18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þessi brtt. á þskj. 433 fer fram á það, að aftan við 17. lið frv. komi nýr liður, þar sem ákveðið er að fresta nú að kjósa í hin svokölluðu „ráð“, sem gert er ráð fyrir, að kosin séu samkv. l. nr. 31 9. jan. 1935, um eftirlit með opinberum rekstri, og fresta þess vegna um eins árs skeið starfi þessara ráða. Það er litið svo á af mörgum, að enda þótt þessi ráð séu sjálfsagt nauðsynleg, þá sé starf þeirra ekki það mikilvægt, að ástæða sé til að leggja í þennan kostnað nú að þessu sinni, og þess vegna sé hægt að fresta framkvæmd laganna á árinu 1938. Við höfum nú verið í vandræðum með að láta tekjur og gjöld ríkissjóðs standast á og gripið fegins hendi hvert tækifæri, þar sem við höfum getað sparað svo að segja nokkrar krónur, og þarna þóttumst við flm. finna einn lið, þar sem hægt mundi að spara án þess að nokkur verulegur skaði yrði af. Þess vegna höfum við, ég og hv. 2. þm. Eyf., lagt þessa till. fram og óskum eftir því, að hún verði samþ.