15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

124. mál, alþýðutryggingar

Gísli Guðmundsson:

Það hefir verið sagt af sumum hv. þm., sem hér hafa talað, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé ekki nægilega undirbúið og sérstaklega að þingið hafi heldur lítinn tíma til þess að athuga það og gera á því þær endurbeetur, sem kann að þurfa. Það er vitanlega æskilegt í hverju tilfelli, að sú löggjöf, sem kemur frá þinginu, sé undirbúin sem best og þingið geti athugað hana sem bezt. En ég hygg, að það, sem hv. þm. hafa sagt í sambandi við þetta mál, sé nokkuð ofmælt, því eins og upplýst hefir verið, þá er þetta mál að nokkru leyti undirbúið af tryggingarstofnun ríkisins, sem hefir á að skipa þeim sérfræðingi, sem færastur er í þessari grein, svo það verðar ekki annað sagt en það hafi verið vel undirbúið viðvíkjandi hinum teknísku atriðum.

Ég vil leyfa mér að benda á, að það er engan veginn ótítt, að mál komi seint inn á þing og séu afgr. á skömmum tíma, ef þau eru þannig vaxin og undirbúin, að það sé fært. Í þessu sambandi vil ég minna á eitt mjög stórt mál, sem kom í fyrsta sinn til umr. í dag, en það er hið þýðingarmikla frv. um aðstoð við bændur á mæðiveikisvæðinu, og þó hygg ég, að menn séu sammála um það í öllum flokkum að afgr. þetta mál frá þinginu, þó þingið hafi ekki haft það til meðferðar lengur. Ég held því, að það, sem hv. þm. hafa sagt um, að ekki sé fært að samþ. þetta mál sökum undirbúningsleysis, sé ekki á fullum rökum reist.

Ég vil telja, að það frv., sem hér liggur fyrir, feli í sér verulegar endurbætur á alþýðutryggingarl., og eru það sérstaklega 2 brtt., sem ég legg mest upp úr. Ég vil þá í fyrsta lagi nefna þá breyt., sem gerð er í sambandi við vextina af ellistyrktarsjóðum bæjar- og sveitarfélaga. Við hv. þm. Barð. fluttum á þinginu í fyrra frv. um þetta efni, sem var ekki samþ. þá, en nú felur þetta frv. í sér þá breyt., sem við fórum fram á. Annars er það svo, að viðvíkjandi ákvæðum alþýðutryggingarl., eins og þau eru nú, þá hefir frá upphafi verið nokkur ágreiningur um, hvernig skilja bæri þetta efni. Sumir litu þannig á, og þar á meðal merkir lögfræðingar, að l. hefðu ekki verið rétt skýrð eins og þau voru skýrð af tryggingarstofnun ríkisins. Ég fyrir mitt leyti, sem ekki er sérfræðingur í lögskýringum, leit þannig á og ég er þeirrar skoðunar enn. Eigi að síður taldi ég sjálfsagt bæði í fyrra og eins nú, að skýrt væri fram tekið um þetta í breyt. á l., svo ekki væri um deilt. Ég vil ekki láta hjá líða að geta þess, að ég hefi þennan skilning enn, sem ég hafði, hvort sem hann mun vera réttur eða ekki.

Ég vil leggja áherzlu á það í þessu sambandi. þó um það sé að vísu ekki nein deila, að í þessu frv., eins og í l. eins og þau voru upphaflega afgr., er slegið föstu einu mikilsverðu atriði, sem er það, að ekki er í þessu frv. fremur en í l. sjálfum gerður neinn munur í kaflanum um ellitryggingar á ellilaunum eða elligreiðslum til manna eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Ég tel í þessu sambandi, að þá sé það einmitt mjög mikið réttlætismál, að ekki sé gerður munur á mönnum í þessu efni eftir því, hvar þeir búa á landinu, og það er vel farið, að þessu hefir verið ráðst. þannig, bæði í l. eins og þau voru upphaflega sett og elns í þessu frv.

Ég skal svo ekki frekar ræða um aðalatriði þessa frv., sem hér liggur fyrir. En hér eru komnar fram 2 brtt., sem að nokkru leyti eru sama efnis. Þessar brtt. eru á þskj. 380 og 382. Ég ætla að minnast á brtt. á þskj. 380 í þessu sambandi. En þessi brtt., frá hv. þm. Barð. og hv. þm. Mýr., fer fram á þá breyt. á kaflanum um ellitryggingar, að um sjóðfélaga í eftirlaunasjóði Landsbanka Íslands skuli gilda þau ákvæði að þeir séu undanþegnir iðgjaldagreiðslu til lifeyrissjóðs Íslands. Þessi till. byggist á því, eins og hv. 1. flm. tók fram í sinni ræðu, að starfsmenn Landsbankans hafa sjálfir sinn lífeyrissjóð, eftirlaunasjóðinn, sem er þannig myndaður, að þeir greiða 3% af launum sinum og þar á móti greiðir bankinn 3%, og með þeim greiðslum er sjóðurinn myndaður. Nú er það svo, að það munu hafa verið uppi fyrir nokkru síðan óskir um það frá þessum mönnum, að þessu væri breytt í þessa átt, en til þess að mæta þeim óskum, þá hefir við undirbúning þessa frv., sem hér liggur fyrir, verið gengið frá nýjum ákvæðum, sem eru á þá leið, að þessir menn og aðrir, sem líkt stendur á um, geti fengið endurgreiðslu á hluta af því iðgjaldi, sem þeir greiða í lífeyrissjóð Íslands, og endurgreiðslur þessar eru ákveðnar með því móti, að greidd er meðalupphæð iðgjalda, sem inn koma á því svæði, sem sjóðurinn er starfandi á. Ég gerði ekki ráð fyrir að bera fram sérstaka brtt. við þetta, af því ég leit svo á, að nokkuð væri komið á móts við óskir manna í þessu efni. En fyrst hér er komin fram brtt. um að leysa þessa menn frá skyldu til þess að greiða í lífeyrissjóð Íslands, þá get ég ekki látið hjá líða að benda á, að það er önnur stofnun, sem nákvæmlega stendur eins á með, en það er Útvegsbanki Íslands. Starfsmenn þeirrar stofnunar hafa myndað slíkan eftirlaunasjóð með reglugerð, sem samþ. er af fulltrúafundi bankans, og staðfest af bankaráði, og á sínum tíma gerð með samþykki þáverandi fjmrh. Þessi reglugerð er í öllum aðalatriðum sniðin eftir þeirri reglugerð, sem eftirlaunasjóður Landsbanka Íslands lýtur, og iðgjöld þau, sem starfsmenn Útvegsbankans greiða í þennan sjóð, eru jafnhá og þau iðgjöld, sem starfsmenn Landsbankans greiða í sinn sjóð. Frá bankans hálfu er það beint skilyrði fyrir starfsmenn bankans, að þeir tryggi sig í þessum sjóði, svo fyrir þá er þetta sama sem lög.

Nú hefir frá starfsmönnum Útvegsbankans borizt erindi til þingsins, og fylgja því meðmæli frá stjórn bankans. Og af því ég lít svo á, að hér sé að ræða um samskonar stofnanir og hér standi nákvæmlega eins á um tryggingar, þá vil ég leyfa mér að bera fram við brtt. á þskj. 380 skriflega brtt. þess efnis, að sjóðfélagar í eftirlaunasjóði Útvegsbanka Íslands falli undir sömu ákvæði og þessi brtt. gerir ráð fyrir, og vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta hana.