20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

124. mál, alþýðutryggingar

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Út af ummælum hv. 1. landsk. vil ég leiðrétta þann misskilning, að allar umbótatillögur okkar séu fram komnar vegna þeirrar gagnrýni, sem fram hefir komið á lögunum. Umbæturnar eru fram komnar vegna réttmætrar gagnrýni, en frá hv. 1. landsk. og félögum hans hefir auk þess komið fram óvinsamleg og óréttmæt gagnrýni, og hefir íhaldsflokkurinn mjög verið samhuga Kommfl. um þessa gagnrýni. Það var mjög blekkjandi, sem hv. þm. sagði um gamla fólkið. Vitanlega má tryggja gamalmenni, sem orðin eru meira en 67 ára, með sömu kjörum og hina skyldutryggðu.

Þá tók hv. þm. sjúkrahúsin sem dæmi. Í þessu efni er engin breyt. frá því, sem nú er. Ef ekki tekst að semja við sjúkrahúsin fyrir það, sem samlögin sjá sér fært að greiða, þá verða einstaklingarnir nú að greiða mismuninn. Þetta er óbreytt enn, en þetta er eitt af því, sem veldur miklum örðugleikum, hvað sjúkrahúsin eru dýr, en hér er hvorki breytt til þess verra eða betra.

Þá vildi hann færa fram sannanir fyrir því, að breytt væri til hins verra, að nú væri dagpeningatryggingin skyldutrygging. Þetta er mjög mikill meiningarmunur milli alþýðunnar í þessum bæ. Þeir, sem búa við óákveðin laun, tímavinnumenn, og þeir, sem hafa stopula atvinnu, líta svo á, að þeim sé nauðsynlegt að tryggja sig fyrir sjúkdómum, og það sé meira um veit, að iðgjöldin geti verið lág, ef það er fært, en dagpeningagreiðslan undanskilin, en þeir, sem finna sig menn til að tryggja sig með dagpeningagreiðslum, geti það, en það sé engin skylda. Ég hygg, að ég þekki þetta eins vel og hv. þm., og ég veit, að þessi skoðun er ofarlega uppi. Þeir, sem tryggja sig fyrir dagpeningagreiðslu, hafa ekki nema vikufrest, því að það er ákveðið í brtt., að þegar á annað borð á að greiða dagpeninga, þá sé fresturinn ekki nema vika. Þetta er eitt af nýju ákvæðunum í frv., en ég skal játa, að ég var einn af þeim sem litu svo á, að eftir öllu því sem gerzt hefði í málinu, væri það meining löggjafans, að ekki væri nema vikubiðtími, en það hefir verið túlkað af öðrum, að hann sé lengri. Ég þykist því hafa sannað, að þessi dæmi, sem hann tók, séu ekki rétt sem ádeila á þessa brtt.

Við getum lengi karpað um undirbúning málsins, en ég hygg, að ekki verði annað talið en að málið hafi fengið góðan undirbúning, og þau atriði, sem mest áherzla var lögð á, eru nú komin inn í frv. Við vitum að þegar menn gera till. til breyt., þá detta fæstum í hug allar breyt., sem menn óska eftir að gangi fram, og svo mun hafa verið um þær till., sem hann vitnaði til, og fæstum mun hafa dottið í hug, að þær mundu geta orðið að veruleika.

Það er ekki heldur hægt að hrekja, að þetta mál hefir fengið betri undirbúning en flest önnur mál, sem komið hafa hér inn á Alþingi. Hinu megum við ekki heldur gleyma, að viðhorf manna til þess hvernig þessi l. eigi að vera, eru mjög misjöfn. Ég hygg, að sá flokkur, sem Alþfl. vinnur með, muni að sjálfsögðu hafa önnur sjónarmið, og verður þar einnig að taka tillit til hans óska, en ég játa, að hann hefir mætt okkur með fullum skilningi á öllum þýðingarmestu atriðum málsins.