20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

124. mál, alþýðutryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég veit, að þeir hv. þingflokkar, sem skipa meiri hl. þingsins, eru búnir að koma sér saman um að afgr. þetta mál nú á þessu þingi eins og það er. Þess vegna tel ég það tilgangslaust að bera fram við það brtt., þar sem ég veit fyrirfram, að þær verða allar drepnar. Aftur á móti vil ég nota tækifærið til að lýsa því yfir, að þótt ég telji sum atriði í þessu frv. til bóta, þá vil ég segja fyrir mig og minn flokk, að við álitum, að á því séu stórir agnúar, sem við hefðum óskað eftir, að væri lagfærðir.

Ég er því sammála, að undirbúningur þessa máls sé slæmur og að ekki hafi verið leitað samvinnu við þá, sem með þarf, til að undirbúa málið. Hinsvegar hygg ég ekki, að málið muni fá viðunanlegri afgreiðslu þótt leitað verði samvinnu við Sjálfstfl., en það er það, sem þessi rökst. dagskrá fer fram á, og ekki annað. Það er ekki Sjálfstfl., sem þarf að hafa samvinnu við í þessu máli; það eru samtök fólksins sjálfs, svo sem verkalýðsfélög og önnur félög alþýðunnar, og er einkennilegt, að Alþfl. skuli ekki hafa haft samvinnu við sín eigin samtök, ekki sízt þar sem fram hefir komið eindreginn vilji ýmissa þessara samtaka í sambandi við framkvæmd l.

Ég tel tilgangslaust að ræða þetta mál frekar, þar sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um afgreiðslu þess, svo þýðingarlaust er að koma fram með brtt. við það.