15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

124. mál, alþýðutryggingar

Sigurður Kristjánsson:

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að rekja sögu þessa máls, hvers vegna þeir fáu menn, sem tryggðir voru hér á landi áður en þessi lög gengu í gildi, hafa verið látnir sæta sérstökum bráðabirgðaskyldum. Á því er enginn vafi, að tilgangur alþýðutrygginganna hlýtur að hafa verið sá, að allir menn yrðu tryggðir á einhvern hagkvæman hátt. Þá er það merkilegt, að löggjafinn skuli hafa seilzt til þeirra manna, sem þegar voru tryggðir, og ennþá merkilegra, ef löggjafinn gerir sér leik að því að finna út, hvað illa sé hægt að fara með þá menn.

Ég ætla ekki að fara langt út í málið almennt, því að þetta hefir verið rætt nokkuð af öðrum hv. þm. Ég sný máli mínu að 32. gr. þessa frv., en hún er breyt. á 62. gr. tryggingarlaganna. Þessi 62. gr., 2.–3. málsgr., mælir svo fyrir, að hver embættismaður eða barnakennari, sem var yngri en fertugur, þegar lögin öðluðust gildi, skuli hafa rétt til að hætta greiðslum til hlutaðelgandi lífeyrissjóðs, en taka sér í stað þess tryggingu í lífeyrissjóði Íslands og fá þá endurgreidd iðgjöld sín úr lífeyrissjóði embættismanna og barnakennara. — Það er alviðurkennt, að þessir sjóðir eru eign hinna tryggðu. Iðgjöld þeirra voru lögákveðin nokkuð há, — eiginlega eftir ágizkun út í loftið, því að þá var lítil þekking á slíku fengin —, 7% af laununum öllum. Óhætt er að fullyrða, að þetta gjald reyndist lágtekjumönnunum ákaflega erfitt. Það er ekki létt fyrir menn, sem varla hafa vitað, hvernig þeir eiga að draga fram lífið, t. d. margra kennara, símamenn, póstmenn, o. fl. Undan þessu var líka mjög mikið kvartað. En líkur bentu til þess, að þó nokkur lagfæring hefði orðið, þótt ekki hefðu komið lög um alþýðutryggingar, því að sjóðir þessara stétta uxu mjög ört. Iðgjaldið virtist hafa verið ákveðið ríflegra en þörf varð fyrir. Ég geri ráð fyrir, að þetta hafi þeir þm. skilið, sem samþykktu 2.–3. lið 62. gr. tryggingarlaganna.

En á framkvæmdinni hafa orðið þau mistök, sem mönnum eru kunnug. Þessari ráðstöfun, að heimila útborgun iðgjalda, var tekið ákaflega vel af flestum starfsmönnum, sem það mál snerti. — Að sjálfsögðu var það ekki nema tiltölulega lítill hluti þeirra, sem kærði sig um að nota heimildina. Því að þeir, sem vel voru efnum búnir eða höfðu góðar tekjur, hafa vafalaust viljað halda áfram að tryggja sig hærri tryggingunni. Heimildin hefði aðeins haft „praktiska“ þýðingu fyrir þá efnalitlu eða tekjulágu. Nú vil ég ekki gera ráð fyrir, að 62. gr. hafi verið sett að óyfirlögðu ráði, heldur til að tryggja, að þeir, sem lagt höfðu fé sitt í hina eldri lífeyrissjóði, fengju rétt sinn. En framkvæmd 2.–3. málsgr. greinarinnar hefir verið frestað, og nú hefir verið lagt til að fella þá liði niður, afnema heimildina, líklega af því að hún væri erfið í framkvæmd sem stendur.

Þar kemur að því undarlega. Var það ekki athugað nógu vel, að þessir sjóðir yrðu að varðveitast þannig, að hægt væri fyrirvaralaust að greiða þeim eign sína, sem áttu? — Enginn efast um, hverjir eiga sjóðina. Ég geng út frá því, þangað til ég veit annað, að þetta sé hugsað alveg prettalaust af hálfu löggjafans og þeirra, sem nú hafa sjóðina í sínu valdi. Gerum jafnvel ráð fyrir, að stjórnin fengi frestinn lengdan enn til þess að búa sig undir að fullnægja skuldbindingum 62. gr. tryggingarlaganna, 2:3. málsgr. Það yrði ekkert stórfé, miðað við vöxt sjóðanna, sem hún þyrfti að snara út, því að ég geri ekki ráð fyrir, að krafan kæmi nema frá lágtekjumönnum. En ef það er ekki hægt, ef sjóðurinn er þannig varðveittur, að hann geti ekki leyst af hendi skuldbindingar sínar, þá er það mjög vítavert.

Nú urðu þau mistök á setning bráðabirgðaákvæðanna um frestun 62. gr., sem mér finnst tæplega sæmandi. Þau voru ekki samþ. fyrr en nokkru eftir að alþýðutryggingalögin gengu í gildi. Þess vegna varð örstutt tímabil, er hlutaðeigendur höfðu tækifæri til að breyta um trygging sína, eins og 62. gr. heimilar, og fá útborgað fé sitt, vaxtalaust. Um þetta vissu sárfáir, og sjálfsagt engir utan Reykjavíkur. Þessu mun hafa verið stungið að nokkrum mönnum, að þarna væri opin leið, en mundi brátt verða lokað. Því sættu nokkrir því færi, t. d. póstmenn hér í Reykjavík og nokkrir aðrir. Nú er alveg bersýnilegt, að þarna hefir skapazt ákaflega mikið misrétti, þar sem fáum mönnum er veitt tækifæri að ná rétti sínum, en lokað leið fyrir öðrum. — Nú eiga bráðabirgðalögin bráði að falla úr gildi, og ef það verður áður en lagabreytingarnar, sem hér eru til umr., geta komið til framkvæmda, mundi opnast nýtt tækifæri til hins sama. En það er víst ætlazt til, að frv. verði orðið að lögum áður en tækifærið gefst, svo að hægt sé að loka sjóðum þessara manna fyrir þeim sjálfum. Það er auðséð, að mikið þykir við liggja, ef það tekst ekki með samþykkt 32. gr. frv. að losna við 2.–3. málsgr. 62. gr. í tryggingarlögunum.

Það mátti heyra á ræðu hv. nefndarformanns (BJ), að honum þótti það sanngjarnt og í alla staði réttmætt, að menn fengju greidda eign sína og væri heimilað að tryggja sig í hinum almenna lífeyrissjóði. En þm. sagði, að því er mér skildist, að hann ætlaði samt ekki að vera með því, sem hann taldi rétt og skylt. Og hver var ástæðan? Hún var sú, að sjóðirnir væru ekki færir um að borga. — Það er nokkuð skrítið, ef sjóður, sem maður á, getur ekki greitt innieignina, þó að sæmilegur frestur hafi verið gefinn. Því aðeins er sjóðurinn ekki fær um það, að hann sé festur eða tapaður.

Það var kunnugt, að þessir sjóðir voru orðnir geysilega fésterkir; þeir munu hafa verið komnir nokkuð á 3. milljón. Og þó að nú komi kröfur um 100–200 þús. kr. endurgreiðslur á iðgjöldum, sýnist ekki til afskaplega mikils mælzt. En sjóðirnir eru ekki sagðir færir um að greiða það. Hvers vegna? Ég ætlazt til, að yfirstjórn þessara sjóða svari til þess. Að öðrum kosti verður að skilja ummæli hv. form. svo, að fé sjóðanna muni vera glatað. Ég vil fá að heyra það af vörum þeirra, sem ættu að vita þetta bezt, hvar sjóðirnir eru geymdir eða hvort þeir eru til. Það er í meira lagi óviðkunnanlegt, að geta ekki losnað við þann grun,

að fé, sem ríkisstj. geymir, sé ekki vel geymt. Ég krefst svars, undandráttarlaust, í nafni þessa fólks, sem sjóðina á og margt er kjósendur mínir, um það, hvort sú aðdróttun, sem fólst í orðum hv. þm. Barð., er á rökum byggð.