13.12.1937
Neðri deild: 48. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Vilmundar Jónsson):

Um leið og við fellum þessar umr. af þakka ég fyrir viðskiptin. En vil þó um leið ekki láta því ómótmælt við hv. samnm. minn, er hann henti sú leiðinlega skyssa, að fullyrða, að sú ræða, sem ég las upp úr Alþtíð. eftir hv. 1. þm. Reykv., hafi verið flutt gegn einhverju sérstöku formi á tryggingum. Hún er flutt af því tilefni, að núv. hæstv. atvmrh. flutti till. til þál. um að skipa mþn. til að athuga og undirbúa tryggingarlöggjöfina. Og ræða hv. 1. þm. Reykv snerist öll um það, að mótmæla tryggingum yfirleitt, í hvaða formi sem þær væru. Sérstaklega lagði hann áherzlu á það, hvað hættulegar rær væru heilbrigði manna, og eins og ég greip fram í fyrir hv. þm., þá virðist það þó torskilið, að það hafi áhrif á bata tryggðra manna, hverjir greiða iðgjöldin. (TT: Sagði ekki formaður Framsfl., að Ítölum batnaði aldrei?).

Þá vil ég líka geta þess, að fyrir skömmu var hér staddur í hliðarherbergi yfirlæknir trygginganna, sem er málum þeirra allra manna kunnugastur, sérstaklega sjúkrasamlögunum. Hann óskaði eftir, að þess yrði getið hér í hv. deild, að það væri ósk sjúkrasamlaganna sjálfra, án tillits til allrar afstöðu til stjórnmála, að einn maður væri skipaður í hverja samlagsstjórn af tryggingarstofnuninni, og hann gat þess, eins og ég er áður búinn að upplýsa, að þetta hefði verið einróma samþ. á fulltrúafundi sjúkrasamlaganna, sem haldinn var á Akureyri síðastl. sumar. Og eftir því, sem mér skildist, þá mun þetta ekki síður hafa verið áhugamál sjálfstæðismanna, sem margir voru þarna samankomnir: Páll Þormar kaupmaður á Norðfirði, Sigtryggur Þorsteinsson á Akureyri (SEH: Hann er framsóknarmaður) og frá Siglufirði Jón Jónasson, sem mun þó vera sjálfstæðismaður. Nauðsyn þessa rökstyðja menn ekki sízt með því, segir yfirlæknirinn, og er sjálfur á sama máli, að koma þurfi í veg fyrir, að einar bæjarstjórnarkosningar geti orðið þess valdandi, að hrundið sé e. t. v. hverjum einasta manni úr stjórn sjúkrasamlags og settir þar inn menn, sem aldrei hafa komið nálægt þeim málum áður. Það megi ekki minna vera en tryggingarstofnunin hafi hönd í bagga um það, að alltaf sé tryggt, að einn maður eigi sæti í stjórn hvers samlags, sem málum þess sé kunnugur, og hæfur til að leiða stjórnina. M. ö. o., við hvert samlag á a. m. k. að vera einn maður, sem er valinn án þess að pólitísk afstaða hans sé ein látin ráða öllu um valið.

Loks vil ég geta þess, og skal það verða það síðasta, að það greinir líka á milli skilnings míns á sjúkrasamlögum og öðrum tryggingum, og þess skilnings hv. 5. þm. Reykv. á þeim málum, sem komið hefir fram hér í hv. deild, þar sem hann skoðar iðgjöld til trygginga sem nefskatt. Ég er þar á öðru máli; ég skoða þau blátt áfram sem greiðslu fyrir keypt fríðindi, alveg á samsvarandi hátt og þegar maður kaupir nauðsynjar í búð.