18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jón Baldvinsson:

Fyrst farið er á annað borð að liða „bandorminn“ í sundur, þá vildi ég gjarnan koma með einhverjar till. líka. Ég hefði t. d. gjarnan viljað fella burt 2. og 3. liðinn, en hefði hinsvegar getað sætt mig við það, að frv. færi óbreytt héðan, eins og fjhn. d. hefir lagt til, en úr því að farið er að gera breyt. í stórum stíl, þá sé ég ekki, að ég þurfi endilega að sitja hjá og láta frv. afskiptalaust. Ég mun því undir umr. athuga það, hvort ekki sé hægt að koma að skriflegri brtt., en mun hinsvegar láta það vera, ef þær brtt., sem fram eru komnar, verða teknar aftur, eða sú till., sem ég er meira á móti, á þskj. 433. Ég tel þá till. alveg óþarfa, og um svo litla fjárhæð að ræða, að það skiptir ríkissjóð ekki miklu. Og ef till. hv. 1. þm. Reykv. verður samþ., þá ézt sá sparnaður upp og meira til, svo að fjárhagslega fyrir ríkissjóð verður þetta alls ekki sparnaðaratriði. Ég mun sem sé í þessu atriði fara alveg eftir því, hvernig þm. hér í d. haga sínum till. Ef þær verða teknar aftur, mun ég ekki flytja neina till., en sé mig hinsvegar knúðan til þess, ef á annað borð verður farið að hrófla við frv. — Hv. fyrri flm.till. á þskj. 433 minntist ekkert á þetta við okkur í fjhn. Ed., og það hefði hann vitanlega ekki þurft að gera, en það hefði bara verið viðkunnanlegra, vegna þess hve mjög er liðið á þingtímann og að n. hefði þá kannske viljað athuga fleira í þessu sambandi. — Ég held því að rétt væri að fara þess á leit við hæstv. forseta að taka málið út að þessu sinni, til þess að finna fleiri höggstaði á „bandorminum“.