15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Thor Thors) :

Ég þarf ekki að vera langorður.

Ég get tekið undir það, sem hv. þm. Barð. lagði áherzlu á í sinni ræðu, að það væri aðalatriðið fyrir símafólkið að fá endurgreiðslu úr þeim sjóði, sem það hefir áður lagt fé í, og að það hefði eins og aðrir gert sér vonir um, þegar þetta mál var ákveðið með I., að það fengi þarna fé til ráðstöfunar og hafi því orðið fyrir vonbrigðum, þegar framkvæmd þessa máls var frestað. Það telur sig eiga réttlætiskröfu til þess að njóta í þessum efnum sömu réttinda og ýmsum öðrum hafa verið veitt.

Hv. þm. N.-Ísf. taldi, að undirbúningur þessa máls væri í bezta lagi. Það má minna hv. þm. á það, að þetta er nokkurn veginn samhljóða hví, sem hann og flokksbræður hans héldu fram, þegar l. um alþýðutryggingarnar voru sett. Dásömuðu þeir þá mjög, hvað vel væri frá þessum málum gengið og hvað þau væru gaumgæfilega undirbúin og rannsökuð. Reynslan hefir hrakið það, sem þessir hv. þm. fullyrtu þá, og ég geri ráð fyrir, að hún eigi eftir að hrekja staðhæfingar þessa hv. þm. í sambandi við þetta mál. Hv. þm. taldi réttmætt að samþ. þetta mál, svona lítið rannsakað. Í dag hefði t. d. verið lagt fyrir þingið stórfellt frv. um ýmsar aðgerðir í sambandi við mæðiveikina og ekki hefir það fengið meiri undirbúning. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir athugað það, en ég hugsa, að aðrir hafi gert það, að þetta frv. hefir verið í undirbúningi í allt haust. Allir þeir þm., sem eru fulltrúar fyrir þau héruð, þar sem mæðiveikin hefir breiðzt út, hafa verið hvað eftir annað á fundum um það í allt haust, hvernig eigi að snúast við þessum voða. Frv., sem að vísu kemur ekki fram fyrr en í dag, er ávöxturinn af starfi allra þeirra aðilja, sem hér eiga hlut að máli. Málið sjálft er ágreiningslaust flutt af þeim mönnum þessarar hv. d., sem hún hefir sérstaklega trúað fyrir því að fara með málefni landbúnaðarins á þinginu. Og ég geri ráð fyrir því, að allir hv. þm. séu sammála um, að nauðsyn beri til þess að bregðast skjótt við og veita þeim mönnum, sem fyrir mestu tjóni hafa orðið, einhverja hjálp. Hér er ólíku saman að jafna. Þetta mál, sem ég gat síðast um, þolir enga bið, en frv. um alþýðutryggingarnar, sem hér er um að ræða, er ekki svo veigamikið og hefir ekki slíkar réttarbætur í för með sér, að það þoli ekki, að það sé gaumgæfilega undirbúið og rannsakað til næsta þings.

Þá taldi hv. þm. N.-Þ., að starfsmenn Útvegsbankans ættu sama rétt hvað snertir endurgreiðslu og starfsmenn Landsbankans. Þetta er ekki rétt, vegna þess, að starfsmenn Landsbankans eru skyldaðir til þess samkv. l. að leggja fram ákveðna fjárhæð af launum sínum í eftirlaunasjóð og verða ekki leystir undan þeirri skyldu nema með lagabreyt. Starfsmenn Útvegsbankans hafa hinsvegar tekið upp þetta mál á frjálsum grundvelli eða a. m. k. án afskipta Alþingis. Og bankinn sem stofnun er sjálfráður um að leggja niður þennan sjóð þegar hann óskar. Það getur Landsbankinn aftur á móti ekki, nema eftir breyt. frá Alþingi á landsbankalögunum. Þess vegna er það rangt hjá hv. þm., að það standi nákvæmlega eins á fyrir Útvegsbankanum og Landsbankanum í þessum efnum.

Ég get skilið, að þessi hv. þm. vilji þóknast starfsmönnum Útvegsbankans, af því að hann á sæti í bankaráði þess banka. Og þess vegna er það, að hann flytur þetta mál, en ekki af því, að það sé réttlætiskrafa.

Hv. frsm. meiri hl. taldi, að sú breyt., sem meiri hl. n. stefnir að, þess efnis, að það skuli vera tryggingarráðið, sem ræður formenn sjúkrasamlaganna, en ekki tryggingarstofnunin, sé aðeins skýring á því, hvernig þetta mál sé hugsað. Ég hygg, að þetta sé ekki rétt skýring. Þessi till. er veruleg efnisbreyt. og er að mestu leyti fram komin fyrir óskir frsm. í n., óskir, sem ég hygg, að séu ekki að öllu leyti í samræmi við það sem þessi hv. þm. og hæstv. ráðh. hafa hugsað sér í þessu máli. Hann talaði um það af miklum skilningi, hversu leitt það væri, ef óréttmæt pólitík kæmist inn í framkvæmd sjúkratrygginganna. Ég get tekið undir allt, sem hann sagði um það, en þetta ákvæði, sem hér er smeygt inn í þetta frv., um að taka meðferð þessa máls úr höndum hins ábyrga meiri hl. bæjarstj., er einmitt flutt til þess að koma óréttmætri pólitík inn í málið. Hv. þm. vill afsaka þetta með því að segja, að þessi till. hafi verið flutt á fundi sjúkrasamlaganna, sem haldinn var síðasta sumar, en hv. þm. veit það alveg eins vel og ég, að þessi till. er komin frá tryggingarráði sósialista, sem nú á að reka burt frá stjórn þessarar stofnunar. Þar var hið pólitíska frumkvæði að þessu atriði. Það var tryggingarráðið, sem samanstendur af þremur sósialistum, sem fann upp þetta snjallræði til þess að sölsa undir sig framkvæmd sjúkratrygginganna, sem samkv. réttum lýðræðisreglum eiga að heyra undir bæjar- og sveitarstjórnir. Ég veit, að hv. þm. er ekki það einfaldur, að hann viti ekki ofur vel, hvað liggur á bak við þessa brtt. og hver hennar raunverulegi tilgangur er. Ég skal hinsvegar geta þess, að mér þykir brtt. hv. meiri hl. n. um það, að tryggingarráð ákveði formennina, en ekki tryggingarstofnunin, nokkur bót í máli, en hún fyrirbyggir ekki það, sem tilgangurinn var upphaflega með breyt. á þessu skipulagi, að réttmæt pólitík komi inn í málið, og það er, eins og ég hefi margsinnis getið um við þessar umr., algerlega að þarflausu, að slíkt er gert, og það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir framkvæmd sjúkratrygginganna. Það getur orðið til þess að spilla framkvæmd þeirra og vinsældum, eða réttara sagt væntanlegum vinsældum, því að vinsældir hafa hingað til litlar verið hjá meiri hl. bæjarbúa, þar sem þessu ákvæði verður beitt til þess að draga stj. sjúkrasamlaganna úr höndum fulltrúa þeirra.