21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

124. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ástæðan til þess, að ég flutti þessa brtt., þó að svo væri orðið áliðið þingtímans, sem nú er, var sú, að ég þóttist viss um, að enginn ágreiningur yrði um hana milli deilda. Um aðrar þær brtt., sem fram hafa komið, er það að segja, að þær hefðu getað valdið ágreiningi milli deildanna. Um brtt. á þskj. 457 get ég verið stuttorður, en vil þó segja hv. 1. þm. Reykv. það, að ég álít það óeðlilegt, að menn, sem hafa yfir 4500 kr. árstekjur, njóti styrks af ríki og bæ á sama hátt og þeir, sem minni laun hafa. Um hinar aðrar brtt. hirði ég ekki að ræða. Ég verð þó að segja, að mér finnst það engin ágengni á bæjar- og sveitarstjórnir, þó að tryggingarstjórnin skipi einn mann í samlagsstjórn, þegar sveita- og bæjarstjórnirnar skipa ýmist 2 eða 4. Ég sé mig því neyddan til að mæla gegn brtt. á þskj. 457.