15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

124. mál, alþýðutryggingar

Gísli Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð. Hv. þm. Snæf. var hér áðan að fetta fingur út í það, sem ég hafði sagt viðvíkjandi undirbúningi þessa máls, og lét hann þess getið í því sambandi, að eitthvað, sem ég hefði sagt viðvíkjandi undirbúningi alþýðutrygginganna 1935, hefði ekki staðizt. Ég veit ekki, hvaðan hv. þm. kemur þessi vizka. (TT: Úr þingtíðindunum). Ég veit ekki til, að ég hafi í umr. 1935 gert annað en að skýra frá staðreyndum um undirbúning þessa máls, og ég veit ekki betur en að það hafi fullkomlega staðizt, sem ég sagði, enda benti hv. þm. ekki á neitt máli sínu til sönnunar um það. Annarsvegar sneri hann út úr orðum mínum í kvöld, þar sem hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að undirbúningur þessa máls væri í bezta lagi. Ég sagði það ekki, heldur nefndi ég staðreyndir um það, hvernig málið var undirbúið, og benti á, að það væri ofmælt, sem sumir hv. þm. hefðu sagt um, að undirbúningi málsins væri sérstaklega áfátt. Í öðru lagi hafði hv. þm. fundið sér það til í sambandi við málið, að það væri búið að liggja svo skamman tíma fyrir þinginu, og til þess að nefna hliðstætt dæmi um, að ekki væri ótítt, að mál lægju skamman tíma fyrir þinginu, nefndi ég mál, sem ég mundi bezt eftir og var til umr. í dag. Hv. þm. gat ekki neitað, að það var rétt dæmi, sem ég tók þar. Hinsvegar sagði ég ekkert um það, hvort þetta mál hefði verið undirbúið utanþings. Ég sé ekki betur en að þau orð, sem hv. þm. lét falla í þeim tilgangi að fetta fingur út í ummæli mín, séu úr lausu lofti gripin. Þá minntist hv. þm. á þá brtt., sem ég hefi flutt við aðra brtt., sem fram hefir komið, þar sem ég fer fram á, að starfsmönnum Útvegsbankans verði gert jafnhátt undir höfði eins og starfsmönnum Landsbankans, sem nokkrir hv. þm. hafa flutt till. um að undanþiggja undan því að greiða til lífeyrissjóðs Íslands. Hv. þm. var eitthvað að tala um, að ég mundi flytja till. af því að ég væri í bankaráði Útvegsbankans. Það rýrir ekki út af fyrir sig gildi þessarar till., og yfirleitt hefi en ekki verið að brjóta heilann um, hvaða hvatir væru á bak við till., sem hv. þm. flytur viðvíkjandi Landsbankanum um þetta efni. Mér finnst það yfirleitt ekki skipta neinu máli, en það, sem ég hefi farið fram á, er það, að ef starfsmönnum Landsbankans verða veitt þessi hlunnindi, sem hér er farið fram á, þá gangi það sama yfir menn, sem vinna við samskonar stofnun, sem nákvæmlega eins stendur á um, og það er vítanlega engin sérstaða fyrir starfsmenn Landsbankans fram yfir starfsmenn Útvegsbankans, þó að tryggingarsjóður Landsbankans sé ákveðinn með l., vegna þess að starfsmenn í Útvegsbankans hafa ekki í sínu valdi að afnema sinn sjóð. Samþykkt um þann sjóð er gerð af fulltrúafundi bankans og bankaráðs, og það er engin trygging fyrir því, þó að starfsmennirnir vildu losna við þessa tryggingu, að þeir aðiljar, sem hér eiga um að fjalla, muni falla frá sinni samþykkt.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég stóð upp aðeins af þessu gefna tilefni, vegna þeirra orða, sem hv. þm. Snæf. lét falla um undirbúning málsins, og viðvíkjandi þeirri brtt., sem ég flyt hér og mér virðist hafa sætt óréttmætum andmælum.