21.10.1937
Efri deild: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

4. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Atvmrh. (Haraldar Guðmundsson) :

Í l. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, breyt. þeirri, sem gerð var á síðasta þingi, er ákveðið, að lánveitingum samkv. þeim l. skuli lokið fyrir lok septembermánaðar. Reynslan hefir sýnt, að ekki var kleift að ljúka þeim fyrir þann tíma, og varð því annaðhvort að fella niður starfsemi sjóðsins eða framlengja frestinn nokkuð fram yfir 30. september. Að svo komnu áleit ríkisstj., að ekki yrði hjá því komizt að leita einhverra ráða til að halda áfram starfsemi sjóðsins, og því voru bráðabirgðal. gefin út, og er nú leitað staðfestingar Alþingis á þeim. Mál þetta hefir áður verið hjá sjútvn., og legg ég til, að því verði vísað til hennar að lokinni umr.