18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Bernharð Stefánsson:

Þó að fjvn. gæfi ekki út nál. um þetta frv., þá var það samkomulag meiri hl. n., að málið yrði tekið til 2. umr., og mér skildist, að hann mælti með frv. með þeim breyt. einum, sem bornar voru fram af hæstv. fjmrh. Mér kemur það því á óvart, að form. n. er hér að boða brtt., og vona ég, að hann falli frá þeim.

Annars vil ég benda á það, að ef þessu frv. verður breytt nokkuð sem heitir, þá hlýtur afleiðingin að verða sú, að taka verður fjárlfrv. út af dagskrá í Sþ. nú í dag og fjvn. að taka það til nýrrar athugunar og bera fram brtt. við það í samræmi við þetta frv., vegna þess að eins og hæstv. fjmrh. hefir tekið fram; þá er þetta frv. og fjárlfrv., eins og það er nú og till. fjvn. í nánu sambandi hvað við annað.

Ég vil því sem fjhn. maður eindregið ráða d. til að samþ. frv. óbreytt eins og það liggur fyrir, og geri ég það þrátt fyrir það, þó að ég í sjálfu sér sé meðmæltur þeirri brtt., sem borin er fram af hv. þm. N.-M. og samþm. mínum. Ég álít bara, að eins og nú er komið borgi sig ekki að fara að róta þessu frv., því að það getur dregið fleiri dilka á eftir sér.