18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög 1938

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég var að vonast eftir, að hv. þm. Dal. mundi koma með lausn gátunnar um saumnálartollinn, en varð þar fyrir vonbrigðum. Ég ætla því að gefa hv. þm. Dal. frest til næsta þings með dæmið, enda er það svo þungt, að ekki mun veita af þeim tíma.

Hv. þm. Kommfl. hafa talað margt um skattana. En ég skal segja hv. 1. landsk. það, að ég mun hvorki blikna né blána fyrir honum né skrafi hans. Og þeir munu fáir hér á landi, sem hafa unnið meira að því en ég að koma skattamálunum í réttlátt horf, bæði sem oddamaður í niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur og eins hér á alþingi.

Hv. þm. G.- K. þóttist geta látið sér nægja að visa til ræðu hv. þm. A.- Húnv. viðvíkjandi sparnaðarhug Sjálfstfl. Það er orðinn vani Sjálfstfl. í eldhúsumræðum að senda einhvern sveitamann í útvarpið til að lesa yfir landsmönnum, til að reyna að viðhalda þeirri blekkingu, að bændur fái einhverju að ráða í Sjálfstfl. Þá er venjan að ráðast á stjórnarflokkana fyrir há laun við ríkisstofnanirnar. En sannleikurinn er sá, að stofnanir einstaklinga og bæjarstofnanir, sem Sjálfstæðismenn hafa yfir að ráða, hafa borgað svo hátt kaup, að ríkið hefir orðið að fylgjast með.

Ég skal minnast á það, að forstjóri Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda hefir tvöföld ráðherralaun, bókari hjá Eimskipafélagi Íslands hefir ráðherralaun. Til samanburðar má geta þess, að meðallaun starfsmanna í Áfengisverzlun ríkisins, fyrir utan laun forstjóra, eru 3700 kr., og við raftækjaeinkasöluna 4800 kr. Forstjóralaun við þessi fyrirtæki eru varla meiri en laun bókara í einkafyrirtækjum. Sjálfstæðismenn stjórna mörgum af þessur fyrirtækjum, og væri þeim nær að gera hreint fyrir sínum dyrum. Hv. þm. A.-Húnv. ætti að byrja að vanda um fyrir vinum sínum, áður en hann heldur lengra með aðfinnslur sínar við stjórnarflokkana. Ég skal nefna eitt embætti, sem sjálfstæðismenn hafa stofnað og launa með 8000 kr. árlega. Og þetta embætti er algerlega óþarft. Ég á hér við embætti fiskimatsstjóra. Og varla færu þessar ásakanir vel í munni þess manns, sem bar fram till. um hæsta persónustyrkinn, sem fram hefir komið á þessu þingi. Ég segi þetta honum ekki til óvirðingar, en til þess eins að sýna, að það situr ekki á sjálfstæðismönnum að deila á óvarlega meðferð á ríkisfé.

Hv. þm. G.-K. sagði það áðan, að ég hefði ekki þorað að fara lengra í sparnaðarátt vegna hv. 2. þm. Reykv. Það komu fram í fjvn. tvær lækkunartill., sem ekki voru samþykktar. Önnur var um að skera niður atvinnubótaféð um 10%. Sú till. fékk ekki nema 2 atkv., en sjálfstæðismenn eiga fjóra menn í nefndinni. Hin till. var um lækkun á bensingjaldinu til vega um 10%. Heldur hv. þm. G.-K., að þetta séu stórar upphæðir, ef þær eru bornar saman við 6 milljónirnar, sem hann og félagar hans ætluðu að íþyngja fjárlögunum með. Hvorki hann né hv. þm. A.-Húnv. hafa getað gefið nokkur svör við því, hvar eigi að taka peningana til þeirra útgjalda, sem þeir hafa stungið upp á, án þess að komið væri alvarlega við þá liði, sem mönnum er sárast um. Hv. þm. G.-K. var reiður yfir því, sem ég sagði um útgerðina. Ég sagði það eitt, að útgerðinni yrði aldei bjargað með því að lækka tolla á útgerðarvörum. En hv. þm. G.-K. hefir enga tilraun gert til að útskýra það, sem ég gerði að aðalatriðinu í tali mínu um útgerðina, — því sjálfstæðismenn notuðu ekki stjórnaraðstöðu sína á árunum 1932 og 1933 til þess að koma fram þessum margumtöluðu hagsmunamálum sjávarútvegsins. Þeir voru kannske eitthvað að safna skýrslum. En þurftu þeir að eyða miklum tíma í það? Var þeim ekki kunnugt um ástandið? Það var engin tilviljun, að þegar þeir fóru út í stjórnarandstöðuna, hættu þeir að safna skýrslum, en frv. voru lögð fram. Það var af því, að það var einfaldara mál heldur en að hafa framkvæmdirnar á hendi sjálfir. Og ég vil benda á það, að það er vitaskuld ekki hægt með neinum ráðstöfunum frá Alþingi að snúa mesta aflaleysisári upp í góðæri fyrir íslenzkan sjávarútveg. Þetta ættum við allir að geta viðurkennt alveg rólega. En það er hægt að búa mismunandi vel að sjávarútveginum af hálfu hins opinbera. Og það ætla ég, að á þeim tíma, sem núv. ríkisstj. hefir farið með völd, hafi sjávarútveginum ekki verið íþyngt af hálfu hins opinbera, heldur hið gagnstæða. Það er aðalatriðið í þessu máll. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. G.-K. að kenna núv. stj. og stjórnarflokkum um vandræðaástandið í íslenzkri saltfisksútgerð. — Góða nótt.