15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. meiri hl. (Vilmundur Jónsson):

Ég ætla, að hv. 5. þm. Reykv. þurfi að strika æðimikið út úr ræðum sínum undanfarna daga, ef þar á ekki að sjást, að í 38. gr. (áður 37 gr.) þessa frv. séu ellilaun gamals fólks ákveðin svo lág, að ekki megi samkv. þeirri gr. veita þurfamönnum ellilaun, og í einu orði, að í þessari gr. frv. sé níðzt á gamalmennum. Þrátt fyrir þetta flytur hv. 5. þm. Reykv. enga brtt. við þessa voðalegu gr., heldur flytur hann brtt. við aðra gr., sem gerir engar breyt. á hinni fyrri gr. En um leið er það bara viðurkennt, sem hann áður hefir neitað. Það er þar með játað, að engin hæfa hafi verið í því, sem hann hefir haldið fram viðvíkjandi þessari 38. gr. Það má eftir ákvæðum þessarar gr. veita gömlu fólki fullnægjandi ellilaun sér til framfærslu. Og það má veita þurfamönnum ellilaun. En þessu hvorutveggja hafði hv. þm. neitað. Þessi gr. er því alls ekki til þess fallin að niðast á gömlu fólki. Í l. eins og þau eru nú ræðir um ellilaun til þurfamanna í 81. gr., sem verður óbreytt, þó að þetta frv. verði samþ. Þar stendur berum orðum (með leyfi hæstv. forseta) :

„Til greina við úthlutun koma öll gamalmenni sveitarinnar, sem náð hafa hinu tilskilda aldursmarki, og jafnt þau, sem áður hafa þegið sveitarstyrk, sem önnur“. Þar stendur ennfremur þetta um fullnægjandi ellilífeyri: „Skal reynt að stilla svo til, að gamalmenni, sem ellilauna nýtur, þurfi ekki jafnframt að leita framfærslustyrks.“

Svo hyggur hv. 5. þm. Reykv., að hann vinni eitthvert afrek með því að orða þessa grein um, svo að nú eigi fyrir hans tilstilli að veita öllu gömlu fólki svo há ellilaun sem það þarf sér til lífsframfæris. En fyrir hverjum á það að sanna þörf sína? Sveitarstjórnunum. Og hverjir eiga að ákveða hve mikið þetta fólk þurfi sér til lífsframfæris? Líka sveitarstjórnirnar. Hinar sömu sveitarstjórnir. Og svo er þessi hv. þm. svo barnalegur að halda því fram, að með hans till., ef samþ. verður, sé gömlu fólki tryggð ellilaun, og svo há ellilaun sem það þurfi sér til lífsframfæris. Ef hv. 5. þm. Reykv. kæmi því til leiðar, að settur væri upp einhver dómstóll til tryggingar því fyrir gamla fólkið, að það fengi ellilaun þegar það þyrfti, og svo mikið sem það þyrfti, þá mætti segja, að þessi hv. þm. hefði eitthvað fyrir gamla fólkið gert og bundið sveitarstjórnirnar í þessu efni, svo að við sleppum nú getu þeirra til að fullnægja slíkum úrskurðum. En hann bindur þær ekki með því að vera þær að dómurum yfir sjálfum sér í þessu hvorutveggja, því það eru þær nú. Það er sjálfsagt sælt að vera eins mikið barn og hv. 5. þm. Reykv. En gamla fólkið nýtur bara ekki fremur en aðrir góðs af slíkum barnaskap.