20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

124. mál, alþýðutryggingar

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég vil andmæla því, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði, að sjálfstæðismenn hefðu ekki komið fram með mál sín fyrr en seint á þinginu. Það er furðulegt, að slík fullyrðing skuli koma fram, meira að segja þó að hv. 1. þm. N.-M. eigi í hlut. Það er öllum vitanlegt, að framan af þessu þingi lágu öll mál í salti, vegna þeirrar ástæðu, sem hv. 11. landsk. lýsti, — stjórnarflokkarnir voru að bíða eftir ákveðnum aðilja utan þingsins og þorðu ekkert að gera. Ég skal til dæmis nefna málið um síldarverksmiðju á Raufarhöfn. Það fékk ekki afgreiðslu frá sjútvn. fyrr en seint og síðar meir, vegna þess að meiri hl. n. beið eftir ákvörðunum manna utan þingsins. Ummæli hv. 11. landsk. voru ekki svo hörð, að ég í sporum hv. 1. þm. N.-M. hefði farið að mana fram lýsingu á því hneyksli, sem vinnubrögð þessa þings voru fram eftir öllu. Málin voru send í nefndir, en engin mál komu þaðan aftur. Öll stærri málin, samkomulagsmálin, komu þegar mjög var liðið á þingtímann. Þannig hafa vinnubrögðin verið með alþýðutryggingarnar. — T. d. hefir sá hluti allshn„ sem vill, að frv. verði samþ., eytt mestum tíma til að tala um agnúa á frv.; samt kemst þessi nefndarhluti að þeirri niðurstöðu, að frv. verði að ganga fram. Ég álit það skyldu hv. d. að nema burtu úr frv. þá agnúa, sem hv. þdm. finna á því, þó að þeir hafi komið inn í hv. Nd. Það er ekki til að auka álit og virðingu d., ef hún viðurkennir, að frv. hafi verið breytt á verri veg í hv. Nd., og samþykkir það samt. Og sízt ættu meðlimir d. að stuðla að slíku. Það kom heldur illa heim, sem hv. 3. landsk. sagði við yfirlýsingu hv. 1. landsk. um undirbúning þessa máls. Báðir telja þessir hv. þdm. sig fulltrúa verkalýðsfélaganna, en vitnisburðir þeirra um afstöðu verklýðshreyfingarinnar er algerlega andstæður. Hv. minni hl. allshn. hefir lýst því yfir, að í n. hafi málið alls ekki fengizt athugað. Þetta er ekki ósvipað þeirri aðferð, sem höfð var þegar sjálf tryggingarlögin voru sett. Þá var lögð áherzla á að berja allt tryggingarbáknið fram í einu. Allar mótbárur, allar tilraunir til lagfæringa voru kæfðar niður. Eins á að gera hér. Þó á þetta frv. að vera endurbót á lögunum. Afleiðingin verður sú sama og með tryggingarlögin. Þeim er flaustrað af, þó að á þeim séu þúsund og einn agnúi, og komi með hverjum deginum betur og betur í ljós. Þingið má ekki vera . að því að gera lögin sæmilega úr garði. Flokkarnir hafa komið sér saman um hvert smáatriði. Alþ. má engu breyta, þó að sjálfir forsvarsmennirnir verði til þess að benda á hvern agnúann eftir annan. Ég tel þjóðinni betur borgið, þó að mál sem þessi yrðu að biða til næsta þings, og fengju þá að sæta þinglegri meðferð. En meðferð þessarar hv. d. á frv. því, sem hér er til umr., er allt annað en þingleg. Minni hl. allshn. hefir lýst því yfir, að hann ætli að bera fram rökst. dagskrá um að fresta málinu til næsta þings. Ég álít það ólíkt skynsamlegri leið en að flaustra því af. Þá vinnst þó alltaf tími til að sverfa af verstu agnúana. En það mun fyrirskipað af stjórnarflokkunum, að Ed. geri engar breyt. á frv., en samþykki það eins og það er til d. komið.