30.10.1937
Neðri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Einar Olgeirsson:

Það er, eins og öllum þm. er kunnugt, ákveðið í hinum upprunalegu lögum um tóbakseinkasöluna, að tekjur af henni skuli renna til verkamannabústaða og byggingar- og landnámssjóðs. Nú um nokkur ár hefir þetta ákvæði verið burt numið með bráðabirgðabreyt. nokkurra laga, eins og enn á að gera samkv. 3. lið 1. gr. þessa frv. Ég hefi borið hér fram brtt. um, að sá liður falli burt, og við það fengju ákvæðin í einkasölulögunum gildi sitt.

Ég álít það mjög slæmt, ef lögin fá ekki að halda gildi sínu. Lögin um verkamannabústaði eru ein þau beztu og merkustu lög, sem Alþingi hefir sett. Það er ákaflega óheppileg aðferð fyrir ríkið að ná inn tekjum með því að svipta hinar vinnandi stéttir þeim rétti, sem löggjafarþing þjóðarinnar er búið að veita þeim. Það er bezt fyrir ríkið að varðveita þá hugmynd hjá alþýðu, að sá réttur, sem þannig er fenginn, standi nokkuð stöðugur. Fólkið þarf að finna til öryggis um það, að ekki verði strax farið að breyta til ills því, sem með mikilli og örðugri baráttu hefir komizt í gegn. Þetta hefir samt komið fyrir nokkuð oft. Það má minna á lögin um greiðslu verkakaups í peningum, lög, sem eru búin að standa í meira en þrjátíu ár, án þess að sérlega vel hafi gengið að fá þau framkvæmd.

Um leið og ég legg fram þessa brtt., sem mun þýða 600 þús. kr. tekjumissi fyrir ríkissjóð, vil ég lýsa yfir því, að ég mun bera fram frv. um tekjuöflun í ríkissjóð í þess stað: Í fyrsta lagi um stóríbúða- og háleiguskatt, — það er betra en að svipta alþýðu styrk til húsabóta. — Ef þessi brtt. verður samþ., legg ég til, að hinn nýi skattur, sem ég nefndi, renni í ríkissjóð, en renni til verkamannabústaða, ef hún verður felld. Ennfremur mun ég bera fram tillögur viðvíkjandi tekju- og eignarskatti og um skatt á „lúxus“-bifreiðar.

Ég álít það þess vegna langheppilegast að hætta þessari venju síðustu ára, að afla ríkissjóði tekna með bráðabirgðabreyt. laga, slíkum sem þessari, og framfylgja heldur þeim lagaákvæðum, sem miða að því að auka atvinnu í landinu.