18.12.1937
Efri deild: 52. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jón Baldvinsson:

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. segir, að við vorum sammála um að mæla með frv. eins og það lá fyrir með þeim breyt., sem hæstv. fjmrh. hafði borið fram, en um hitt hafði ekkert verið talað, hvað gert yrði, ef fleiri till. kæmu fram við frv.

Og þegar nú á síðustu stundu kemur fram brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. um að fresta framkvæmd vissra laga og ekki hefir gefizt tækifæri til að leita til flokkanna um það, hvernig þeir tækju í það mál, og þegar fjárhæðin, sem um er að ræða, er ekki hærri en um 5 þús. kr., þá er hér um svo lítilfjörlegt atriði að ræða, að ég er hissa á hv. þm. að koma með þetta svona á síðustu stundu, vitandi það, að ef hreyft væri við þessu frv., væri ómögulegt að vita, hvar numið væri staðar á þeirri braut. Enda hefir það sýnt sig, að þm. hafa ekki talið sig bundna við það samkomulag, sem gert var um frv., þegar jafnvel sérstakur stuðningsmaður hæstv. fjmrh. ber fram brtt., og það að manni skilst þvert ofan í hans vilja.

Ég vildi því, áður en ég tek afstöðu í þessu efni, heyra hvaða meðferð hv. 1. þm. N.-M. vill láta hafa um þetta mál. Það liggur í hans höndum að ákveða, hvort menn fara að róta liðum „bandormsins“ í sundur eða ekki.