15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

124. mál, alþýðutryggingar

*Sigurður Kristjánsson:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. Barð. sagði um þau orð, sem ég hafði í sambandi við lifeyrissjóð embættismanna og barnakennara, og að ég hefði snúið út úr orðum hans. Ég sagði, að sjóðunum bæri að standa við skuldbindingar sínar, ef þeim hefði ekki verið komið óforsvaranlega fyrir og ef þeir væru ekki tapaðir, og það er hægt að sanna þetta. Ég gerði það með því að sýna fram á, að kæmu miklar kröfur, þá væri hægt að fresta greiðslunni, eins og gert hefir verið 2 þing, en hv. þm. sagði blátt áfram, að sjóðirnir væru ekki færir um að greiða þetta. Hann sagði, að hann teldi kröfur símamanna réttmætar og sanngjarnar, en hann ætlar samt eftir því sem mér skilst, að vera á móti því, af því að sjóðurinn er ekki fær um að greiða þetta. Ég hefi því á engan hátt snúið út úr orðum hans. Ég krafðist þess bara, að stj. sjóðanna gerði grein fyrir því, hvers vegna sjóðirnir eru ekki færir um að greiða fé, sem þeim ber að greiða samkv. l., og það þýðir ekki að vera að hafa nein undanbrögð í þessu máli. Það er vitanlegt, að þó að sjóðina kynni að skorta reiðufé, þá hafa þeir átt að koma eignum sínum í verðbréf eða annað þess háttar, og greiða með hæfilegum fresti, og það er nákvæmlega sami möguleiki fyrir hendi nú eins og verið hefir að fresta þessum greiðslum, þannig að sjóðurinn geti innt þær af hendi. Hv. þm. hefir þess vegna á engan hátt ennþá gert grein fyrir þessum orðum sínum, hvernig á því stendur, að sjóðirnir eru ekki færir um að standa við skuldbindingar sínar. Ég bíð eftir því, að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir, hvort þetta er rétt, eða ef það er ekki rétt, hvort hún viðurkenni þá, að það sé beinlínis tilgangur hennar að loka þessum sjóðum að óþörfu, þessum sjóðum, sem eru eign embættismanna og barnakennara, loka þeim fyrir eigendunum með einskonar ofbeldi.