21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

124. mál, alþýðutryggingar

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það er nákvæmlega sama sagan og sumarið 1931, þegar hv. þm. S.-Þ. hellti sér yfir læknastéttina. Alltaf ef hann hyggur sig geta svívirt hana þá gerir hann það. — Ég ætla ekki að gera honum þá ánægju að anza miklu af því, sem hann sagði um mig. Enda þykir mér ég hafa tekið talsverðum framförum í hans augum síðan 1931. Þá bar hann mér á brýn, að ég hefði ekki nennt að sækja um læknisembætti, en nú er ég orðinn eljumaður, segir hann. (JJ: Þrjátíu þúsundin sanna það). Þessi skilningsauki finnst mér góðs viti. En um leið dylst ekki, að nú er hann kominn á raupsaldurinn. Þegar svona mikið ber á karlagrobbinu, er það oftast af því, að mönnum finnst þeir ekki vera metnir af öðrum.

Hv. þm. virtist vera að drótta því að mér, að ég drægi undan við skattaframtal. Þá finnst mér skörin farin að færast upp í bekkinn. Ég skora á þingmanninn að endurtaka þessi ummæli sín utan þinghelginnar, svo að ég geti hrundið þeim með aðstoð dómstólanna. — Ég hefi reynt að koma heiðarlega fram, hvar sem er. Ég hélt, að hv. þm. gæti ekki haft ástæðu til slíks, ef hann hefir nokkra samvizku. — En náttúrlega segja menn sitthvað tilhæfulaust, þegar þeir komast í habít, og getur vel verið, að ég fyrirgefi honum það, því að ég er hversdagsgæfur maður, en þess krefst ég, að hann játi það þá opinberlega.

Hv. þm. kenndi það tryggingarlögunum, hvað margir vildu hafa mig fyrir lækni sinn og hve háar tekjur minar væru. Ég get sjálfsagt aldrei komið honum til að trúa því, þó að ég gæti sannað það með tölum, að minar tekjur hafa sízt hækkað síðan tryggingarnar komu í gildi.

Það var lítið annað, sem ég þurfti að svara hv. þm. Ég hefi aldrei heyrt það fyrr, að læknar hafi verið á móti því, að landsspítalinn var reistur og kennslustofnanir bættar o. s. frv. Margir læknar hafa unnið mikið að því, a. m. k. hefði mátt nefna Guðmund Hannesson. Ýmsir aðrir mætir menn hafa unnið dyggilega, þó að þeir hafi ekki viljað hreykja sér eins hátt eða láta eins mikið á sér bera og hinir, sem hæst láta eftir á.

Hv. þm. lét á sér skilja, að við læknarnir værum ekkert meiri en mennirnir, sem vinna á eyrinni. Það er rétt, að báðir eru jafnnauðsynlegir í sínu þjóðfélagi. En það er ekki sambær:legt, hvað læknirinn hefir orðið að kosta meira til sín, bæði á löngum námsferli og síðan á starfsbraut sinni, áður en hann getur haft svo mikinn sjúklingafjölda og miklar tekjur.

Það er hart, að þessi hv. þm. skuli reyna að draga úr gildi læknismenntunar. (JJ: Vanmenntunar, skulum við segja). Það þarf ekki að vanþakka starf lækna, þó að þeir taki eitthvað fyrir það. — Mér dettur í hug, að ef hann hefði orðið læknir, væri hann einhver sá argasti „hómópati“. Því að alla menntun og allt, sem læknar gera til að fullkomna sig, það virðir hann einskis að neinu leyti. Og það veit þm., þó að hann vilji ekkert úr því gera, að læknar hætta sér oft meir en aðrir við starf sitt, — bæði við slysum og smitandi sjúkdómum. Ef bann flettir upp í hagskýrslum um meðalaldur lækna, þá er hann lægri en annara stétta þjóðfélagsins.

Ekkert, sem kemur læknum við, getur hv. þm. S.-Þ. séð öðruvísi en umhverft eða á höfði, en sú glámskyggni stafar af því, að hann telur, að læknar hafi gert sér skráveifu áður fyrr og að það hafi meðfram orðið til þess, að hann hrökklaðist frá völdum. Það er það, sem hann getur ekki fyrirgefið.