30.10.1937
Neðri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Héðinn Valdimarsson:

Þessar tekjur, sem verkamannabústöðunum eru ætlaðar frá tóbakseinkasölunni, nema eitthvað 100 þús. kr. á ári, minnir mig. Ákvæðið í l. er fyrst fengið fyrir tilbeina Alþfl. Og í sjálfu sér hefði flokkurinn vissulega viljað halda þessum tekjum óskertum handa verkamannabústöðunum. En þegar þessi bráðabirgðabreyt. laganna hefir verið samþ. á undanförnum þingum, þá er það ekki af því, að okkur fulltrúum hans hafi verið það ljúft. Það hefir verið gert í sambandi við afgreiðslu fjárl. og mjög margra annara mála, sem þurfi hefir að semja um hér á Alþingi.

Nú hafa engir slíkir samningar verið gerðir hér enn af hálfu Alþfl., og því mun hann ekki telja sig bundinn við að framlengja þessar bráðabirgðabreyt., sem felast í frv. — Ég vil geta þess, að tryggt hefir verið, að ekki minnkuðu byggingar í landinu við þessa breytingu. Ríkisstj. hefir tryggt það, að lán fengjust í staðinn til þeirra framkvæmda. Eins yrði nú að sjá fyrir því, að ekki minnki atvinna fyrir þessa bráðabirgðabreyting.

Ég skal viðurkenna, að það er óþægilegt að þurfa að fresta framkvæmd laga á þennan hátt. Þetta sama mætti í rauninni segja um ýmsar fleiri breyt. í þessu frv. Það er á engan hátt æskilegt að hafa mörg lög, sem frestað er framkvæmdum á frá ári til árs. Þá væri auðvitað betra að hafa annað skipulag á tekjuöflun og sparnaðaraðferðum.

Ég hefði óskað, að þessi brtt. hefði ekki þurft að koma til fullnaðarafgreiðslu að sinni. Ég geri ráð fyrir, að málið verði aftur tekið fyrir í Ed., og greiði ekki atkv.