21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

124. mál, alþýðutryggingar

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Ég ætla ekki að svara hv. þm. S.-Þ. Það finnst mér öðrum skyldara að gera hér í þessari hv. d. — En það, sem kom mér til þess að standa upp, voru ummæli, sem féllu frá einstökum þm., og skal ég þá fyrst víkja að hv. 11. landsk., þar sem hann vitnaði til okkar nál. í þessu máli. Það er okkar skoðun, að málið sé komið svo í eindaga, að ekki sé hægt að gera á því neinar verulegar breyt., þó að menn vildu. En eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, þá hefði ég viljað gera breyt. við 31. gr., sem sett var inn í frv. í hv. Nd. Hinsvegar get ég vel skilið það, að einstaka þm. greini mjög á um það, hvað eigi að standa í þessum lögum og hvað ekki, því að hér. er um svo mikið hagsmunamál að ræða. Og ég býst við, að hversu vel sem þetta mál hefði verið undirbúið, þá hefði alltaf mátt togast á um það, hvort þessa eða hina till. ætti að samþ. Undirbúning þessa máls hefi ég áður gert grein fyrir, og ég held fast við þá skoðun mína, að málið hafi fengið það góðan undirbúning, að fá mál hafi fengið hann betri.

Að vísu eru hér bornar fram brtt. af fleirum en einum, og hæstv. atvmrh. hefir séð sig knúðan til þess að bera fram brtt., sem hann trúir, að ekki muni valda neinum ágreiningi, og mun ég í sjálfu sér fylgja þeirri till., en mér var það fyllilega ljóst, að ef farið yrði að bera fram eina brtt., þá mundu margar koma á eftir; en sem sagt, það er líka sú eina brtt., sem ég get greitt atkv. með. Hún er þess eðlis, að það virðist óumflýjanlegt að samþ. hana. — Um brtt. þm. ætla ég ekki að fjölyrða hér, því að það hefir verið gert af hæstv. atvmrh., og hefi ég þar litlu við að bæta.

Þó vil ég víkja örfáum orðum að hv. þm. Hafnf. Hann var að gera grein fyrir því, af hverju lögin væru óvinsæl, og vildi hann gera mikið úr því, að skattur á þá menn, eins og hann orðaði það, sem ekki væru hluttækir í lögunum, hefði valdið mestu óánægjunni. En ég fullvissa hann um það, að hversu mikilli óánægju það kann að hafa valdið hjá þeim fáu mönnum, sem þar áttu hlut að máli, þá hygg ég, að það hafi haft afarlitið að segja almennt meðal fólksins. Hér í Reykjavík eru yfir 20 þús. hluttækir menn, en aðeins 1700 manns, sem ekki gátu heyrt undir það að vera hluttækir, og ég hygg að allur sá fjöldi, sem er fyrir utan þá tölu, hafi látið sér á sama standa, hvort þeir væru hluttækir eða ekki. En hitt má vera, að þau hlöð, sem að þessum mönnum standa, hafi gert mestan vindinn út af þessu. Að vísu skal ég játa, að ég hefi alltaf lítið svo á, að rétt væri, að allir gætu verið hluttækir, og ég hefi orðið þess var af viðtölum við marga menn, að þeir væru fúsir til þess að leggja á sig helmingi hærri iðgjöld fyrir það eitt að njóta þeirra hlunninda, sem lögin ákveða, og það er einmitt það, sem gert er ráð fyrir í þeim brtt., sem fyrir liggja.

Hv. þm. Hafnf. vildi einnig halda því fram, að ákvæðið um fólk með langvarandi sjúkdóma, sem áður hefði verið tekið í tryggingarnar, en ekki verður það hér eftir, mundi valda mikilli óánægju. Þetta getur vel verið, en ég hygg, að svo verði um flest, að alltaf bóli á einhverri óánægju fyrst í stað, þegar breyt. eru gerðar. En í þessu tilfelli getur ekki orðið um neinn verulegan hóp að ræða, og eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, er ætlazt til, að þetta fólk, sem er með langvarandi sjúkdóma og ekki er talið tryggingahæft, fái styrk frá hinu opinbera á annan hátt, með lögunum um framfærslu sjúkra manna og örkumla og berklavarnalögunum.

Þá vildi hv. þm. meina, að gamalt fólk, sem ekki er skyldutryggt nú, þurfi að afla sér læknisvottorðs um, að það geti fengið tryggingu. En þetta stendur hvergi í þeim brtt., sem nú liggja fyrir, og þeir menn, sem mest hafa unnið að því að undirbúa lögin, hafa mótmælt þessum skilningi, þar sem hann hefir komið fram, og segja, að það sé ekki meiningin, að þetta fólk eigi að afla sér vottorðs, ef það vilji tryggja sig.

Þá vildi ég segja örfá orð við hv. 2. þm. N.-M. Hann mælti hér nokkur orð um þetta mál, og það af miklum skilningi, og ætla ég sízt af öllu að fara að ávita hann á nokkurn hátt. — Ég get vel skilið, að bæði hann og sumir aðrir séu óánægðir með að geta ekki gert þessu máli svo rækileg skil sem þeir mundu óska, og ég er honum sammála um það, að slíkt eru hreinustu vandræði, þegar stórmál ber svo seint að í annari d., að hún geti ekki lagt fram þá vinnu, sem hún teldi æskilega, en á þessu eigum við enga sök í þessu tilfelli. En slík vinnubrögð og meðferð mála hér á Alþ. eru vitanlega með öllu óverjandi.

Hv. þm. sagði, og það með réttu, að þetta væri stórmál, og hann taldi — sem ég er honum þakklátur fyrir —, að í frv. væru svo miklar umbætur, að sjálfsagt væri, að málið gengi fram. Þetta er í samræmi við mína skoðun, að þær till., sem nú liggja fyrir við tryggingarlögin, séu það mikils virði, að ekki megi, alþýðu landsins vegna, slá þeim umbótum á frest um heilt ár, eins og óumflýjanlega mundi verða, ef málið ætti að þíða næsta þings. Hinsvegar er ég fullviss um það, að ekki verður hjá því komizt í svona merkilegri og þýðingarmikilli löggjöf, að á næstu árum komi í ljós ýmsir ágallar, sem lagfæringar þurfa við. Reynslan sker alltaf úr, og hvernig svo sem menn leggja sig alla fram um að finna það rétta, þá getur þeim alltaf yfirsézt. Og hv. þm. er vel kunnugt um það, að hans eigin flokksmenn voru með í undirbúningi málsins, og veit hann það ennfremur, að málið í þeirri mynd, sem það er nú, ber nokkurn svip af þeim undirbúningi, og get ég að vísu verið þeim þakklátur fyrir það, hvað þeir hafa viljað mæta okkur í ýmsum þeim umbótatill., sem nú liggja fyrir. Þeir gallar, sem menn kunna að finna á þessu, eru þess eðlis, að ef maður tekur till. þær, sem liggja fyrir frá hv. 11. landsk., þá sést, að þær eru allt annars eðlis heldur en till. frá hv. 1. landsk. Annar vill draga úr þeim kröfum, sem eru í frv., hinn vill auka þær. Við sjáum, hversu miklar andstæður koma fram í máli eins og þessu. Mér skilst, að hér sé í raun og veru farinn meðalvegurinn milli þessara tveggja andstæðna, og betur er ekki bægt að gera, eins og nú standa sakir. Ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með þeim till., sem fram eru komnar, utan þeirrar einu, sem hæstv. atvmrh. telur óumflýjanlega til þess að hægt sé að framkvæma lögin.

Að síðustu vil ég svo segja það, að mér er fyllilega ljós sá agnúi, sem hv. þm. S.-Þ. drap á, sem sé sú afstaða, sem sjúkrasamlögin hafa til læknastéttarinnar, sérstaklega þó hér í Reykjavík, og það er alveg rétt, að læknarnir hafa verið þungir í skauti um samninga, þegar um laun fyrir störf þeirra hefir verið að ræða. Hitt er mér ekki kunnugt um, hvort þeir hafa aukið tekjur sínar á sjúkrasamlögunum. Mér hefir verið sagt af kunnugum mönnum, að þær hafi orðið jafnari á læknana heldur en áður en samlögin komu. Hvort laun lækna við sjúkrasamlögin eru óvenjulega há eða ekki, get ég ekki dæmt um, því að það liggja í rauninni ekki skýrar tölur fyrir um það, en ég býst við, að sú upphæð, sem hér var nefnd, sé í raun og veru ekki nettótekjur lækna, heldur brúttótekjur þeirra, en það vita allir, að það er mikill tilkostnaður í sambandi við starf lækna. Ef nettótekjur þeirra, miðað við laun annara þegna þjóðfélagsins, reynast of háar, þá fæ ég ekki séð, hvernig á að skipa þessu í l., ef ekki er hægt að koma þessu fyrir í frjálsum samningi við stéttina. Ég býst við, að þinginu mundi verða nokkuð þungt í vöfum að skipa það með l., að þessi stétt sé skyldug til að vinna fyrir ákveðið kaup. — Þessu vildi ég aðeins svara út af ræðu hv. þm. S.-Þ.