16.12.1937
Efri deild: 51. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Magnús Jónsson:

Ég legg þetta ekki til út frá því, að ég sé fyrir kirkjunnar hönd að vanþakka það, sem er gert vel til hennar. En það er dálítið sérkennilegt fyrir þessi f., að það framlag, sem rennur til þessara tveggja starfsgreina, fer algerlega eftir því, hvort . það er lítið eða stórt skarð höggið í starfsmannahópinn, þannig að þessi tekjuvon, sem ríkissjóður getur haft af þessum lið, getur orðið að engu, ef embættin eru veitt. Og ef þessar starfsgreinar leggja mikla áherzlu á að fá menn í þessi embætti, þá kemur ekkert til greiðslu í þessa sjóði, en hinsvegar get ég vel hugsað mér, að þeir, sem stunda þessar starfsgreinar, legðu minni áherzlu á þetta, ef nokkuð af fénu rynni til þessara starfsgreina. Ég álít, að það gæti vel borgað sig fyrir kirkjuna að hafa 2–3 embætti óveitt. (Fjmrh.: Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar fyrir þetta fé?). Ég er ekki kirkjuráðsmeðlimur og er því ekki vel kunnugt um þetta, en t. d. hafa ýmsir úrvals kennimenn farið um landið og reynt að vekja líf í prestaköllunum. Sömuleiðis hefir þessu fé verið varið til þess að styrkja útgáfu góðra rita og bóka um kristinsdómsmál, og er ýmislegt, sem má starfa fyrir þetta fé, fyrir eins viðtæka stofnun og kirkjan er; hinsvegar er þetta aldrei svo mikið fé, að um stórbrotna starfsemi geti verið að ræða.