13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að það tekur því varla að flytja ræður á svo fásóttum fundi; ég ætla þó að víkja fáeinum orðum að ræðum hv. þm., sem talað hafa.

Hv. frsm. meiri hl. vildi gera lítið úr þáltill. sjálfstæðimanna 1934 um alþýðutryggingarnar, og hann vildi sömuleiðis gera litið úr þeirri dagskrártill., sem við flytjum nú, af því, að því að mér skildist, að það væru svo litið áberandi menn í Sjálfstfl., sem b:eru till. fram. Ég var nú ekki einn um þessa till. Að henni stóðu ekki færri en 6 sjálfstæðismenn, eða fullur helmingur þess flokks hér í hv. þd., svo það var fullkomin ástæða fyrir hv. stjórnarsinna að taka till. til greina þess vegna, ef þeir á annað borð vildu nokkuð sinna okkar óskum.

Hv. þm. N.-Ísf. fór hér að lesa upp gamla ræðu, sem hann sagði, að væri eitt sitt bezta glansnúmer á stjórnmálafundum. Mér er sem ég sjái hann á stjórnmálafundum lesa og leika þessa ræðu, því hann er góður leikari og fer vel að vera með leikaraskap. Þessi ræða Magnúsar Jónssonar, sem hann var að tala um, var flutt gegn þeirri hugmynd hæstv. núv. atvmrh., að allar alþýðutryggingar ættu að hvíla á atvinnurekendum. Hv. þm. veit, að þegar hv. Alþfl. flutti þetta mál í fyrsta sinn, þá stóð hann í sömu sporum og kommúnistar nú. Hann flutti þá málið í lýðskrumsástandi. Það var ekki alþýðan, sem átti að borga tryggingarnar, heldur atvinnurekendur. (VJ: Batnar mönnum mismunandi vel eftir því, hvort alþýðan eða atvinnurekendur borga?). Nei, en þetta sýnir mismunandi aðstöðu Alþfl. þá og nú, og ég verð að telja það framför, að flokkurinn hefir nú gert þetta mál að tryggingamáli, í stað þess að túlka það sem skattamál, eins og flokkurinn gerði þá. Hv. 1. þm. Reykv. var að mótmæla lýðskrumshlið þessa máls með þeirri ræðu, sem hv. þm. N.-Ísf. vitnar í.

Hv. þm. taldi, að það væri lítið lof, sem ég tileinkaði forstjóra tryggingarstofnunar ríkisins, sem alltaf hefði verið í ráðum um samningu alþýðutryggingarlaganna og breytinga á þeim. Ég tók það fram, að allt nýtilegt, sem í þessum 1. væri, væri komið frá þeim manni, en sá mæti maður getur vitanlega ekki að því gert, þó flokkarnir síðan víki út frá hans till. eftir sínum hagsmunum.

Þá kom það einkennilega fram hjá þessum hv. þm., sem jafnan lætur þess getið, hve mjög hann gerhugsi öll mál, að hann vill láta taka ráðin af sjúkrasamlögunum, af því að yfirstjórn fræðslumála skipaði formenn skólanefnda. Hér er ekki um sambærileg málefni að ræða, þar sem hér er um svo miklu stærra og þýðingarmeira atriði að ræða. En það er svo einkennilegt, að þegar þessi hv. þm. er að verja það, sem hann í hjarta sínu er á móti — það veit ég —, þá vill hann rökstyðja mál sitt með því, að það sé til önnur vitleysa fyrir í löggjöfinni. Það sýnir aðeins, hversu litilfjörlegur málstaður þessa hv. þm. er, og hversu augljóst rökþrot hans er orðið.

Ég skal ekki karpa lengur við hv. þm. Barð., hann vill eindregið, að Framsfl. eigi heiðurinn af því að hafa komið á breyt. á skipun tryggingarráðs. Það getur vel hafa vakað fyrir Framsfl., en ég staðhæfi, að þetta er framkomið innan n. frá hálfu okkar sjálfstæðismanna. Við erum sammála um þetta atriði, og ég vænti þess, að þessi brtt. verði samþ.

Þá vildi hv. þm. Barð. átelja það, að við hefðum ekki vakið máls á því, hversu óréttmætar brtt. við atvinnuleysistryggingarnar eru. Ég lét þess getið þegar í n., að við skiptum okkur ekki af þessu máli, sjálfstæðismenn. Við værum í heild á móti atvinnuleysistryggingum og þetta væri einskonar heimilismál á milli stjfl. En út frá því, sem þm. Barð. taldi, að þessar brtt. væru vafasamar, — það er og í fullu samræmi við það, sem hann áður hefir haldið fram hér á Alþingi um atvinnuleysistryggingar —, þá mun ég leyfa mér að vænta þess, að hann greiði atkv. á móti þessari gr. — Ég held, að það séu ekki fleiri atriði, sem ég þurfi að svara, enda nokkuð þýðingarlaust að vera að karpa um málið.