20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

124. mál, alþýðutryggingar

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Hv. 11. landsk. og hv. 1. landsk. kvörtuðu báðir yfir því, að mál þetta væri illa undirbúið. Ég veit, að þetta er alveg sagt út í loftið. Síðan alþýðutryggingarlögin voru samþ. munu fá mál hafa fengið eins mikla athugun. Lögin urðu fyrir óbilgjarnri gagnrýni, og varð hún til þess, að farið var að athuga um umbætur á lögunum. Ég get skýrt frá því, að mál þetta hefir mjög verið rætt innan Alþfl., í nefnd, sem sett var til að athuga málið, og aðalatriðið úr tillögum þeirrar nefndar er tekið upp í þetta frv. Auk þess hefir trúnaðarmannaráð Dagsbrúnar haft lögin til ýtarlegrar endurskoðunar. Þá vil ég geta þess, að í sumar var haldinn á Akureyri fundur, og sóttu hann fulltrúar sjúkrasamlaganna í umdæminu. Þar voru lögin ýtarlega rædd, og tillögur þess fundar lágu fyrir þeim, er sömdu þetta frv. Ennfremur er það ekkert launungarmál, að innan stjórnarflokkanna hafa menn verið að verki við athugun á öllum þeim till., sem fram hafa komið til breyt. á lögunum, frá Alþfl., hv. þm. N.-Ísf. og líka skýrir menn frá Framsfl. Ég álít því, að þetta mál hafi verið betur undirbúið en flest önnur. Hinsvegar má vel vera, að finna megi galla á þessu frv., en þeir eru ekki svo stórvægilegir, að það borgi sig að fresta framkvæmdum þeirra vegna. Það á ekki að fresta þeim umbótum, sem verður að gera. Alþýðuna munar um minna en eitt ár. Hv. 1. landsk sagði, að hann teldi svo miklar umbætur á lögunum liggja í þessu frv., að hann teldi ekki rétt að stefna því í hættu. Það er viðurkennt, að í frv. felast engin ákvæði, sem gera lögin lakari, en mörg ákvæði, sem gera lögin betri og ljósari. Það dugar því ekki að fresta samþykkt þess. Hv. 11. landsk. leggur til, að málinu sé frestað með dagskrá og skipuð nefnd til að undirbúa það til næsta þings. En hvað getur slík nefnd gert á röskum mánuði? Ég er hræddur um, að hún gerði ekki mikið, og er því á móti þessari dagskrá.