúkrasamlögin, ef þau eiga að fá staðizt fjárhagslega.

Úr því að verið var að spyrja mig, er ekki úr vegi, að ég spyrji þennan hv. þm.: Hvernig eiga sjúkrasamlögin, sem svo mikið eiga að gera fyrir fátæklingana, að geta gert nokkuð, þegar þau eru orðin að gjaldþrotafyrirtækjum? Mér er sagt, að þessi hv. þm. sé duglegur kaupfélagsstjóri í Vestmannaeyjum. Ég geri ráð fyrir, að hann reki kaupfélagið ekki sízt fyrir fátæka fólkið þar, en þó eftir allt öðrum grundvallarreglum en hann vill láta reka sjúkrasamlögin. Kaupfélagið hans verður fyrst og fremst að bera sig, ef það á að geta gert eitthvað fyrir fátæklingana. Ég geri meira að segja ráð fyrir, að þessi hv. þm. sé sem kaupfélagsstjóri svo hlálegur böðul] á fátæklingana í Vestmannaeyjum, að hann selji þeim sama verði hvert hveitipund og hinum efnaðri, en láti þá alls ekki borga eftir skattstiga.

Svo að ég láti ekki algerlega ósvarað spurningu hv. þm. um greiðslu á halla sjúkrahúsa, sem meðfram kann að verða fyrir það, að sjúkrasamlögin treysta sér ekki til að greiða að fullu það, sem sjúkrahúsin þurfa til þess að geta staðið undir reksfrinum, þá skilst mér, að sá eðlilegi gangur á því, t. d. í Vestmannaeyjum, hljóti að vera sá, að bærinn beri þann halla, eins og ef ríkið fær ekki það, sem það þarf til þess að láta ríkissjúkrahúsin bera sig — sem það að vísu ekki fær — þá lendir sá halli vitanlega á ríkinu. Það er talinn sjálfsagður hlutur erlendis, að sjúkrahús hins opinbera séu rekin með stórum halla, og er allra sízt séð eftir því, þar sem almennar tryggingar eru annars vegar.

Ég vil undirstrika það og árétta, að ef till. þessa hv. þm. og hv. 5. þm. Reykv. um að fella niður 16. gr. frv. verður samþ., þá er kippt grundvellinum undan því, að nokkur sjúkrasamlög í landinu fái staðizt til lengdar, að vísu ekki fyrst og fremst vegna afstöðu þeirra til sjúkrahúsanna, sem 30. gr. l. tryggir nægilega, heldur til læknanna.

Læt ég það nú vera, að til séu þm., sem hirða ekki um slíka smámuni og það, að lögfest verði, að tryggingarstofnun ríkisins skuli staðfesta alla samninga sjúkrasamlaga við lækna, lyfjabúðir og sjúkrahús. Hitt er alvarlegra, að sjá ekki nauðsyn þess, að sjúkrasamlögin geti bent á það, þegar þau semja við þessa aðilja, að svo háar kröfur geti þeir gert, að sjúkrasamlögin treysti sér ekki til að standast þær, verði því að draga úr hlunnindum meðlima sinna og láta ósamið. En það fullvissa ég hv. þm. um, að læknar, lyfsalar og sjúkrahús vilja ekki litið til vinna að fá náð og haldið samningum við sjúkrasamlögin; ekki sízt eftir að þau viðskipti hafa einu sinni komizt á.

Ég geri ráð fyrir, að hið sama gildi um sjúkrasamlög og önnur fyrirtæki, að það varði við l., ef þau taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar, sem fyrirsjáanlegt er, að þau geta ekki staðið við. Víst mun hv. 5. landsk. gæta þessa f. h. kaupfélags síns, hvað sem svo líður þeim, sem kaupfélagið á að vinna fyrir í Vestmannaeyjum og raunar gætu lítið grætt á slíkum lögbrotum, þar sem þau mundu óhjákvæmilega leiða til þess, sem þeir að sjálfsögðu telja, að umfram alla muni verði að varast, að félagið verði gjaldþrota.

Samnm. mínum, hv. þm. Snæf., þarf ég naumast að svara, og sízt miklu. Hann las okkur upp til gamans úr þingtíðindum eitthvað frá árinu 1934 um afstöðu Sjálfstfl. til trygginganna og taldi sér heldur til gildis, að það hefði verið ekki óvingjarnlega mælt. Ég verð, því miður, að hryggja hv. þm. með því, að þetta hefir ekki valið mikla eftirtekt, fyrir því að það hefir látið hærra í meir áberandi mönnum innan Sjálfstfl. um tryggingarnar og ummæli þeirra farið í aðra átt. Frægust ætla ég að séu ummæli hv. 1. þm. Reykv. frá árinu 1930 — lengra er ekki síðan — um afstöðu hans, og að því er manni skildist þá, afstöðu Sjálfstfl. yfirleitt til þessara mála. Hann er að svara hv. núv. atvmrh., en þá þm. Ísaf., og svarar honum heldur í skopi um það, að hann, þm. Ísaf., hafði sagt, að þetta mál væri eitt af þeim nútímamálum, sem við Íslendingar værum lengst á eftir í. Segir hv. 1. þm. Reykv.: „Aumingja Ísland!“ Og heldur áfram: „Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvaða aðferð sósíalistar beita til þess að berjast fyrir málum sínum, meðan þeir koma ekki fram höfuðáhugamálum sínum, eins og er t. d. þjóðnýting. Þeir hafa búið sér til ákveðna starfskrá um það, hvernig þeir eigi að herja inn á hið kapitalistíska þjóðskipulag, til þess að gera atvinnufyrirtækin sem ótryggust og eignaréttinn að nafninu tómu. Þessi starfsskrá er eins í öllum löndum“. — Tryggingarnar eru „eitt af þeim málum sem sósíalistar nota til agitatíóna“, og til þess að ríða um koll öll atvinnufyrirtæki, — sem maður hefði haldið, að hv. þm. Snæf. léti sér ekki standa á sama um. — „Eftir því sem sósíalistar eru sterkari í löndum“, heldur hann áfram, „eftir því er meira um allskonar tryggingar. Og í þeim löndum, sem sósíalistar hafa farið lengi með völd, eins og t. d. Þýzkalandi, má segja, að allt sé fjötrað og flækt í eintómum tryggingum“. Hann segir, að tryggingarnar séu „demóraliserandi“, og klykkir út með því að geta þess, hvað þær séu hættulegar fyrir heilbrigði manna. „Þeim tryggðu batnar verr og seinna en þeim ótryggðu. Það tekur helmingi lengri tíma að græða fótbrot á tryggðum manni en þeim, sem er ótryggður fóturinn“, og fjölmörg dæmi telur hann — mega færa þessu til sönnunar. — Ef hv. þm. Snæf., sem er ungur maður, hefir mælt eitt hvað af vinsemd um tryggingalögin fyrir þrem árum síðan, hefir hann þá verið. nokkuð einstæður í flokki sínum. En nú er málið orðið það vinsælt, að það er skemmtilegra fyrir hann að rifja upp þessi vinsamlegu orð heldur en ummælin, sem ég las upp. En þessi afstaða sjálfstæðismanna veit ég, að réð því, að þeir munu fáir hafa verið kvaddir til ráða um alþýðutryggingarnar. Og er ég ekki að segja, að lögin hafi tapað neinu við það, sérstaklega þegar það er vitað — og játað af hv. frsm. minni hl. —, að sá maður, sem vann að undirbúningi laganna og lagði tryggingunum til starfskrafta sína og þekkingu, var eini sérfræðingurinn, sem til var hér á landi, en það er núv. framkvæmdarstjóri tryggingarstofnunarinnar, herra Brynjólfur Stefánsson, og mun teljast til Sjálfstfl. Ég verð að segja, að það er heldur lítið „kompliment“ um þennan flokksmann hv. frsm. minni hl. og eina sérfræðing í tryggingarmálum, að halda því fram, eins og hv. þm. gerði, að þessi löggjöf hafi verið svo hraksmánarlega undirbúin, að þess vegna þurfi að stórbreyta henni. Ég neita því. Þær breyt., sem nú er farið fram á að gera á l., eru ekki stórvægilegar og ekkert tiltökumál. Það hefir orðið að breyta svo að segja hverjum meiri háttar lögum frá Alþ. meira og minna, enda reyndi hv. frsm. minni hl. ekki að hrekja neitt af þeim dæmum, sem ég nefndi um það. Vantaði þó ekki að þau lög, er ég tók til dæmis, væru undirbúin fyrirfram, og sízt, að heldri menn Sjálfstfl. væru þar ekki til kvaddir.

Ég nenni ekki að karpa lengur um það, hvort það sé lýðræðisbrot, að tryggingarstofnunin eigi rétt á að kveðja til einn manninn af 3 eða 5 í stjórn sjúkrasamlaganna. Það er bara fjarstæða. Hver hefir talað um, að það væri lýðræðisbrot, að stjórnin skipi formenn skólanefnda. Það þykir sjálfsagt, að yfirstjórn fræðslumálanna skipi einn manninn í hverja skólanefnd, m. a. af því, að hið opinbera leggur fé til fræðslumála. Og þar sem ríkið leggur alþýðutryggingunum fé á líkan hátt, er sjálfsagt, að tryggingarstofnun ríkisins hafi þar svipað eftirlit og velji mann í samlagsstjórn. Reynslan er líka farin að sýna nauðsynina á þessu, eins ég hefi nefnt mjög áberandi dæmi um, þegar brýnar skýrslur hafa t. d. ekki fengizt þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni tryggingarstofnunarinnar, nema frá einu samlagi.

Ég vil svo að lokum geta um tvær brtt. Önnur er á þskj. 355, flutt af allshn., og er við brtt. á þskj. 320, að síðasta málsgr. 23. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Samskonar ákvæði gilda að því er snertir skyldur húsbænda gagnvart hjúum samkv. hjúalögum og meistara gagnvart iðnnemum samkv. lögum um iðnaðarnám“. — Persónulega taldi ég brtt. 320 að efni til rétta og sanngjarna. En um hana náðist ekki samkomulag í n., og að vísu get ég ekki neitað, að það er dálítið hjáleitt, að samþykkja hana sem breyt. við alþýðutryggingalögin. Það er ákvæði, sem að réttu lagi á heima í lögum um iðnaðarnám. Allshn. gat hinsvegar fallizt á, að iðnnemar fengju aukin réttindi, sem samsvaraði því, er hjú njóta nú hjá húsbændum, um endurgreiðslu á iðgjöldum miðað við þann tíma, sem þau eru í tryggingu hjá þeim. Til þess að mönnum skiljist þetta betur, skal ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp 23. gr., eða þann viðauka, sem samkv. henni á að koma með 40. gr. tryggingarlaganna: „Ef heimild þessi“ (um sérstakan samning útgerðarmanna við sjúkrasamlagið) „er ekki notuð, á samlagið endurkröfurétt á útgerðarmann á þeim kostnaði, sem það kann að hafa greitt vegna veikinda skipverja fyrir þann tíma, sem útgerðarmaður ber ábyrgð á, en skipverjar greiða aðeins, meðan ráðningartíminn stendur, iðgjöld, sem svara til þeirrar áhættu, sem samlagið ber vegna skipverjanna, eftir að ábyrgð útgerðarmanns er lokið.

Samskonar ákvæði gilda að því er snertir skyldur húsbænda gagnvart hjúum samkvæmt hjúalögum“.

Við þetta bætist svo brtt. allshn. á þskj. 355 um, að iðnnemar fái þennan rétt. Ég vonast til, að hv. deild geti fallizt á það.

Loks vil ég geta þess, að hv. 1. þm. Rang. hefir farið fram á það við mig sem frsm., að tekið væri til athugunar að lengja tilkynningarfrest vegna sjúkrasamlaga, sem stofnuð kynnu að verða í sveitum. En hann hefir fyrstur manna haft forgöngu um, að slíkt samlag verði stofnað. Það er hætt við, að í sveitum geti atkvgr. um stofnun samlags ekki farið fram fyrr en seint á ári. Og koma sér þá illa ákvæði 35. gr. tryggingarl., sem mæla svo fyrir, að sjúkrasamlög, sem stofnuð verða í hreppum, skuli hafa tilkynnt ráðh. stofnunina fyrir 1. apríl, ella fái þau ekki rétt til framlags úr ríkissjóði og sveitarsjóði á því ári, og verða þá að biða eftir því ár í viðbót. – Þetta ákvæði um 1. apríl er sett vegna fjárl., svo að kunnugt verði um öll samlög, sem styrks eiga að njóta, áður en fullgengið er frá fjárlögunum. En ekki mundi mikið á hættunni, þó að fresturinn væri eitthvað lengdur fram yfir 1. apríl, eða ráðh. leyft að víkja frá um þetta atriði. Þó að eitt eða tvö ný samlög á ári leituðu eftir styrk nokkuð seint, yrðu það smáupphæðir. Meiri hl. n. flytur till. um þetta á þskj. 357.

Ýmislegt fleira mætti athuga, en það getur dregizt til 3. umr.