15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

124. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Ég verð að segja, að ég skil hvorki upp né niður í því, sem hv. 6. þm. Reykv. er að tala um. Hann spyr, hvernig á því standi, að lifeyrissjóðirnir séu ekki færir um að standa við skuldbindingar sínar. Ég veit ekki betur en að þeir hafi gert það. Hvaðan hv. þm. kemur þessi vitneskja, veit ég ekki. Ég ætla, að hann sjálfur eða einhver af flokksmönnum hans hafi tekið svo til orða, að það væri lagt hærra gjald en eðlilegt væri á menn til þess að safna í lífeyrissjóðina, hærra gjald en eðlilegt væri eftir þeim. fríðindum, sem sjóðirnir ættu að inna af hendi. Ég skal ekki fullyrða, hvort svo er, en hitt vil ég fullyrða, að sjóðirnir hafa staðið við allar sínar skuldbindingar, og það er engin minnsta ástæða til að efa, að þeir geri það. Sjóðunum eru engar slíkar skuldbindingar bundnar á hendur sem þær, að greiða t. d. á annað hundrað manns í einu allt, sem þeir hafa greitt í sjóðina, en þó að það yrði gert, þá efa ég ekki, að sjóðirnir gætu mætt því, en það væri betra fyrir sjóðina að greiða þetta á annan hátt. Hv. þm. má ekki halda, að það, hvort heimiluð er endurgreiðsla úr sjóðunum, fari eftir því, hvort sjóðirnir geti greitt eða ekki. Sjóðirnir hafa þá tapað núna seinustu dagana, ef um tap ætti að vera að ræða. Ég hefi ekki athugað reikninga sjóðanna frá því um síðustu áramót, en fé sjóðanna er að langmestu leyti í skuldabréfum og að nokkru leyti í reiðufé.

Ég vil ekki taka það alvarlega hjá hv. þm., þegar hann er með dylgjur um það, að fé sjóðanna sé tapað fyrir óráðvendnislegar eða mjög heimskulegar ráðstafanir á fé þeirra. Ég tortryggi ekki þann mann, sem hefir stjórnað sjóðunum síðustu ár, Brynjólf Stefánsson, sem hefir haft yfirstjórn trygginganna. Ég skil ekki, hvað þessi orðaflaumur hjá hv. þm. á að þýða. Ég tel engan vafa á því, að sjóðirnir geti mætt sínum skuldbindingum. Ef ég man rétt, þá notuðu nokkrir síma- og póstmenn tækifærið til þess að fá greiddar innstæður sínar í sjóði þeirra þá fáu daga, sem voru á milli þess að nýju l. gengu í gildi 1936 þangað til búið var að fá staðfestingu á bráðabirgðal. frá 1936. En ég tel, að jafnvel þótt póst- og símamönnum, sem ekki fengu endurgreitt úr sjóðnum, yrði greidd innstæða þeirra, þá sé ekki ástæða til að bera kvíðboga fyrir því, að sjóðurinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, en hinsvegar tel ég betra að dreifa útborguninni á 2–3 ár, og það kæmi ekki í bága við starfsemi sjóðsins.

Fyrst ég fór að taka til máls, vil ég minnast á brtt. á þskj. 380, um að undanþiggja þá menn, sem eru meðlimir í eftirlaunasjóði Landsbankans, frá tryggingarskyldu til hins almenna lífeyrissjóðs Íslands. Ég vil mjög mæla gegn þessari brtt., því að ef hún yrði samþ., þá mundi verða farið fram á undanþágu fyrir aðra eftirlaunasjóði. Þá hefir komið erindi frá Útvegsbanka Íslands, Eimskipafélagi Íslands og nokkrum fleiri stofnunum, sem hafa gert slíkt hið sama. Afleiðingin af þessu yrði sú, að tekjuhæsta fólkið í landinu vel flest mundi skapa sér sérstaka ellitryggingu með sérstökum iðgjöldum, en eftir yrði í hinum almenna lífeyrissjóði tekjulægsta fólkið. Nú er persónugjaldið til sjóðsins 7 kr. og 5 kr., og með 1% álagningu á skattskyldar tekjur er gert ráð fyrir, að meðalgreiðslurnar í sjóðinn séu 15,50 kr., og við það er áætlunin um væntanlegan ellistyrk miðuð. Ef tekjuhæsta fólkið hefir sértryggingu, þá hlýtur meðalgreiðslan til sjóðsins að lækka, og möguleikar hans til lífeyrisgreiðslu hljóta einnig að minnka, en lífeyrissjóðsl. byggjast einmitt á því, að þau verði sem víðtækust, nái til sem flestra og einn hjálpi öðrum, að menn standi saman, þeir, sem betur mega, og hinir, sem minna eiga. Af þessari ástæðu er ég á móti því, að undanþága verði gerð fyrir þá menn, sem tryggðir eru í sérstökum sjóðum, ekki sízt þegar þess er gætt, að þær tryggingar, sem starfsfólk Landsbankans nýtur, eru því mjög hagstæðar. Ég held, að Landsbankinn greiði helminginn af iðgjöldum til sjóðsins, og starfsmenn sjálfir 2½%. Hinsvegar er í frv., sem hér liggur fyrir, gert ráð fyrir — sem ég tel rétt og eðlilegt —, að þeir, sem hafa tryggt sig í öðrum sjóðum, fái þá ívilnun, að þeir greiði aðeins það, sem er umfram meðalgreiðsluna til sjóðsins, 12,50 kr. Ef maður hefir t. d. 3000 kr. skattskyldar tekjur og greiðir 1% af þeim og 14 kr. viðbót fyrir sig og konu sína, þá verður hann að greiða til jafnaðar 44 kr., en ef starfsmenn Landsbankans fá frádrátt á 25 kr., þá greiða þeir ekki nema 19 kr. Með þessari till., sem er í frv. sjálfu, tel ég vera svo langt gengið til móts við óskir þessara manna sem hægt er, án þess að rýra mjög alvarlega hlut lifeyrissjóðs Íslands. Ég vil mæla með, að sú till. verði samþ.