21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

124. mál, alþýðutryggingar

*Jóhann Jósefsson:

Úr því sumir af þeim, sem áður héldu því fram, að það mætti enga breyt. gera á þessu frv. og þess vegna yrði, þrátt fyrir galla þess, að samþ. það eins og það væri, hafa lýst yfir því, að þeir ætli að samþ. brtt. hæstv. ráðh., þá mælir öll sanngirni með því, að a. m. k. 1. brtt. á þskj. 457, við 10. gr., verði samþ., því að það sjá allir, hversu ósanngjarnt það er, þar sem hámarkið í l. er 4500 kr. skattskyldar tekjur, að þeir sem hafa meira en það, geta á engan hátt fengið að vera tryggðir. en nú er að vísu opnuð leið með 10. gr. frv., að þeir geti, ef stj. sjúkrasamlaganna vill, fengið tryggingu, en undireins og tekjurnar eru orðnar hærri en 4500 kr. skattskyldar tekjur eða komnar yfir þetta mark, þá verður iðgjaldið helmingi hærra, hvorki meira né minna. Nú fer brtt. fram á, að í staðinn fyrir að sagt er, að þeir greiði „a. m. k. helmingi hærri iðgjöld“ komi: „allt að helmingi hærri iðgjöld en aðrir samlagsmenn“. Mér finnst sanngirni mæla með því, að það sé einhver munur á því gerður, hvort viðkomandi maður hefir t. d. 100 eða 200 kr. hærri tekjur en hámarkið er, eða hann hefir 2000 kr. hærri tekjur, sem vel gæti verið og jafnvel meira, og væri sízt um að sakast, þó að iðgjöldin væru að því skapi hærri, en það eru margir menn í landinu, sem hafa einmitt tekjur, sem fara ekki nema örlítið fram yfir þetta mark. Þessir menn eru skyldir til þess að greiða iðgjöldin en hafa engin réttindi. Þessi tvö orð, sem hér er lagt til, að sett verði inn í gr., skapa því möguleika til þess að ná miklu meira réttlæti í framkvæmd þessara l. heldur en ella, ef 10. gr. er samþ. alveg óbreytt. Mig furðar á því, ef hv. dm. geta ekki verið einhuga um þetta mál, þegar sú ástæða er burt fallin, að það megi ekki samþ. brtt. af því að það megi ekki tefja málið. Sú ástæða er burt fallin með yfirlýsingunni um, að brtt. hæstv. ráðh. verði samþ. (SÁÓ: Það er ekki vist, að dm. séu samþykkir hinu). Ég get vel skilið, að það sé ekki allir sammála um hina till., en mér finnst það liggja alveg opið fyrir, að menn hljóti að geta verið sammála um þessa till., og ég vil leggja áherzlu á, að menn athugi, að hér er um svo mikið sanngirnismál að ræða, að það er furðulegt, ef hv. dm. geta ekki fallizt á þessa breyt. Annars var það rétt fram tekið hjá hv. þm. S.-Þ., þó að ég vilji ekki taka undir allt í ræðu hans, að þetta mál er allt snöggsoðið og ólíklegt annað en að það þurfi að fara fram mjög ýtarleg og gagngerð endurskoðun á allri tryggingarlöggjöfinni, þó að þetta frv. nái fram að ganga. Ég er hræddur um, að ýmislegt af því, sem ná er verið að lögleiða, komi til með að ganga í svipaða átt eins og t. d. sum ákvæði berklavarnal., að þó að hér sé um að ræða till., sem í eðli sínu geti verið réttmætar, þá sé hinsvegar og verði nokkuð opin leið fyrir því, að þær verði misnotaðar. Ég skal benda á 21. gr. frv., sem er breyt. á 3. málsl. 36. gr. l. Þar stendur svo í frv.: „Einnig er rétt, að greidd séu úr bæjar- eða sveitarsjóði iðgjöld annara þeirra manna, sem fyrir fátæktar sakir hafa ekki getað staðið í skilum með iðgjöld sín“. Þetta er náttúrlega í sjálfu sér eðlilegt, en hver er mælikvarðinn á það, hvort það er ávallt. fyrir fátæktar sakir, að menn geta ekki staðið í skilum, eða það er fyrir einhverjar aðrar sakir? (SÁÓ: Það á að skipa þessu með reglugerð). Það er sagt, en ég held, að nokkuð hliðstæð ákvæði í berklavarnal. hafi verið skipað með reglugerð, en þó dylst engum manni, að einmitt þess háttar ákvæði olli því, hvað berklavarnal. hlóðu miklum kostnaði á það opinbera, án þess svo að segja að nokkurn hemil hafi verið hægt að hafa á því. Það liggur engin brtt. fyrir um þetta atriði; ég vildi aðeins benda á það. Ég vil svo að lokum enn á ný beina því til hv. dm., að þeir samþ. a. m. k. þessa fyrstu brtt. á þskj. 457, því að hún er ábyggilega til stórra bóta.