21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

124. mál, alþýðutryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég tók það fram í gær, að ég hefði ekki komið fram með brtt. nú, af því að ég áliti það tilgangslaust, þar sem samið hefði verið um það af meiri hl. þingsins að afgr. það óbreytt eins og það kom frá hv. Nd. En þar sem hæstv. atvmrh. sjálfur hefir nú komið með brtt., sé ég ekki ástæðu til að halda þeirri skoðun áfram. Ég hirði þó ekki um að koma með allar þær brtt., sem ég hefði kosið, en ber þó nokkrar fram og vil freista þess, hvort ekki sé hægt að fá smávegis lagfæringar á frv. enn. Stærsta brtt. er sú, að gamalmenni, eldri en 67 ára, verði áfram á skyldutryggingunni. Ég þarf ekki að færa frekari rök fyrir þessari till. en ég hefi þegar gert. — 2. brtt. er um það, að þeir sjúklingar, sem haldnir eru langvarandi sjúkdómum, og geta því ekki komizt í sjúkrasamlög, eigi rétt til hlunninda samkv. lögunum um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Það var sagt í hv. Nd. á dögunum, að þessi brtt. væri óþörf, því að allir þeir, sem haldnir væru langvarandi sjúkdómum og ekki komust inn í sjúkrasamlögin, nytu hlunninda samkv. þessum lögum. Ef svo er, því þá ekki að taka það skýrt fram í lögunum? Þessu er ekki trúað af almenningi, og sé þessu þannig varið, er rétt að setja skýlaust ákvæði um það, í sjálf lögin, svo að fólk sjái, að óbætt er að treysta þessu. Annars vita allir, sem til þekkja, að til þess að njóta hlunninda samkv. lögunum um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, þarf hver einstakingur að senda umsókn, og það er undir hælinn lagt, hvort sú umsókn verður tekin til greina. En mér skilst, að það sé sómi hv. Ed. að taka af öll tvímæli um þetta atriði, fyrst frv. á nú á annað borð að fara aftur til hv. Nd.

Þá er ákvæðið um sjúkrahúsin. Hér í frv. er svo ákveðið, að nái samlögin ekki samningum við sjúkrahúsin, verði sjúklingurinn sjálfur að greiða mismun þann, sem verður á dvalarkostnaðinum. Ég legg til, að þetta ákvæði falli niður, og þarf ekki að rökstyðja það nánar en ég gerði í gær. Ég tel skaðlegt að lögfesta slíkt ákvæði, og að heldur beri að stefna að því, sem tvímælalaust er í samræmi við anda laganna, að sjúkrahúsvist verði algerlega ókeypis. Verði þetta ákvæði samþ., má búast við, að viða rísi ágreiningur milli samlaga og sjúkrahúsa, og það ýtir undir samlögin með að fara svo lágt sem þeim sýnist, jafnvel lægra en sjúkrahúsin geta staðið sig við að samþykkja. Með þessu yrði það algerlega undir stjórn samlaganna komið, hvort meðlimir þeirra fá ókeypis sjúkrahúsvist eða ekki, þar sem þau geta látið samninga við sjúkrahúsin stranda, ef þeim sýnist svo.