13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

124. mál, alþýðutryggingar

*Ísleifur Högnason:

Ég get fallizt á, að kaupfélög og tryggingarstofnanir séu skyld fyrirbrigði að því leyti, að báðum beri að stefna að því að vinna fyrir hagsmuni fólksins. Hinsvegar nær ekki nokkurri átt að samlíkja þessum stofnunum eins og flm. frv. gera, því tryggingarstofnanir eins og t. d. sjúkrasamlag eru einráð um það, hvaða gjöld þau leggja á sína félagsmenn, en um það eru kaupfélögin aftur á móti ekki einráð. Í 16. gr. er tryggingarstofnuninni í sjálfsvald sett, hve mikinn gróða hún hefir, og það er auðheyrt á öllu tali og bollaleggingum þessara hv. þm., að þeir ætlast til, að tryggingarstofnunin græði á tryggingarstarfseminni.

Það er svartur blettur á okkar heilbrigðismálum, að sjúkrahús skuli vera gróðastarfsemi. Hér í Reykjavík eru tvö sjúkrahús, sem eru einstakra manna eign, rekin með stórgróða, sökum þess að sjúkrasamlag Reykjavikur á sjálft ekkert sjúkrahús. Ég er alveg sammála hv. þm. N.-Ísf. um það, að bæirnir sjálfir eigi að vera önnur hlíð sjúkratrygginganna, þar sem bæjarfélögin leggi svo ríflega fé til þessara sjúkrahúsa, að daggjöldin yrðu smámunir einir, og ég vildi því, að sett væru lög, er skylduðu bæjarfélögin til að eiga og reka sjúkrahús. Það eru 6 til 7 ár síðan ég átti frumkvæði að því, að daggjöld á sjúkrahúsinn í Vestmannaeyjum voru mjög færð niður, og á þann hátt var komið á eins konar sjúkratryggingu fyrir fátækt fólk.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að enda þótt hvergi væri fram tekið; að bæjar- og sveitarfélög ættu að borga mismuninn til sjúkrahúsanna, sem getur átt sér stað samkv. 16. gr. frv., þá væri sjálfsagt, að sveitarfélögin gerðu það, en þetta þyrfti að komast í l., því það er enginn efi á því, að bæjarstjórnir vilja skjóta sér hjá að borga þennan mismun. Þær munu segja: Úr því sjúklingurinn er tryggður, þá verður tryggingin að greiða allan kostnað. — Það er því enginn vafi á því, að hér er stórgalli á l., ef ekki verður úr bætt.

Ég vil geta þess, að nú sitja ekki nema 7 til 8 hv. þdm. þennan fund, svo það sýnist þýðingarlítið að flytja hér ræður, en ég tel rétt, að komi fram í þingtíðindum, hve vel hv. þdm. rækja skyldu sína, þegar stórmál eru rædd.