18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Magnús Jónsson:

Það stafaði af misminni hjá mér, er ég sagði í minni fyrri ræðu, að samþykkt þessara brtt. mundi valda því, að frv. færi til hinnar d. Það þarf hvort sem er að fara þangað, vegna þess að það hefir þegar tekið breyt. í þessari d. eftir till. hæstv. fjmrh., sem samþ. voru. Það er þannig ekki einu sinni sú ástæða, sem gæti legið til grundvallar fyrir því, að menn væru á móti minni brtt.

Hæstv. fjmrh. hafði það eitt á móti minni brtt., að þá mundu kannske fleiri till. koma á eftir. Hann hefði þá sjálfur átt að lifa eftir þessari reglu, en það gerði hann ekki. Hann leyfði sér einmitt sjálfur að bera fram brtt. og koma þannig röskun á þennan heilaga .,bandorm“. (Fjmrh.: Það var í samráði við fjvn.). Já, það var líka í samráði við góða nefnd, að ég bar fram mína brtt. Ég hygg, að kirkjuráðið sé engu síður góð stofnun en fjvn.

Hér er ekki einu sinni um 6 þús. kr. að ræða, heldur allt að 6 þús. kr. Eftir því sem landlæknir hefir tjáð mér, þá er ekkert læknishérað óveitt nú, svo að það eru ekki nema 3 þús. kr., sem til greina koma.

Ég viðurkenni, að það er mjög mikil viðleitni til sparnaðar að klípa 10% af því, sem veitt er til ýmsra framkvæmda, en ég er viss um, að engum þm. hefir dottið í hug að spara út af fyrir sig 300 kr. á einum vegarspotta, eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh., þó að sú verði að vísu oft raunin á, vegna þess að hér er um svo stórfelldar upphæðir að ræða, þegar til heildarinnar kemur.

Ég sé því ekki neina ástæðu til að draga þessa till. til baka. Ég óska, að hún komi til atkv. og að hv. þm. geti léð henni lið sitt, úr því að samþykkt hennar orsakar ekki einu sinni það, að frv. þurfi að hrekjast milli deilda.