21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

124. mál, alþýðutryggingar

*Árni Jónsson:

Ég vildi aðeins gera grein fyrir brtt. á þskj. 457. Hún er við 10. gr. í frv., en 10. gr. er aftur breyt. á 24. gr. l. Í 24. gr. l. er það ákvæði, að það er sett að skilyrði fyrir hlunnindum sem sjúkrasamlögin veita, að viðkomandi hafi ekki hærri skattskyldar tekjur en 4500 kr. Þessir menn eru hinsvegar greiðsluskyldir í samlögin án þess að hafa þar nokkur hlunnindi. Nú hefir þessu verið breytt á þann hátt, að þessir menn geti öðlazt sömu réttindi og aðrir samlagsmenn, en þó því aðeins, að þeir greiði a. m. k. helmingi hærra iðgjald. Það er þetta „að minnsta kosti“, sem ég hefði viljað fella burt, en í stað þess kæmi allt að helmingi hærra o. s. frv.

Manni virðist, að það hljóti að vera nokkuð hart að gengið, þegar maður, sem hefir ekki nema 4600 kr. skattskyldar tekjur, verður til þess að öðlast réttindi í sjúkrasamlagi að greiða helmingi meira en sá, sem hefir 100 kr. minni tekjur. Með brtt. ætti að vera fyrir því séð, að stjórnir sjúkrasamlaganna geti nokkuð miðlað þarna málum, svo ákvæðið komi ekki eins ranglátlega niður eins og gert er ráð fyrir í gr., ef hún er óbreytt.

Næsta brtt. er við 11. gr. frv., en hún er aftur við 26. gr. l., en hún er um skipun stjórnar sjúkrasamlaganna. Eins og l. eru nú, þá kjósa bæjarstjórnir stjórnir sjúkrasamlaganna með hlutfallskosningu, og er gert ráð fyrir þremur, fimm, eða sjö mönnum, sem kosnir eru á sama tíma og fastanefndir eru kosnar. Þar er einnig ákvæði um, að bæjarstjórnir ákveði þóknun til þessara manna, sem greiðist af samlögunum. Í frv. er þessu breytt á þann hátt, að ráðh. skipar formenn samlaganna eftir till. tryggingarráðs, en bæjarstjórnirnar kjósa svo menn til viðbótar. Þá er og í þessari 11. gr. frv. sú breyt., að í stað þess, að bæjarstjórnir ákveða nú þóknun til stjórnarnefndarmanna, þá sé það tryggingarstofnun ríkisins, sem ákveði þessa þóknun. Um þessar breyt. er það að segja, að mér finnst og mörgum fleiri, að það sé miklu eðlilegra eins og það nú er, að þar sem bæjarstjórnirnar hafa jafnmikinn veg og vanda af sjúkrasamlögunum eins og þær hafa, þá hljóti það að vera eðlilegt, að bæjarfélögin hafi sem mesta íhlutun um stjórn þeirra. Einmitt það, að bæjarstjórnirnar kjósa sjálfar stjórnir samlaganna, skapar þeim þá ábyrgð, að þær hljóta alltaf að hafa áhuga fyrir því, að stjórn sjúkrasamlaganna fari sem bezt úr hendi. Ég held því, að það sé misráðið að draga völdin úr höndum bæjarstjórnanna, eins og gert er ráð fyrir með frv. eins og það liggur fyrir.

Hinar 2 brtt., við 13. og 14. gr. frv., eru í sambandi við brtt. við 11. gr. og það er í beinu áframhaldi af því, að þær hljóta að standa eða falla með hinum brtt. Ég sé því ekki ástæðu til að lýsa þeim sérstaklega.